Sidney, Ástralía. Léttir

Í gær lentum við í Sidney eftir mánaðarlanga dvöl í Japan. Ástralía tekur vel á móti okkur með sól og sumri. Ferðin var löng frá Hiroshima. Heila 24 tíma tók það okkur að komast á milli þessara staða.

Þótt það hafi verið gaman að koma til Japan er það stór léttir að vera hér í Ástralíu. Um leið og við komum út undir bert loft í Sidney fann ég léttinn. Það er bara léttara yfir hér. Það er eitthvað svo stirt yfir Japan. Það vantar leikinn og fjörið í japana, þeir fíflast ekki, þeir eru svo alvarlegir og þrúgaðir, Allar þessar hneigingar. Ef þeir hlæja halda þeir fyrir munninn eins og til að fela gleðina. Og húsin eru svo ljót og göturnar svo ljótar. Og inni í húsum er svo dimmt, engir gluggar, allt lokað og bert. Eitt getur maður lært af japönum. Lestarsamgöngur ganga svo greiðlega að það jaðrar við töfra. Allt er svo vel undirbúið og stundvísin svo hrikaleg.

Það var samt sem áður algerlega ferðarinnar virði að koma til Japan. Það er intressant að kynnast svona framandi menningu og maður lærir að meta sinn vestræna kúltur. Ég bý á besta heimshluta veraldar. Það er ekkert, sem ég hef kynnst sem jafnast á við drifkraft og snilld vesturlanda. Hvaðan koma allar nýjungar og tækniframfarir? Ég gæti ekki hugsað mér að búa annars staðar í veröldinni en í vestrænum kúltur.

Í gær vorum við þreytt eftir hið langa ferðalag og könnuðum því bara nánasta umhverfi íbúðarinnar sem við búum í. Hér eru töffaralegir kaffibarar og veitingastaðir út um allt. Sidney er sólbjört borg og hér frá íbúðinni höfum við útsýni til hafnarinnar og til óperuhússins sem er flottara í veruleikanum en á myndum. Það er bara ótrúlega gaman að horfa á flottan arkitektur. Og eftir mánaðardvöl í Japan er óperuhúsið í Sidney hrein veisla fyrir augað.

Ástralir virka vinsamlegir og við höfum lent á spjalli við hið ólíklegasta fólk sem við hittum á kaffihúsum. En framundan eru 17 dagar hér i Sidney.

Við búum í ágætri íbúð í hressilegu hverfi og það fer vel um okkur.

dagbók

Ein athugasemd við “Sidney, Ástralía. Léttir

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.