Japan, Tókyó: Hjá sumo-mönnum

Já, vekjarklukkan hringdi nákvæmlega kl 06:00. Ég var í fastasvefni enda hálftímaruglaður. Þegar klukkan er 06:00 um morgun í Japan er hún 23:00 í Evrópu. En hvað um það, ég hoppaði á fætur enda mikilvægt stefnumót framundan á metrostöð í Tókyó. Við vorum komin út úr húsi klukkan 6:30 ilmandi eftir sturtubað.

Úti á götu var allt enn rólegra en í gær. Einn og einn morgunhani á hlaupum, annars allt rótt. Mitt í allri þessari kyrrð, sem var alla að æra, kemur þessi líka fíni rafknúni leigubíll. Þeir eru hljóðlausir rafmagnsbílarnir og það var sannarlega við hæfi að einn slíkur læddist upp að okkur þegar við snerumst um okkur sjálf og reyndum að ákveða í hvaða átt heppilegast væri að ganga.  Við stukkum auðvitað uppí bílinn. Ökumaðurinn var vel við aldur og reyndist vera hinn fimast bílstjóri. Stýrði rafbílnum hljóðlaust og öruggt í  gegnum Tókýó og á áfangastað. IMG_4696Stefnumótið var sett klukkan 7:10 en við vorum mætt 6:30. Við fundum því 10-11 búð þeirra japana sem er opin allan sólarhringinn og þar var hægt að fá kaffi og þurrkaða kolkrabba í poka. Við keyptum okkur morgunmat og settum okkur niður á bekk við lítið torg þar sem flokkur japana stóð og stundaði morgunleikfimi að japönskum sið. Mér fannst freistandi að taka þátt í leikfiminni en kaffið var enn meira freistandi svo ég sat sem fastast, drakk kaffið og fylgdist með léttum teygjuæfingum undir bláum himni.

Stundvíslega kl 7:10 vorum við komin að metróstöðinni þar sem stefnumótið var ákveðið með kanadískum manni sem hafði skipulagt heimsókn í sumo-fjós. Kanadamaðurinn var álíka stundvís og við. Það var augljóst að sumóheimsóknin var mikilvæg fyrir hann. Hann sagði að hann hefði allt síðan í janúar 2014 reynt að koma heimsókninni í kring. Fyrst nú nærri tveimur árum síðar hafði honum tekist að sannfæra meistarann sem stýrði sumó-fjósinu að leyfa heimsókn.

Við vorum um 10 sem fengum að koma með, gegn margvíslegum skilyrðum. Sumó er mikilvæg í Japan, hálfgerð helgiathöfn (enda sprottin af trúarsiðum) og sumókappar helga sig íþróttinni. Þeir flytja að heiman og inn í Sumó-fjós þar sem þeir æfa, borða og sofa. Þeir fara sjaldnast út úr húsi og þeir mega ekki eignast kærustur eða fjölskyldu fyrr en þeir hafa náð upp í efstu deild. Þetta eru einskonar munkar. Fæstir þeirra sem stunda Súmoglímu ná upp í efstu deild eða um 5% allra þeirra sem komast inn í Súmó flokk. IMG_4705 Hin 95% berjast í neðri deildum, þeir fá örfáar krónur fyrir að berjast en á móti kemur að meistari þeirra og þjálfari býður þeim húsnæði og mat. Þeir sem við heimsóttum voru um 15 en aðeins einn þeirra barðist í efstu deild. Hann hafði öll forréttindi, hafði sitt eigið herbergi og þrufti hvorki að hreyfa légg né lið. Hann hafði hvítt belti. Hinir, sem höfðu svartbelti (spurning hvort það var svart eða blátt eða grænt, beltin eru nefnilega ekki þvegin) deildu einu herbergi og þeir sáu líka um að elda og þrífa.

Eftir stuttan göngutúr frá lestarstöðinni að Súmófjósinu var okkur var hleypt inn í æfingasal þar sem sumómenn voru þegar byrjaðir að æfa. Við vorum látin sitja á gólfinu fyrir framan litla gryjfju þar sem æfingarnar fóru fram. Mitt í gryjfjunni var hringur sem markar bardagasvæði glímunnar. Það var stórfengleg sýn að sjá þessa svakalega stóru og sterku kroppa skella saman af fullum krafti. Og hljóðin sem fylgdu voru mögnuð. Púmmm.

Meistarinn, sem var sjálfur einn þekktasti glímukappi Japana og hafði unnið Japans-keppnina einu sinni, var harður þjálfari og píndi súmodrengina áfram þar til þeir lögðust veinandi og stynjandi í gólfið. „Áfram,“ hrópaði hann. „Áfram.“ Og þeir skriðu stynjandi og veinandi á fætur.  Æfingin tók um 2 klukkustundir og maður fann til með bardagamönnunum. Þeir eru liðugir eins og ballettstúlkur og sterkir eins og fílar. Að sjá 300 kg kropp hoppa froskahopp hring eftir hring er áhriamikil sýn.

Að lokinni æfingu var gert stutt hlé og það var kærkomið. Að sitja á gólfinu er ekki mín sterka hlið. Við fengum tíma til að teygja aðeins úr okkur á meðan lagt var á borð (enn sat maður á gólfinu). Við fengum sama mat og Sumódrengirnir, hrísgrjón og kjúklingasúpu. Súmókapparnir fá að borða 2 sinnum á dag og borða það rosa-skammta. Að lokinni máltíð settist einn glímukappinn inn í miðjan hringinn sem hafði verið hreinsaður og saltaður (þeir henda  í sífellu salti inn í hringinn og út í horn æfingastaðarins. Helgisiður). IMG_4710Nú kom hárgreiðslumaður súmópiltanna fram með hárgreiðslugræjur sínar og olíur og hóf að greiða súmópiltinum, setja olíur í hárið og setja upp í hnút.

Nú héldum við út í Tókyó, tókum neðanjarðarlest (með aðstoð Tókyóbúa) niður í hverfi þar sem hinir hip og kúl versla. Þeir eru algerlega hip og kúl japanirnir og við fylgdum flóbylgju japana sem mjakaði sér eftir verslunargötunni. Við fengum fljótlega nóg og settumst inn a´sushistað þar sem við fengum nokkur stykki sushi og hvíldum okkur.

Við héldum svo heim á leið. Leigjendur okkar ætla að búa til mat og við eigum að aðstoða. Mig grunar að það sé sushi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.