Ástralía, Sidney: Kinkað kolli til Auster

Næst síðasti dagur okkar í Ástralíu er að kvöldi kominn. 13,1 km ganga að baki, alla leiðina frá Watson Bay og hingað í íbúðina. Eins og næstum alla daga sem við höfum dvalið í Sidney hefur sólin haft himinninn útaf fyrir sig, skýin eru annars staðar í heiminum og ekkert bólar á þeim. Kvöldmaturinn, eins og fyrri daginn fábreyttur, brauð og jógúrt.
Nú höfum verið í enskumælandi landi í um það bil tvær vikur og það er stórkostlegur léttir frá Japan þar sem maður skyldi ekki orð. Ég sakna þó að tala ekki meira við enskumælandi og heyra meiri ensku. Samtöl okkar við innfædda eru í verslunum og veitingahúsum svo það eru ekki harla flókin samtöl. Númi og Davíð hafa þó tekið furðumiklum framförum í ensku. Mér finnst satt að segja ótrúlegt hvað Númi kann í ensku. Hann hefur einhverja hæfileika til að læra tungumál, eins og Nói og Sölvi sem mér finnst ótrúlega góðir í enskumenn.


Mér hefur aldrei þótt ég nógu góður í ensku og hefur það truflað mig í gegnum árin. Auðvitað get ég vel haldið uppi samtali og sagt nánast það sem ég vil en mér finnst ég stirður og slappur. Ensku les maður eins og ekkert sé en mig vantar talæfingu. Nú verð ég að reyna að grípa tækifærið þegar ég er í enskumælandi löndum að tala tungumálið.
Ég man að einu sinni bauð Torfi Túliníus mér að vera með sér í útvarpsstúdíói hjá RÚV á meðan hann tæki viðtal við Paul Auster. Viðtalið var í tilefni útkomu New York trílógíunnar sem ég gaf út hjá Bjarti og nýbyrjaður í bransanum. Torfi er svo mikið ljúfmenni að ég gat ekki annað en tekið tilboði hans fagnandi þótt ég væri skelfingu lostinn yfir þeirri hugmynd hans að ég tæki þátt í samtali þeirra. Mér fannst ég svo hrikalega lélegur í ensku. Ég talaði málið svo sjaldan, ég las það bara. Ég man að þótt margir dagar væru til viðtalsins var ég órólegur og stressaður og æfði allskonar enskar setningar í huganum. Um nætur dreymdi mig samtalið við Auster og vaknaði bullsveittur af stressi. Mér var alls ekki rótt.
Svo rann viðtalsdagurinn upp. Ég  kom ekki niður matarörðu þann dag svo angistafullur var ég en mætti þó tímanlega upp í Efstaleiti í höfuðstöðvar RÚV. Torfi var ekki mættur og ég ráfaði um bygginguna í mikilli angist, beið eftir háskólamanninum og reyndi að láta ekki á neinu bera þegar Torfi kom gangandi inn ganginn á RÚV með sinn bjarta svip og heilsaði kátur og vingjarnlegur eins og alltaf.
Við settumst inn í stúdíó og Torfi fór yfir hugmyndir sínar um viðtalið, hvaða kenningar hann hefði (háskólamenn hafa alltaf kenningar) og hvernig hann hafði hugsað sér að skipta viðtalinu upp. “Og svo kemur  þú með þínar spurningar þegar þú vilt,” sagði hann. Ég fann hvernig blýþungur steinn tók nokkra snúninga niður í maganum á mér. “Ég þarf nú ekki að segja svo mikið, þetta er þitt viðtal,” áréttaði ég.
Svo var hringt til Brooklyn og á hinum endanum hljómaði ofursvöl rödd culthöfunarins mikla. Ég var við að falla í yfirlið, ég hafði haldið andanum svo lengi niðri í von um að Brooklyn-skáldið svaraði ekki símanum. “Oh, hi, good to hear your voice again, Torfi,” sagir Auster drafandi röddu.  (Torfi hafði heimsótt Auster á ferð sinni um Bandaríkin fyrr sama ár.)
Torfi tekur kveðju Austers vel, og segir svo að hjá sér sitji sjálfur útgefandi New York-trílógíunnar á íslensku.
“Oh, very good, hi there,” segir Auster.
Ég hrekk í kút, hvað á ég að segja við manninn, ég vil ekki eiga samtal á ensku við hann, en ég verð auðvitað að heilsa. Hvað segir maður. Ég get ekki endurtekið “hi?” ég verð að finna upp á einhverri kveðju. Mér dettur ekkert í hug annað en “howdy mate” en uppgötva samtímis að þetta orðalag hafði ég gripið hjá Krókódíla Dundee sem ég hafði séð á vídeói kvöldið áður. Ekki heilsaði íslenskur útgefandi  fánabera hins bandaríska póstmoderisma með Krókódíla Dundee frasa.
Fátið var svo mikið að ég fann ekki annað ráð  en að kinka kolli í átt til hljóðnemans. Torfi horfir á mig, brosandi út að eyrum og er almennt mjög hátt uppi yfir að fá, sem fulltrúi íslenskra bókaáhugamanna, að spjalla við Auster. Ég kom bara ekki upp orði. Allt sat fast í hálsinum á mér. Og ég fann ekki betur en að steinninn sem rúllaði um í maganum á mér vildi upp. Ég kinka því aftur kolli til svampklædda hljóðnemans og gaf Torfa merki um að hann gæti byrjað samtalið.
Ég var  hálf miður mín eftir þessa uppákomu. Sem betur fer hefur mér tekist að ná sæmilegum tökum á tal-ensku síðan en ég finn alltaf til stirðleikans, sem ég ætla að útrýma í þessari heimsferð.

dagbók

Ein athugasemd við “Ástralía, Sidney: Kinkað kolli til Auster

  1. Sæll kæri Snæbjörn og Howdy Mate!. Gaman að rifja upp þetta skemmtilega prójekt okkar. Ef ég man rétt var viðtalið svo prentað í því merka tímariti Bjarti. Frú Emilíu. Ég óska þér og þinni ágætu fjölskyldu áframhaldandi góðrar ferðar um hnöttinn. Við Gugga dvöldum tvívegis um nokkura vikna skeið í Sydney árin 2006 og 2008. Veðrið er lygisögu líkast og lífið afslappað og þægilegt á suðurhvelinu. Kær kveðja, Torfi

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.