Japan, Hakone. Á flótta í leigubíl

Við höfum kvatt Nikko. Komumst þaðan í gær þrátt fyrir að allar almenningssamgöngur lægju niðri vegna vatnsflóða. Það var stytt upp en víða lágu aurskriður á vegum og lestarteinum. Eina ráðið til að komast frá flóðasvæðum var að keyra í leigubíl 60 km leið til bæjar noður af Nikko. Þaðan komumst við með lest til Tókýó og þaðan áfram lá leið okkar í suð-suð-vestur til Hakone. Þar er mikil náttúrufegurð og skammt undan liggur hið magnaða Fujisanfjall.

En hér höfum við bókað okkur inn á hálfgert Edduhótel  þeirra Japana. Hér eins og annars staðar sofum við á gólfinu, sitjum á gólfinu og borðum japanskan mat. Fjölskyldan er aðeins farin að láta sig dreyma um sófa, mjúka stóla, vestrænan mat og ekki síst gott kaffi. Maturinn er ekki til að kvarta yfir, bara dálítð mikið af einhverju sem maður veit ekki alveg hvað er og flokkast undir “nýtt bragð”.

Við vöknuðum við jarðskjálfta (5,4 á Richter) klukkan 6 í morgun. Og enn og aftur fór allt á annan endan í Japan. Lestarferðir  lögðust niður og almenningssamgöngur trufluðust. Það er aldeilis stuð á náttúrunni hér.

í dag höfum við siglt á vatninu og gengið um svæðið og dáðs að japanskri náttúru. Hér eins og víðar í Japan eru hof sem japanarnir þyrpast til, færa fórnir, biðjast fyrir og kaupa einhverja gripi sem eiga að færa þeim gæfu. Maður getur keypt sér einskonar lyklakippu sem færir manni öryggi í umferðinni, annars konar lyklakippu sem tryggir manni gott heilsufar. Maður getur líka keypt sér langlífi og frama í atvinnulífinu.

Nú erum við búin að vera rúma viku á ferð okkar, Allir eru enn glaðir þrátt fyrir að Japan hafi reynt aðeins á. Ekki alveg auðvelt að átta sig á hlutunum þegar flest er skrifað á japönsku og ekki margir utan Tókyó sem tala ensku. En þeir sem reyna eru dálítið mikið óskiljanlegir. Þeir ruglast títt á r og l. Good ruck (good luck), jet-rag.  En það verður gaman að sjá hvað kemur út úr ferðalaginu. Verður maður svo inspireraður af einhverju að lífið tekur nýja stefnu? Japan hefur enn ekki kveikt nýjar hugmyndir, eða ekki svo ég hafi tekið eftir.

Kláraði Stieg Larsson 4 í nótt. Las bókina í 4 lotum. Mér fannst bókin að mörgu leyti standa undir væntingum. David Lagercrantz er góður til að halda stöðugri spennu og textinn flæðir áreynslulaust. Plottið er svolítið James Bond-legt, þ.e. heldur ótrúverðugt en maður lætur það ekki á sig fá fyrr en maður er búinn með bókina. Smáóbragð í lokin. 4/6 stjörnur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.