Ég frétti, þegar ég var í heimsókn á Íslandi í sumar, að von væri á nýrri bók eftir Hallgrím Helgason. Ég hafði hitt onkel Palla í bænum sem sagði mér að hann hafði lesið yfir bók Hallgríms, minningarbók frá Münhenarárum. Ég varð strax spenntur að lesa sögu Hallgríms, ekki síst eftir skemmtilegar lýsingar Palla, sem vitnaði í óborganlega senu þegar “sonur skáldsins” (Haukur Hannesson) gerir athugasemd við þá fyrirætlun hins tvítuga Hallgríms að ætla til Berlínar um haustið til að “vera”.
Og fyrir þá sem þekkja son skáldins, og aðeins þá, eru viðbrögðin: “Vera?” alveg hrikalega fyndin. Í gær uppgötvaði ég svo að bókin ætti að koma út í þessari viku. Ég ákvað að kippa í gamla spotta og skrifaði strax til Egils hjá Forlaginu og tilkynnti honum að nú lægi mikið við. Mig vantaði bók Hallgríms. Klukkan var 9 að morgni. 2 mínútur líðu og heil bók, Sjóveikur í München, kom fljúgandi 20.000 km leið frá Reykjavík, yfir Atlantshaf, yfir þvera Evrópu frá vestri til austurs, yfir Asíu frá vestri til austurs, yfir Japan og yfir hafið og lenti svo í Sidney 11 tímum fyrr. Ég var kominn á blaðsíðu 255 þegar klukkan á Ísland náði að verða 9:00 að sama morgni.
Ég las bókina í tveimur rykkjum. Þetta er að mörgu leiti mögnuð bók. Stórfín lýsing á lífi ungs manns á árunum kringum 1980. Ótrúlegt hvað maðurinn man. Ég man nánast ekkert frá þessum árum. Allt er undir þéttri hugarþoku. Þegar ég las hinn norska Knausgaard, Min kamp, fyrir nokkrum árum hugsaði ég í sífellu: “Hann er að skrifa um mig. Þetta er ég sem hann skrifar um.” Ég get ekki alveg sagt það sama um skrif Hallgríms þótt ég þekki býsna vel margar af þeim raunum sem ungur maður má ganga í gegnum í bók Hallgríms. Ég ætti að þekkja Hallgrím harla vel. Hann bjó næstum öll mín barndóms- og unglingsár í Háaleitisblokkinni sem stendur andspænis æskuheimili mínu. Hann gekk í sama barnaskóla og ég. Hann gekk í sama menntaskóla og ég. Bara tveimur árum eldri en ég. Hann er Frammari og frændi Palla. Þegar ég las bókina var mér aftur og aftur hugsað til þess að ég man hreinlega ekkert eftir hinum unga Hallgrími. Ég man ekki eftir að hafa tekið eftir honum í Álftamýrarskóla, Ég man ekki eftir að hafa spilað fótbolta með honum. Ég man ekkert eftir honum í Hamrahlíð. Þó hef ég alltaf þekkt Hallgrím. Hallgrímur bróðir Ása og Gunna.
Hallgrímur hefur komið mér sífellt á óvart eftir að hann varð fullorðinn. Ég held að ég hafi bara ekki haft neinar væntingar til þessa manns sem setti engan svip á æsku mína en var þó sínálægur. Dag einn árið 1990 átti ég erindi í bíl. Ég hafði tileinkað mér að keyra mjög hægt. Kom það til af því að sama ár hafði ég keypt amerískan bíl, Dodge Aries, sem var svo dúnmjúkur í akstri að bílstjórinn hallaði ósjálfrátt höfði til baka, ligndi aftur augum og setti olnboga á gluggasyllu hliðarrúðunnar og lét bíllinn líða áfram eins og svifnökkva. Öðruvísi var ekki hægt að keyra þennan bíl. Útvarpið var í gangi í bílferðinni og auðvitað stillt á hinu nýju útvarpsrás, Rás 2. Ég vissi ekki á hvað ég var að hlusta en ég gat ekki annað en sperrt eyrun. Ungur maður fór hamförum við hljóðnemann, talaði í belg og biðu með hrynjanda sem var gersamlega óþekktur í útvarpi allra landsmanna. Ég hafði ekki fyrr heyrt nokkurn útvarpsmann skauta jafnfimlega á tungumálinu. Rödd þessa óðamála manns glumdi í bílnum mínum. Hann þaut yfir tungusvellið eins og rússneskur heimsmeistari í skautadansi. Orðaleikir og útúrsnúningar og tilvísanir voru eins og pírettur og þrefaldur hringspuni skautadansara á 300 km hraða sem alltaf lenti tignarlega og fumlaust en var jafnharðan kominn með nýtt glæsitrikk svo hlustendum var farið að svima. Og ég silaðist áfram framhjá Kjöthöllinni í Skipholtinu á mínu seigmjúka ameríska farartæki. Hver er þessi maður? “Þetta var útvarp Manhattan, í umsjón Hallgríms Helgasonar,” sagði þulurinn að loknum listdansinum. “Hallgríms Helgasonar?” spurði ég sjálfan mig. “Hallgríms?” Jú, þetta var hinn ósýnilegi maður æsku minnar, nú orðinn orðsins stórsnillingur. Þessu átti ég ekki von á!
