Japan, Tókyó: Horfinn gestgjafi

Leigusalar okkar höfðu boðið í kvöldmat í gærkvöldi. Eins og mig hafði grunað var sushi á borðum. Allt gott um það að segja. Góður matur. Það sem vakti athylgi mína var að aðeins annar gestgjafinn var viðstaddur kvöldmatinn, þ.e. Miramoto, kvenkynsgestgjafinn. Rori, hann sem tók á móti okkur, hefur algerlega horfið af yfirborði jarðar. Hann tók ástúðlega á móti okkur þegar við komum fyrsta daginn og talaði eins og við ættum eftir að hittast oft og mikið. Síðan hefur ekkert til hans spurst.IMG_4730

Við búum í pínulitilu húsi. Á efri hæðinni búa leigjendur okkar og við búum í einu herbergi á neðri hæðinni. Rúm og dýnur fylla herbergið svo við getum nánast bara notað herbergið til að sofa. IMG_4728Hundurinn Rouis/Louis geltir þegar við hreyfum okkur á neðri hæðinni. Annars heyrist ekkert að ofan. Rori og Miramoto eru tæpleg þrítug. Hún segist vera rithöfundur (writer) (en það kom í ljós að hún semur texta fyrir einhvers konar starfslýsingar) og hann vinnur fyrir fyrirtæki sem þjónustar AirBnB á einhvern hátt. Heldur óljóst.

Miramoto hefur verið heima alla helgina. Hún virðist ekki hreyfa sig mjög mikið og hún sýnir engin merki um að hún eigi eiginmann eða að einhver annar búi með henni. Þegar maður kemur upp á efri hæðina er ekkert sem minnir á eða gefur til kynna að karlkyns vera búi þarna uppi.

Þótt fjarvera Roris hafi vakið athyli mína var ekkert sem skyggði á gleðina við kvöldverðarboðið. Miramoto var kát og stjanaði við okkur. Við höfðum fært henni hjúpaðan lakkrís sem hún horði forviða á þegar hún opnaði dósina. “Hvað er þetta?” spurði hún.

“Hjúpaður lakkrís.”

“Ég smakka,” sagði hún hressilega og hún kastaði lakkrískúlu upp í munninn og tuggði mjög varlega. “Þetta er alveg nýtt bragð,” sagði hún kurteislega og ég reyndi að lesa úr svipbrigðum hennar hvort hún væri að fara að æla.

Allt í einu rak hún upp japanskt kvenöskur og lagði höndina fyrir munninn. “Úóóú, hvað er þetta inni í miðjunni?” Hún hætti að tyggja og munnurinn var hálfopinn. Hún starði óttaslegin á okkur og enn  með höndinni fyrir munninn eins og hún væri að halda aftur af gubbi.

“Þetta er lakkrís í miðjunni,” sagði Sus og horði áhyggjufull á japanska gestgjafann okkar.

Hún byrjaði aftur að tyggja, afar varlega og enn með höndina fyrir munninum. Við horfðum öll spennt og áhyggjufull á hana. Svo brosti hún og tugði ákafar. “Alveg nýtt bragð,” endurtók hún og hló.

Þeir eru kurteisir japanarnir. Og kvöldið leið í kurteislegu hjali um lönd og þjóðarsálir.

Ég veit ekki hvað hefur verið í suhsinu því við sváfum öll til klukkan 10 í morgun. Ég flýtti mér á fætur og það jaðraði við að ég skammaðist mín fyrir að hafa sofið svona lengi. Það fyrsta sem ég gerði var að kíkja út í ganginn til að athuga hvort Rori, gestgjafi okkar, var kominn. En nei. Engin merki um Rori.

Það verður spennandi að sjá hvort hann verður kominn í kvöld þegar við komum heim frá bæjartúrnum.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.