Já, nú er maður lokaður inni í Nikko, sem annars er lítill og ljótur bær. Nikko státar af frábærlega flottum búddamusterum sem við kíktum á í morgun, en annars hefur maður á tilfinningunni að bærinn sé Raufarhöfn Japans. Húsin eru í niðurníðslu, sum mannauð en full af drasli, í öðrum er enn búið þótt þau séu að hruni komin.
Við gengum niður í gegnum bæinn í morgun þegar rigningunni létti aðeins. Við komum við á lestarstöðinni til að finna hvenær lestin til Tókyó færi á morgun. Við fréttum þar að engar lestarferðir væru frá eða til bæjarins. Hér hefur fellibylur geysað og sett allt á annan endan. Maður áttaði sig ekki alveg á að ástandið væri svo alvarlegt en þvílíkt og annað eins regnveður.
Annars les ég “Það sem ekki drepur mann” þessa dagana, nýju hálf-Stieg Larsson bókina. Ég skemmti mér ágætlega, solid krimmi.
Við fylgjumst með ævintýrum Arngrimsson family, spennt að sjá hvað bíður handan Raufarhafnar Japan. xxx