Nýja Sjáland, Wiahake Island: Þyrlueigandinn með damantshringinn

Nú kom það í bakið á mér að vilja ná tungumálasambandi við þá innfæddu. Í gær vorum við inni í Auckland, borginni sem er 30 mínútna ferjuferð frá eyjunni okkar.  Við höfðum náð inn í miðbæinn  þegar við Sus vorum orðin kaffiþyrst, enda töluverð ganga að baki,  og settumst inn á lítinn, fyrirtaks kaffibar. Eftir að hafa drukkið kaffi og skipt einni muffin á milli okkar (það er aðhald í fjármálum),  stóðum við á fætur og hugðumst halda áfram að sinna erindum okkar í Auckland.

Á leiðinni göngum við framhjá  konu og tveimur körlum sem sitja við kaffiborð við útidyrnar og kasta á okkur kveðju.  Öll voru þau á sjötugsaldri og annar herramaðurinn, sá sem hafði orðið fyrir hópnum, hafði áberandi gullhring alsettan demöntum á litlafingri. Bar hann og konan, sem augljóslega var eiginkonan hans, yfir sér mikla ríkmannsáru.  Þau eru öll hin glöðustu og óska þess að dvöl okkar á Nýja Sjálandi verði hin ánægjulegasta.

„Hvað ætliði að vera lengi?“ spryr sá með gullhringinn. Þegar þau frétta að við ætlum að vera í tvo mánuði í þeirra heitt elskaða landi hleypur þeim mikið kapp í kinn. „Æ… setjist hérna niður,“ og svo byrjuðu þau að tala um þá mörgu staði á Nýja Sjálandi sem við yrðum að sjá. Konan tók upp penna og fór samstundis að gera lista fyrir okkur.
Hvað heitiði? spurði sá með gullhringinn. Snæbjörn byrjaði ég. „What? Snellbo?“
„No, Snæbjörn…  snow-bear“
„Ok, I call you Snow.“
Þið verðið að koma og heimsækja okkur við búum á Waihake eyju, segir sá með gullhringinn. Og frúin skrifar símanúmerið þeirra á sama miða og hún hafði gert listann með öllum þeim stöðum sem við áttum að skoða á ferð okkar. Hringið í okkur! sögðu þau þegar við kvöddum. Það kom fram í samtali okkar að þau áttu bæði hús á Waihake og í Wellington.

Þetta heimboð hefur auðvitað vakið uppnám í fjölskyldunni. Davíð er viss um að þetta sé geðveikislega ríkt fólk. Og það finnst þessum unga manni  spennandi. Maður með svona hring, hann hlýtur að búa í höll og ferðast um í þyrlu. Við verðum að heimsækja þau!! Sus vill endilega að við nýtum tækifærið og heimsækum hina innfæddu, ekkert er eins uppbyggilegt fyrir ferðalanga. Númi er sammála Davíð. Hér fáum við einstakt tækifæri til að sjá höll, Rolls Royce, þyrlu og kynnast eigendum þessara gersema.

Strax og við vöknuðum í morgun fann ég pressuna. Nú skaltu hringja pabb. Hringdu í þau, segðu að við komum í heimsókn. Þetta þurfti ég að hlusta á frá því að ég opnaði augun. Og ég er ekki maður sem hringir í ókunnugt fólk og spyr hvort ég megi koma í heimsókn. Það er ekkert sem liggur mér meira fjarri. „Varstu ekki að kvarta undan því að við tölum ekki nógu oft ensku?“ eru rökin sem eru beitt á mig.
„Jú, jú en ég fer ekkert að hringja í þetta fólk!“
Svona hefur dagurinn gengið. Með smáhléi þó. Því í morgun kom eigandi kofans sem við búum í og spurði hvort við vildum koma yfir til þeirra hjóna  (í höfuðhúsið, við búum í hjálegunni).
„Do you want to come over and have some coffee or beer….?“
Og áður en ég vissi af missti ég út úr mér við þennan ókunnuga mann: „Beer,“ eins og ég væri algerlega á síðasta snúningi.
„Oh, you like beer!“ sagði hann þurrlega.
Og svo heimsóttum við eigendur kofans í dag og það kom í ljós að það voru fleiri bjórþyrstir en ég. Ted, en svo heitir kofaeigandinn, er bjórbruggari og bruggar til heimilsnota.

Við spjölluðum við þessi ágætu hjón um daginn og veginn og við Ted drukkum bjórinn hans sem hann bar fram í könnum. Sus og eiginkonan Suzanne fengu hvítvín en Númi og Davíð fengu Coke. Ted svolgraði í sig bjórnum af mikilli áfergju og í hörkutempói. Númi, sem var með teljarann á lofti, sagði að honum hafi tekist að svolgra í sig 6 stórum bjórglösu á meðan ég náði tæplega tveimur. Hann var líka orðinn hinn hressasti þegar við kvöddum.
Þegar heim í kofann var komið, að lokinni bjórheimsókninni, hófst aftur sami terrorinn. Nú skyldi ég hringja í ríkmanninn. Ég varðist fimlega en sá þó fljótlega að ég kæmist ekki undan þessu neyðarlega símtali. Ég gekk því á endanum út og hringdi í númerið sem við höfðum á minnisblaðinu frá hjónunum. Ég vissi ekkert hvað ég ætti að segja við þetta ágæta fólk, og þau höfðu örugglega gleymt fundum okkar á kaffihúsinu í gær. Ég beið dágóða stund og var farinn að halda að enginn mundi taka upp tólið, þegar dimmraddaður karlmaður svaraði: „Hello, that’s Lindsey.“
„Yes…  Is this Lindsey?“
„Yeah, who are you?“
„Ummm, my name is…. Snow….“
„Who?“
„Ehhhh… Snow, do you remember, we met at a cafe in Auckland, yesterday….“
„What did you say your name was?“ Nú for hjartað að slá hraðar. Var hann búinn að gleyma mér eða var þetta einhver alókunnugur maður í símanum. Hvernig átti ég að bera upp erindi mitt.
„Snow,“ sagði ég hikandi.
„Snow! Ohhh! Snow. Yeah. Sure, wonderful!“
Og svo tókst mér einhvern veginn að hiksta upp úr mér erindinu og ríkmaðurinn hrópaði aftur og aftur „wonderful“ í símann. Og lagði til að við kæmum strax í fyrramálið klukkan 09:00 til þeirra og fengjum kaffi.
Ég fékk nokkra plússa hjá fjölskyldunni þegar ég gat loks tilkynnt að okkur væri boðið í heimsókn til innfæddra. Nú kemur í ljós klukkan 9 í fyrramálið hvernig móttökurnar verða…. to be continued.

dagbók

Ein athugasemd við “Nýja Sjáland, Wiahake Island: Þyrlueigandinn með damantshringinn

  1. Úff, ég svitnaði við lesturinn. Hverskonar samferðafólk er það sem lætur þig hringja í ókunnuga? Stay strong. xxx dótt

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.