Við gistum nú hjá ungu japönsku pari sem rekur gistiheimili í útjaðri Takayma. Það er aldeilis veisla. Þau hafa búið í Ástralíu svo þau tala ensku sem ekki er algengt hér i Japan. Og hann er kokkur og hefur búið 4 ár í Ítalíu og starfað þar sem kokkur. Hér á gistiheimilinu býður hann upp á rétti sem eru blanda af japönsku eldhúsi og því ítalska. Þetta er nú meiri veislan. Kvöldmaturinn í gær var svo frábrugðin því sem við höfum borðað hingað til í Japan. Við fengum t.d. brauð og ólífuolíu með matnum, við borðuðum með hníf og gaffli. Og kaffi í eftirrétt. Þar að auki sofum við í rúmum. Ég er orðinn svo vanur að sofa á gólfinu að þegar ég vaknaði í nótt fékk ég skyndilega lofthræðslukast og fannst ég vera að detta fram úr rúminu.
Í dag gengum við um Takayama, upp og niður breiðgötur. Það var gaman. Bærinn er ekki sérlega stór, 90.000 manna bær og ég held að við höfum gengið hann þveran og endilangan.