Ekki löngu síðar, á árdögum kvennahússins Hlaðvarpans við Vesturgötu, spurðist það út að Hallgrímur ætlaði að vera með “stand-up” í samkomusal hússins. Ég var ekkert að tvínóna við að tryggja mér miða á þessa óvæntu skemmtun, sannfærður um að miðar yrðu rifnir út á methraða. Enginn vildi missa af umsjónarmanni Útvarps Manhattans, slík var aðdáun mín og sannfæring að hann hefði hrifið gjörvalla þjóð sína. En mér að óvörum voru undirtektir dræmar þegar ég montaði mig af því að hafa tryggt mér miða á þetta óviðjafnanlega tilboð um kvöldskemmtun. Enginn virtist hafa sérstakan áhuga á Útvarpi Manhatta. Umsjónarmaðurinn, Hallgrímur, var jafnvel kallaður vaðlari, óskiljanlegur bullukollur í mín eyru. En mér varð ekki haggað, ég skyldi sjá Hallgrím standa uppi, á sviði. Hann brást mér ekki. Þvílíkur performans. Þarna birtist hann á gólfi kvennahússins, sjálfsöruggur eins og poppgoð og hafði salinn fullkomlega á valdi sínu, hreif alla með sér í einu fyndnustu dagskrá sem ég hef komið á. En nú kemur hið óvænta. Eftir sýninguna sest Hallgrímur við borðið hjá mér niðurlútur og nervös. Þetta er ekki maðurinn sem var á sviðinu. Hér situr hnípinn maður og efast stórlega um alla dagskrána, maður sem kallaði sárlega á viðurkenningu og sannfærandi hrós og staðfestinu á að sýningin hans hafi verið í lagi. Hann var skrælnandi blóm sem þyrsti eftir ausandi lofregni. Ég hélt að Hallgrímur væri orðinn kappi, sviðsljón sem ekkert léti bíta á sér. En þessu hangandi, síþyrsta blómi átti ég ekki von á.
Og enn kom Hallgrímur mér á óvart þegar Bjartur og Mál og menning háðu kappleik í fótbolta á gervigrasi í Hafnarfirði. Þetta var fyrsta einvígi þessarra tveggja íslensku bókaforlag í fótbolta. Líklega hefur þetta verið í kringum árið 1998. Litla forlagið hafði vikum saman spúð hrokafullum háðsyrðum yfir stóra forlagið í gegnum heimasíðu sína og komist upp með fúkyrði og yfirgang í krafti smæðar sinnar. Hafði litla forlaginu þannig tekist að vekja nokkra athygli á kappleiknum. Það var því spenna í lofti þegar flautað var til leiks á fínum haustdegi í Hafnarfirði. Hallgrímur var ekki í byrjunarliði Máls og menningar. Einvaldurinn, Einar Kárason, hafði ákveðið að setja Hallgrím á bekkinn. Ég man að mér var litið yfir liðsafla stórforlagsins og eftir að hafa virt fyrir mér badmintonmennina Árna Óskarsson, Guðmund Andra, Friðrik biskup Rafsson og nokkra menn af lager þeirra MM-manna, taldi ég sigur Bjarts næsta vísan. Að vísu tefldi MM fram Keflvíkingi, Olgu Færseth sem var landsliðskona í fótbolta (228 mörk í 166 leikjum í efstu deild). En það var ekki nóg til að minnka sigurvissu mína. Hallgrímur, sem sat inni í varamannaskýli, vakti heldur ekki neinn skjálfta í mínum beinum. Allt stefndi í öruggan sigur Bjarts þegar Hallgrímur kemur inná í seinni hálfleik, í stað Einars Kárasonar sem hafði ekki átt stjörnuleik í þetta sinn. Og enn kemur Hallgrímur á óvart. Hann var settur á hægri kant og átti hvern sprettinn á fætur öðrum upp kantinn og vakti mikinn usla í vörnum Bjarts. Þótt sigrinum hefði ekki verið ógnað var Hallgrímur kantmaður sannarlega hinn óvænti ógnvaldur. Því átti ég ekki von á.
Ég hef sem sagt lokið við lestur bókarinnar, Sjóveikur í München. Stórfín bók, bráðfyndin og nokkuð kraftmikil. Þó er ég nokkuð ósáttur við gubbuþáttinn mikla sem gengur eins slefþráður í gegnum mestan hluta bókarinnar. Gubbið fær þýðingu í lok bókarinnar, er ónýtt framleiðsla einskonar blýlekrar, yfirfullrar skáldæðar, sem þarf ljós og vökvun. Ágætt, en dálítið úr takti við annað í þessari góðu bók.
Hér í Sidney leið enn einn dagur í sól, hita og gleði yfir hinum mörgu undrum borgarinnar. Morguninn bauð upp á langþráðan tennisleik á tennisvelli niður við eina af mörgum smábátahöfnum hér sem setja svo fínan svip á borgina. Þótt tennisspilið hafi ekki verið það tignarlegasta sem leikið hefur verið á hafnarvellinum í Sidney var leikgleðin augljós.