Ég tók ákvörðun í gærkvöldi um að ég skyldi hlaupa á meðan við værum hér í Coromandel. Landslagið umhverfis bústaðinn sem við leigjum er mjög hlaupavinsamlegt eða fjandsamlegt allt eftir því hvernig maður lítur á það. Við erum á afskekktum stað, fáir á ferli hér í kring og næstum engin bílaumferð. Og vegirnir liggja upp og niður misbrattar brekkur. Klukkan 09:00 var ég klár í hlaupið og Númi ákvað að slást í för með mér. Það eru nú tveir mánuðir síðan ég hljóp síðast og þótt við höfum oft gengið langar leiðir höfum við ekki fengið púlsinn upp. Við höfum spilað einn tennisleik og það er einasta líkamlega áreynslan sem við höfum fengið. Ég vissi því að það yrði engin sæla að hlaupa allar þessar brekkur. En okkur Núma tókst ágætlega með okkar hlaup (Sus hafði hlaupið fyrr um morgunin og kláraði sitt hlaup með bravúr). Við Númi ætlum að hlaupa aftur á morgun.
Já, við erum kominn aftur í nágrenni Auckland, nú rétt suðvestur af borginni á hálfeyju til bæjar sem kallast Coromandel. Hingað koma Aucklendingar í sumarfrí og því svífur fríbæjarstemmning yfir. Veitingastaðir og kaffihús á hverju strái, fjölmargir miðað við hvað bærinn er lítill. En það eru ekki margir á ferli því Nýsjálendingar eru ekki enn byrjaðir að taka sumarfrí í ár.
Í nótt kláraði ég bók Ólafs Jóhanns, Endurkoman. Ég hef verið fremur lengi með bókina sem þó er ekki neinn rosadoðrantur; tæpar 400 síður (að vísu hef ég lesið barnabók eftir Roald Dahl á meðan ég var í gangi með Ólaf. Varð allt í einu forvitinn um Roald Dahl.) Ég held að bókin hans Ólafs eigi líka dálitla sök í hvað ég hef verið lengi (næstum viku). Framvindan er hæg og ég er ekki alveg viss um að bygging sögunnar sé góð. Það er títt stokkið fram og til baka í tímanum sem er í sjálfu sér í fínu lagi. En þessi aðerð Ólafs til að segja hæga og átakalitlu sögu þar sem tímastökk eru algeng veldur því að manni finnst sagan varla mjakast áfram.
Ég var nokkuð hrifinn af því hvernig hann lýsir sambandi höfuðpersónunnar, læknisins og vísindamannsins, við aldraða foreldra sína. Það fannst mér vel gert og áhugavert. Það sem dró söguna niður var að höfuðpersónan er of litlaus og rannsóknir hans á meðvitundarlausu fólki verða aldrei sérlega forvitnilegar. Texti Ólafs er ágætur, stundum minnti frásagnaraðferð hans á Kazuo Ishiguro, þessi lágstemmdi tónn, en honum tekst ekki að ná fram sömu spennu í textann og Ishiguro er svo góður til. Hér vantar rafmagn í kyrrðina. Ég er viss um að Ólafur getur skrifað miklu betri bók. Það býr miklu meira í höfundinum. Hann vantar að hleypa fram af sér beyslinu, setja meira fútt og swing í frásögnina. Hingað til er bók Hallgríms Sjóveikur í München sú besta íslenska bók sem ég hef lesið á ferðum mínum.