Japan, Tókyó: Dúskhúfur og leitin að Takamoto-götunni

Það hellirigndi á appelsínugula flugrútuna sem keyrði okkur  alla leið frá alþjóðaflugvellinum í #Narita til #Tókyó. Rúmlega klukkutíma akstur. Japanir kalla rútuna  lúxuslimósinu. Ég verð að viðurkenna að lúxusinn fór framhjá mér í þetta sinn. Þetta var í alla staði samskonar rútuferð og með flybus frá Keflavík til Reykjavíkur. Kannski missti ég af einhverju í japönsku rútunni  því ég hálfsvaf alla leiðina að rútustöðinni. Síðasta spölinn að okkar nýja heimili, sem við leigjum af ungu japönsku pari, fórum við í leigubíl. Japanir hafa sama stæl og Bretar með leigubíla, allir leigubílar eru samskonar; gamlar Toyotur. IMG_4694

Húsið sem við leigjum næstu vikuna er i Shinbyu hverfinu í Tókyó. Ég var steinhissa að sjá hvað allt var hér rólegt og afslappað. Við heilsuðum upp á leigusala okkar, ungt par með hund. „Hundurinn heitir Rouis,“ segir ungi leigusalinn og bendir á lafhræddan langhund. Rigningin, þrumurnar og eldingarnar hafa hrætt líftóruna úr honum.

„Heitir hann Louis?“ spyr Sus.

„Já, Rouis. Eins og tískuhönnuðurinn, Rouis Vuitton.“

„Ókeeey,“ svara ég og brosi til þessa japanska áhugamanns um tískuhönnuði.

IMG_4687Eftir að hafa komið ferðatöskum í skjól gengum við um kyrrlátt hverfið og inn á lítinn veitingastað. Alveg hætt að rigna og mikill hiti og loftrakinn örugglega 100%. Allir svangir. Í veitingahúsinu var okkur tekið fagnandi af ungum þjóni í stuttermabol með áletruninni „Sun of a Beach“ og allt var svo glaðlegt og afslappað að mynd mín af Japan og japönum (sem hefur hingað til verið dómíneruð af dauflegum unglingum í sjálfsmorðshugleiðingum og þrautpíndum, ungum námsbörnum) var algerlega snúið á hvolf. Hér gengu börn í skólabúningum um götur, oft tvö og tvö í heitum samræðum, afar frjálsleg í fasi. Á kaffistéttum sat ungt fólk með dúskhúfur, yfir svarta síða lokka, græna síða lokka, bleika síða lokka og í glaðlegum flíkum. Þegar ég kom auga á allar dúskahúfurnar fylltist ég söknuði yfir minni horfnu, en góðu, barnæsku. Í þá gömlu góðu daga gékk ég líka með #dúskhúfu.

Maturinn hjá litla, glaða veitingamanninum í stuttermabolnum reyndist bragðgóður í meira lagi. „The food was particulary good. And the coffee,“ eins og Tom Waits segir.

Í ljós kom að við þurftum að leysa mikilvægt mission, mitt inn í Tókyóborg. Innstungur í Japan eru ekki líkar þeim innstungum sem ég er vanur að nota. Allir iPhonar voru rafmagnslausir, tðlvur á síðustu rafmagnsneistunum og Beats headphonar unglingsdrengjanna orðnir þurrausnir. Við urðum að finna millistykki ef við ætluðum að halda áfram að knýja hina digital-tilveru okkar áfram.

Við vorum nokkuð fljót að finna verslun sem sérhæfir sig í öllu milli himins og jarðar. Maður kemur inn í snyrtivörudeildina, þar sem langar og loftháarhillur svigna undan allskyns sápum og ilmvötnum, síðan tók við hillur med hunda- og kattamat, raftæki, matvörur, hreinlætisvörur, langar raðir af armbandsúrum og svona má lengi telja. Milli hillnanna voru dimmir og þröngir gangar. Við vorum búin að þræða búðina endilanga, kíka í öll horn áður en við loks fundum rétt millistykki. En til þess þurftum við hjálp ungs manns sem leiddi mig upp á fjóðu hæð til að fiska hina réttu innstungu upp.IMG_4692  Á meðan ég borgaði flýtti hann sér niður til hinna í fjölskyldunni til að afsaka að hann hafi þurft að leiða mig upp á 4 hæð og láta alla bíða. Þeir eru kurteisir japanir.

Á morgun þurfum við að vakna klukkan 06:00. Við eigum nefnilega stefnumót við sumokappa. VIð fáum að fylgjast með æfingum og lífi sumu-bardagamanna á morgun og verðum gestir þeirra í svokölluðu Sumo-fjósi (sumo-stall).

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.