Japan, Kyoto. Úlfaldamjólk

Nú, rétt í þessu, fékk ég vita að Sómalía á heimsframleiðslumet á einni vöru. Hvað er það? spyr Númi og horfir spekingslega á mig.
Ummm, problem, svara ég.
Nei, úlfaldamjólk, svarar Númi. Og þá veit ég það.

Númi situr hér við lítið eldhúsborð og gerir landafræðirannsóknir á tölvunni. Hann hefur nýju þráðlausu Beatsheyrnartólin á höfðinu, nýkominn úr sturtu og hlustar í sína músik (ekki eru allir á einu máli um hversu góð músikkin hans er.) Davið liggur upp í rúmi og skoðar videó með framtíðarbílum.  (Fæ nú að heyra að Porcsche er nú byrjaðir að þróa rafmangsbíl sem á að keppa við Tesla-bílana.) Og Sus er nýsest við eldhúsborðið eftir að hafa hengt upp þvott. Tilkynnir svo fjölskyldunni að hún hafi borgað bílaleigubílinn sem við fáum á Nýja-Sjálandi. Það má greina á röddinni að henni finnst upphæðin of há.

Annars finnst mér ég vera langt í burtu nú. Lengra í burtu en þegar ég bý í Danmörku. Sá rétt í þessu vídeó með Öglu syngja eitthvað um Línu langsokk og svo er afmælið hennar á morgun. Ég sakna þess að geta ekki komið í morgunkaffi í Reykjavík og allt annað sem tilheyrir Reykjavík. En þetta er verðið sem maður greiðir fyrir heimsreisu og öllu því skemmtilega sem því fylgir.

Nú höfum við borðað morgunmat í litlu íbúðinni sem við leigjum í útjaðri Kyoto. Jógúrt með musli. Ekkert kaffi. Ekkert kaffi. Ekkert kaffi, Þetta er japönsk airBnB íbúð sem við leigjum og hér er ekki hægt að elda eða hella upp á kaffi. Hér er heldur ekki hæt að horfa út um gluggann. Flestar  íbúðir í Japan eru búnar ógegnsæju gleri. Maður fær ljós inn en getur ekki séð út (eða inn). Mér finnst þetta frekar óþægilegt, maður er svolítið innilokaður.

En á mánudaginn er Kyoto-dvöl lokið og ferðinni heitið til Hiroshima.

dagbók

Ein athugasemd við “Japan, Kyoto. Úlfaldamjólk

Skildu eftir svar