Nýja Sjáland, Waiheke: Hús númer 45

Þessi dagur þróaðist á margan hátt öðruvísi en ég hafði búist við. Vekjarklukkan vakti okkur snemma í morgun. Við áttum stefnumót klukkan níu og við vorum ekki alveg viss hvar nákvæmlega á eyjunni stefnumótið ætti að fara fram. Því urðum við að hafa vaðið fyrir neðan okkur. Við höfðum mælt okkur mót við Lindsey og Vicky og við höfðum adressuna þeirra. Á Google maps sáum við að húsið þeirra lá á miðri eyjunni. Við leigjum kofa á suð-vesturhluta eyjarinnar. Eins og Davíð þreyttist ekki að taka fram þá bendir allt til að gestgjafar okkar séu steinríkir.
Eftir morgunmat lögðum við í hann og keyrðum í austurátt. Við komum brátt inn í töluverða húsabyggð,  flest voru hýbýlin fremur frumstæð og ekkert lyktaði af auði og velmegun á þessum slóðum „Hva, hér geta þau varla átt heima,“ ályktaði Númi. Við keyrðum upp bratta brekku með húsum á báðar hendur og leituðum að húsi númer 45. Ofarlega í brekkunni stóð póstkassi merktur húsi 45. VIð horfðum niður heimreiðina. Hér var engin þyrlupallur, engin sundlaug. Og ekki bólaði á húsi. Að vísu var opinn bílskúr og tveir hrörlegir bílar. Blámálaður Subaru, afar aldurhniginn og ekki líklegur til neinna stórræða. Og aðeins yngri Toyotabíll. Ekki bólaði á neinu húsi. Jú. bak við tré, við hliðina á bílskúrnum. gægðist lítið hús fyrir horn, ekki stærra en bílskúrinn. Von bráðar birtist Lindsey í bílskúrsdyrunum, veifaði til okkar og gaf til kynna að við skyldum keyra niður heimreiðna. Ég ákvað að drepa  frekar á bílnum uppi við veginn og ganga niður. Þannig fengju allir tíma til að melta þessa óvæntu aðkomu.
Hjónin voru önnum kafin og hálfstressuð þegar við gegnum inn, en tóku vel á móti okkur. Helltu upp á kaffi og létu dæluna ganga. Það kom í ljós að þau áttu að vera mætt upp á meginlandið klukkan 11:00 og því höfðu þau afar skamman tíma. En til að bæta það upp buðust þau  til að hitta okkur á morgun og ganga með okkur frægan gönguslóða á eyjunni og það tekur tvær klukkustundir að feta þann stíg. Það var erfitt annað en að þiggja það.
Lindsey var ánægður að fá að tala og sagði okkur að hann væri kominn á eftirlaun en gæti ekki látið vera með að setja á fót allskonar viðskipti. Það sem hann var stoltastur af var rennibrautarútleiga sem hann átti. Hann leigði uppblásnar rennibrautir til fyrirtækja sem vantaði leiktæki þegar þau væru með fjölskylduhátíðir. Hæsta rennibrautin í hans eigu var 5 metra há. Ég sá út undan mér að Númi og Davíð litu hvor á annan og ég gat lesið úr svip þeirra að sennilega væri ekki hægt að reka hallærislegra fyrirtæki.
Við kvöddum hjónin með þeim orðum að við sæjumst á morgun við göngustíginn. Síðar í dag kom svo sms frá þeim þar sem þau sögðust vera búin að skipuleggja BBQ veislu annað kvöld og við værum aðalgestirnir. Já. Á morgun erum við sem sagt nær allan daginn undir verndarvæng þessara gestrisnu hjóna. Þetta var ekki alveg það sem ég hafði í huga þegar ég hvatti til að við legðum okkur fram að tala ensku við innfædda. Þetta er síðasti dagur okkar hér á eyjunni og ég hafði séð kvöldið aðeins öðruvísi fyrir mér. En eins og Sus bendir réttilega á, er þetta afar vinsamlegt og hugulsamt af rennibrautareigandum og konu hans. Og við getum ekki verið annað en þakklát fyrir einstaka gestrisni þeirra.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar