Aldrei hafði mér dottið í hug að ég ætti eftir að koma til Nýja Sjálands í lífi mínu. Nýja Sjáland hefur eiginlega aldrei verið á landakortinu mínu. En nú sit ég hér á lítilli eyju, Waiheke Island, rétt fyrir utan Auckland. Við búum í litlu sumarhúsi, sem er 45 fm að stærð en er í alla staði heppilegt fyrir okkur fjögur. Út um gluggann sjáum við til Aucklands handan sundsins og í hlíðunum fyrir ofan og neðan húsið eru kindur á beit. Þegar ég horfi á kindurnar verður mér ljóst hvað ég er hrifinn af kindum og jarmi. Jarm hljómar svo vel og gefur tilfinningu fyrir kyrrð og ró. Og kindur í hlíð, þessir hvítu ullarhnoðarar á grænu grasi, eru dásamleg sýn.
Nýja Sjáland minnir mig bæði á Ísland og suður Evrópu. Hér er ferskur vindur af hafi, kindur á beit í grasivöxnum hlíðum og jarm sem berst með hressilegri golunni. Svo snýr maður höfðinu hálfan hring og við manni blasir vínlendur, ólífulundir og annar Suður Evrópskur gróður.
Við erum rétt búin að koma okkur fyrir og ganga um eyjuna og fá okkur kaffi. Fólk er vinsamlegt, kaffið er gott og maður skynjar vel að maður er í þorpi úti á landi. Húsin eru lágreist og ekki sérlega tignarleg.
Ég fékk bók Jóns Gnarr senda í gær frá útgefandanum. Byrjaði að lesa í fluginu á leið til Nýja Sjálands og svo þegar við höfðum borðað kvöldmat í gær. Ég er búinn með bókina. Gleypti í mig 385 síður. Ég hef lesið 2 fyrri bækur Gnarrs um uppvöxt hans og ömurlega æsku. Þær eru bæði fyndnar og átakanlegar. Ekki bækur sem maður setur á efsta stall, en ágætar bækur. Þessi nýja, Útlaginn, minnir á fyrirrennara sína. Jón heldur áfram að fjalla um uppvöxt sinn, nú er hann orðinn unglingur og er sendur í heimavist að Núpi til að taka samræmd próf, kemur aftur til Reykjavíkur og er alósæll.
Mér finnst þessi bók ekki eins einbeitt og fyrr bækur Gnarrs. Það eru of miklar endurtekningar og strúkturinn ekki alveg geirnegldur. Sérstaklega í lokin er eins og höfundur vilji drífa verkið af. Farið á hundavaði yfir. En bókin er samt fyndin og maður hlær oft upphátt yfir veseninu í Jóni og maður getur ekki annað en haft samúð með honumí öllum aulaganginum. Á meðan ég les um Jón hugsa ég oft með mér. Hvað er að honum, hvað amar að honum, hvernig skýrir maður þessa félgasfötlun og þetta fullkomna getuleysi til að hafa minnstu stjórn á lífi sínu? Ég hef ekkert svar. En að honum hafi tekist að vera farsæll borgarstjóri Reykjavíkurborgar er mér fullkomlega hulin ráðgáta.
Það er líka forvitnlegt að lesa sýn Gnarrs á sjálfan sig, og lesa svo hvað hún er oft í miklu ósamræmi við viðbrögð og sýn annarra á hann. En nú ætla ég að klára bókina áður en ég vind mér í næstu bók. Kannski gefur hann einhver svör við spurningum mínum.