Nýja Sjáland, Waiheke: Síðasti dagur á eyjunni

Ég var varla vaknaður þegar sms frá Lindsey og Vicky birtist á skjánum. „Hittumst fyrir framan löggustöðina. Við leggjum af stað að heiman núna.“ Úps! Ég hafði ekki sofið nóg, lá lengi vakandi yfir hinni nýju bók Ólafs Jóhanns og við að skipuleggja bókaútgáfuna í Danmörku. Þegar hér á Nýja Sjálandi er kvöld eru samstarfsmenn okkar að vakna í Danmörku og inn rignir tölvupóstum. Ég er tæplega hálfnaður með bók Ólafs Jóhanns. Það tekur nokkurn tíma fyrir hann að byggja upp spennu en ég hlakka til að sjá hvert framhaldið á sögunni leiðir mig.
Við rukum sem sagt af stað, hálfvöknuð, til að hitta þessi áhugasömu hjón sem vildu allt fyrir okkur gera. Þau höfðu skipulagt göngutúr meðfram ströndinni. Allt var fallegt, fuglarnir, sjórinn, ströndin og klettarnir og það kom í ljós að Lindsey var ákaflega vel að sér um allslags hluti svo það var skemmtilegt að hlusta á hann. Og honum finnst gaman að tala. Þetta var því mjög vel heppnaður göngutúr.
Eftir gönguna fylgdum við þeim á kaffibar og fengum okkur kaffi og þau fóru í gegnum væntanlega áfangastaði okkar á eyjunni og sögðu okkur hvað væri þess virði að gera. Kynni okkar af þessum ágætu „kiwium“, eins og heimamenn kalla sig, hafa verið hin gagnlegustu og ánægjulegustu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.