Rigningardagur í Russel, gamla höfuðstað Nýja Sjálendinga, sem nú er þeirra Skorradalur. Hingað komum við í gær eftir nokkra keyrslu og gistum í litlum bústað fullum af blikki. Blikk-eldhús, blikk-sturtuklefi, blikk-þak og ísskapurinn er smíður úr efni sem minnir mjög á blikk. Blikkkóngurinn, eigandinn, býr hér við hliðina. Húsið stendur nánast niður í fjöru og hér er fallegt útsýni yfir fjörðinn. Þegar maður keyrir upp í gegnum Nýja-Sjáland kemur Ísland sífellt upp í hugann. Hér er íslenskt landslag, íslenskur vindur, kindur á beit í grasivöxnum hlíðum, en loftslag nokkuð mildara.
Í Russel búa fáir en hingað flykkjast hinir efnameiri nýsjálendingar á sumrin í fínu sumarhúsin þeirra. Það vill svo til að dagurinn í dag markar upphaf sumars hér í landi. Í tilefni af sumarkomu hefur um helginga verið ött kappsiglingin milli Auckland og Russel og fyrstu bátar náðu inn til Russel í gærkvöldi, sumir komu í nótt og aðrir hafa siglt í hægðum sínum inn fjörðinn í dag. Höfnin er því full af seglbátum.
Dagurinn hefur farið í inniveru enda töluvert regn. Núm og Daf hafa unnið að skólaverkefnum, Sus hefur aðstoðað og ég aðeins. Annars hef ég setið við skólaborðið, svarað tölvuskeytum og lesið.
Nú er Ólafur Jóhann Ólafsson á lesdagsskránni. Í mínum huga hefur hann aldrei notið sannmælis á íslenskum bókamarkaði sem svo oft er stýrður af óhugsuðum, og oft innistæðulitlum, upphrópunum. Ég er sannfærður um að þeir sem hafa hrópað hæst hafa aldrei lesið höfundinn. Að vísu má segja að Ólafur líði enn fyrir þá óhóflegu auglýsingakeyrslu fyrir fyrstu bækur hans. Í þá daga tíðkaðist ekki að auglýsa höfunda af slíku kappi sem er gert í dag. Sumir fylltust öfund enda seldust bækur hans hraðar en heitar lummur en aðrir gátu ekki tekið mark á höfundi sem var auglýstur dag og nótt í útvarpi, sjónvarpi, blöðum, tímaritum og strætóskýlum. Í dag þætti samskonar auglýsingaherferð og Ólafur fékk á sínum tíma bara hálfvolg markaðssetning. Ólafur Jóhann hefur heldur aldrei tilheyrt réttum hópi menntamanna og því ekki komið til greina að bókmenntaelítan (eða sá fámenni hópur sem setur stefnu bókmenntaumræðunnar) hampaði honum. Ég hef til dæmis aldrei lesið neitt eftir hann á íslensku. Fyrir mörgum árum las ég eina af bókum hans á ensku sem mér þótti prýðileg og þegar ég viðraði þá skoðun var mér sagt að hann væri mun betri á ensku en íslensku. Nú ætla ég sem sagt að lesa höfundinn íslensku. Ég er langt kominn með nýjsutu bók hans ENDURKOMU sem kemur út síðar í haust.
Í kvöld gerðumst við svo kræf að keyra inn í Russel-bæinn og panta take-away pizzu. Við spurðum í kaupfélaginu, um leið og við keyptum jógúrt, hvar besta pizza bæjarins væri. Afgreiðsludaman var ekki sein til svars: “The best pizza is by Rays – and it is the only pizzaplace here.”
Við fylgdum auðvitað leiðbeiningum kaupfélagsstúlkunnar til Rays sem bakaði 4 pizzur í einum grænum hvelli. Þeir ilmuðu vel í bílnum á leið upp í hús og allir hlökkuðu mjög til að setja tennurnar í þessar girnilegu pizzur. En sælan varaði ekki lengi. Hver pizza var með þverhandarþykkum botni og 12 kg. af osti. Auk þess tókst pizzameistaranum að lauma trönuberjasultu ofan á pizzurnar. Því miður fóru um það bil 36 kg. af pizzu í ruslið og ég er ekki stoltur yfir því.