Ástralía, Sidney: Smátúrar

Dagarnir líða og bloggfærslurnar eru færri en ég hafði planað. Við erum enn í Sidney og síðustu daga höfum við bæði gengið um borgina og farið í dagstúra útfyrir borgina.

Sidney sjálf er nokkuð kröftug borg, dálítið eins og hér sé eilíft partý. Fólk situr daglangt á kaffibörum og pöbbum og maður hefur á tilfinningunni að allir dagar séu föstudagar. En það er bara fínt. Óperuhúsið í Sidney er það sem hefur heillað mig mest, og meira en ég  átti von á. Byggingin er ekki nein risahöll en ansi flott í uppbyggingu. Utzon hinn danski arkitekt var alinn upp á skipasmíðastöð þar sem pabbi hans vann og eru skipin og hafið uppspretta allra lausna við byggingu hússins. Við fórum með leiðsögumanni um húsið og hann sagði frá húsinu, sögu þess og ýmsu í sambandi við hljómburð og hvers vegna ákveðin efni höfðu verið notuð í bygginguna. Mjög intressant. Um kvöldið sáum við svo söngleikinn Anything goes (Cole Porter) í einum af sölum hússins. Hin besta skemmtun.

Í fyrradag höfðum við samband við mann sem sérhæfir sig í stuttum ferðum umhverfis Sidney. Hann bauðst til að keyra okkur í sínum 12 ára gamla Volkswagen-rúgbrauð lítinn hring. Suðurfyrir Sidney og niður á stönd og inn í Kengúrudal og aftur tilbaka. Þetta var hinn ágæstasti túr og leiðsögumaðurinn var hinn þægilegasti. Toppurinn var að synda í sjónum. Þvílíkar öldur. Ótrúlegur kraftur, maður kastaðist til baka þegar öldurnar skullu á manni. Og sjórinn var ískaldur og tær eins og englapiss.

Í gær hafði Sus fundið túr þar sem temað var vín-osta-súkkulaði og bjórsmökkun. Við keyrðum í lítilli rútu inn í dal sem heitir Huntervalley, norður af Sidney,  og er þekktasta vínrækunarsvæði Ástrala. Þetta var 2 tíma keyrsla og með okkur í för voru 4 aldraðir Bandaríkjamenn og þýsk hjón. Ferðafélagarnir voru ekki sérstaklega uppörvandi félagsskapur. Mig grunar að einhverskonar hjónabandsvandræði þrúgaði hið þýska par því þau yrtu varla hvort á annað alla ferðina. Kannski voru þau bara svona þungir þjóðverjar, hmmm.  Kanarnir voru eins og svo margir kanar, háværir yfir smámunum.

Við komum í heimsókn til tveggja mjög metnaðarfullra vínframleiðenda og smökkuðum vínið þeirra. Það var gaman að heyra þá tala um vínframleiðslu og gaman að finna eldhuginn á bak við framleiðsluna. Eldhuginn var svo mikill að Númi spurði hvort kynnirinn væri fullur. Ekki er það sama að segja um súkkulaðiframleiðandann. Það var nú meira ruglið og það inni í risaskemmu. Við komuna fengum við 4 súkkulaðibita; dökkt, ljóst, hvítt og súkkulaðihúðaða kaffibaun. Konan sem tók á móti okkur fræddi okkur um að dökka súkkulaðið hefði 72% kakóinnihald. Það var svo sem ekki fleira að segja um þessa súkkulaðiframleiðslu. Hmmmm. Sama var að segja um ostasmökkunina. Nokkrir ostar opnaðir og svo var smakkað. Gæti hafa verið inni í hvaða verslun sem var. En það skipti svo sem ekki miklu máli. Ferðirnar umhverfis Sidney hafa verið ánægjulegar í sjálfu sér.

Síðast á dagskrá gærdagsins var að hitta bjórframleiðendurna í Huntervalley. Ég var spenntur að hitta þá. Við komum inn í brugghúsið sem var líka bar og okkur var boðið að smakka bjórinn þeirra sem var bara góður. Allt var fremur snyrtilegt en ekki nein verðlaunahönnun á barnum. Tveir ungir drengir sem unnu þarna við bruggið tóku á móti okkur og gerðu vanmáttuga tilraun til að kynna brugghúsið en þeir höfðu ekki mikið að segja og voru heldur lélegir að kynna vöru sína. En það var gaman að sjá uppsetninguna á bruggtækjunum og mér varð auðvitað hugsað til Sølv-brugg og hans set-up.

Kvöldið í gær endaði svo á ítalska veitingastaðnum hér í nágrenninu. Ég hafði séð sjávarréttar-spaghetti í hyllingum. En því miður var spaghettið, sem ég fékk, vonbrigði mikil.

Stærstu fréttir héðan eru að ég les bók Palla Vals um Egil Ólafsson. Bókin heitir Egils sögur og er hreint stórskemmtileg. Það sakar ekki að ég þekki bæði höfuðpersónuna og höfundinn og ég skemmti mér konunglega við að lesa það sem stendur á síðunum, það sem er á milli línanna og ekki síður skemmti ég mér við að heyra raddir sögumanna innra með mér. Mjög flott bók hjá onkel Palle.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.