Ástralía, Sidney: Á Citroenbíl í snjóskafli

Það er ótrúlegt að sitja hér í Ástralíu á mánudagsmorgni klukkan 9:45. Himinninn er blár og geislar sólarinnar endukastast af hvítu þaki óperunnar sem blasir við mér héðan úr AirBnB íbúðinni. Undir venjulegum kringumstæðum sæti ég á lestarstöðinni í Espergærde, á skrifstofu forlagsins og vesenaðist eitthvað. Dagarnir hafa þotið áfram og nú eru einn og hálfur mánður síðan við fórum af stað í heimsferðina.

Dagarnir hér í Sidney líða við langa göngutúra (meðalganga á dag hér er um 10 km) og hin ólíku hverfi borgarinnar könnuð. Ganga er frábær leið til að kynnast borgum. Og ekki er verra að ganga um í sólskini og áströlsku vorveðri. Í gær stöldruðum við við í almenningsgarði, köstuðum frisbee og horfðum á innfædda spila fótbolta. Þaðan gengum við áfram og enduðum á pizzastað sem selur það sem í dag kallast gourmetpizzur (það er að segja pizzur með óvenjulegu áleggi; kengúrukjöti, krókódílakjöti, lambakjöti, framandi grænmeti o.s.frv.) Pizzan var góð og fór vel í alla. Í nágrenni pizzastaðarins er lítið brugghús sem selur eigin framleiðslu. Við kíktum þar inn, ekkert sérlega sjarmerandi staður, en við fengum fjóra litla bjóra til að smakka. Sölvi yrði ekki sérlega ánægður með þetta brugghús. Einn af þeim 4 bjórum sem við smökkuðum var yfir meðallagi. Ég er hræddur um að bruggmeistari Sölvi geri mun betur.

Annars er ég duglegur að lesa bækur hér í Sidney. Var að klára fína bók Palla um Egil Ólafsson. Egils sögur. Mér finnst Egill góður sögumaður. Sérstaklega er hann í essinu sínu þegar hann fjallar um æskuárin. Hann er sérstaklega góður í að draga fram kosti fólks sem hann hefur hitt á sinni leið. Það er flott hjá Agli að hefja fólk frekar upp en draga það niður. Það gerir hann stærri. Sérstaklega finnst mér hann gera hinu góða andrúmslofti í kringum Spilverkið ágæt skil. Bókin er kannski ekkert sérlega persónuleg, frekar að Egill lýsi í stórum dráttum sínum opinbera ferli en minnst ekki oft á fjölskyldu sína eða einkalíf sem hefði gert bókina enn forvitnilegri, því Egill er spennandi maður.

Ég þekki höfuðpersónuna, Egil, ekkert sérstaklega vel. Ég hef spjallað við hann á förnum vegi og hef alltaf dáðst að fallegri framkomu hans. Man þó sérstaklega eftir einu atviki.
Bjartur, mitt gamla forlag, átti nokkra bíla í gegnum árin, svokallaðir Bjartsmobil. Allt hræðilegar druslur. Einn bíll var þó sögulega lélegur: Rauður Citroen station bíll, sem hægt var að hækka og lækka að aftan. Ég held að ég hafi keyrt um það bil 50 km á þessum bíl frá því ég keypti hann og þar til ég gafst upp á honum og sendi á haugana. Það var um miðjan vetur á föstudagseftirmiðdegi að ég sótti bílinn enn eina ferðina á bílaverkstæði upp á Höfða. Citroeninn átti nú að vera í toppstandi eftir miklar viðgerðir. Ég keyrði því glaður í bragði niður Ártúnsbrekkuna og eftir Miklubrautinni, fannst bílinn frábær í alla staði, mjúkur eins og stofusófi og ég var viss um að ég og Citroenbíll ættum í vændum langa, bjarta framtíð saman. Það var nokkur snjór og hálka á vegunum og stórir snjóruðningar í vegköntum. Þegar ég kem yfir ljósin á mótum Háaleitisbrautar og Miklubrautar – ég er viss um að Tom Waits lék undir af hljómplötunni Closing Time –  byrjaði bíllinn að hiksta og drap svo á sér í miðri brekkunni sem liggur niður frá umferðarljósunum. Þegar ég skil að Citroeninn hefur enn á ný gefið upp öndina, freista þess að láta bílinn renna upp á eyjuna á milli akreinanna, en næ ekki að komast yfir snjóruðninginn í kantinum svo bíllinn stoppar á miðri Miklubrautinni. Og það var föstudagur. Og klukkan var 16:00. Umferðin var þung og bílar bruna niður brekkuna þegar þeir fengu grænt ljós á vegamótunum.  (Koma bílarnir yfir hæðina, er fræg setning höfð eftir Söndru.) Ég var skelfingu lostinn með Citroeninn strandaðan út á miðri Miklubraut, og  bílar komu þjótandi í áttina til mín í hálku og hálfrökkri. Ég reyndi að ýta bílnum út í kant og upp á eyjuna en það var ómögulegt að ná bílnum í gegnum háa snjóskaflana. Hvað eftir annað lá við árekstri þegar bílarnir snarstoppuðu til að forðast árekstur við kyrrstæða Citroenbílinn.  Skyndilega sé ég mann í síðum, hermannagrænum frakka koma hlaupandi frá Shell-bensínstöðinni sem þá var beggja vegna Miklubrautar á móts við Kringluna. Ég man ekki betur en hann hefði mikinn kúrekahatt á höfði. Maðurinn hafði verið að setja bensín á bílinn sinn og hafði séð mínar ámátlegu tilraunir til að forða Citroendruslunni. Þegar sá í síðfrakkanum nálgaðist setti að mér óvæntan beig. Eiginlega fékk ég á tilfinninguna að maðurinn ætlaði að skjóta mig, sem var furðuleg hugdetta. Ég beið bara eftir að silfurlit skambyssa kæmi í ljós undan frakkanum. Ég stirðnaði upp og starði skelkaður á manninn sem kom á harðahlaupum upp Miklubrautina. Sá ég að þetta var enginn annar en sjálfur söngfuglinn Egill Ólafsson. Mér var létt. Aldrei mundi Egill skjóta mig.

„Þetta eru ljótu vandræðin, Snæi,“ segir Egill á sinn kankvísa hátt. „Við fleyjum bílnum hérna upp.“ Og í sameiginlegu átaki náum við að ýta druslunni, sem skyndilega virkaði létt eins og fjöður, upp á vegkant. Þarna kom stamnia Egils (eins og Palli kallar líkamsþrek Egils) sér vel. Egill vildi auðvitað keyra mig á áfangastað. En eins og venjulega gat ég ekki þegið þetta góða boð velgjörðarmanns míns (þótt það hefði sennilega gert okkur báða glaða) og vildi heldur bjarga mér sjálfur.

En sem sagt ég er búinn að lesa bókina um Egil og hafði gaman að. Nú les ég bók eftir einhvern Robotham sem er bara ansi spennandi.

 

dagbók

Ein athugasemd við “Ástralía, Sidney: Á Citroenbíl í snjóskafli

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.