Það voru litir grísaungar út um allt. Meðfram veginum, á veginum og hinum megin við hripleka girðingu. Við höfðum keyrt út fyrir alfaraleið, eftir mjög mjóum malarvegi, upp hlíð og svo þegar við vorum komin nokkuð upp fjallið birtust allir þessir grísir. Og dráttarvélar og gamlir, ónýtir bílar úti á túni. Við stoppuðum ökutækið okkar og stigum út og þá birtust líka hænur og hanar. Þetta var skrítinn heimur, hér langt frá öllum. Grísirnir voru gæfir og komu til okkar. Í fjarska sáum við berfættan, eldri mann með mikinn gráan hrokkinkoll, koma gangandi í átt til okkar með dagblað í hendinni. Þetta var nú meiri senan.
Við tókum manninn tali. Það kom í ljós að hann var fæddur á þessari bújörð, sem hann hafði erft eftir foreldra sína. Húsið var bárujárnsskúr, sem hvorki var ekki líklegur til að standa af sér 7 vindstig eða vera skjól fyrir regni. Hér ól hann upp gælugrísi. Grísina borðaði hann ekki. Á næturnar svaf hann með 60 grísum í litla kofanum sínum. “Grísirnir eru hreinlegir, alveg hljóðir og stilltir um nætur.” Hænurnar verptu eggjum en hann fann aldrei eggin, vegna þess að hænurnar voru svo klárar, eins og hann sagði, svo þær fundu alltaf nýja og nýja staði til að verpa á. Og landið var stórt, tugir hektrara. Stundum fann hann egg og þá voru ungar í eggjunum.
Dagblöðin sem hann hélt á vildi hann endilega að við tækjum, þau voru ekki alveg ný, en þau voru ókeypis. Hann talaði hratt og lágt svo stundum var erfitt að skilja hann.
Hvaðan kemurðu? spurði hann mig.
Frá Íslandi, svaraði ég. Hann varð afar glaður. Hann þekkt þrjá Íslendinga, alla sjómenn sem höfðu landað fiski við Nelson (sem er hafnarbær á Nýja Sjálandi). Hann fræddi okkur svo um að hann ætti 3 bræður og tvær systur og þau bjuggu víðs vegar um Nýja Sjáland.
Þegar við bjuggumst til að kveðja, vildi hann helst ekki sleppa okkur, hann vildi tala áfram.
“Þegar þú bjóst á Íslandi, varst þú líka sjómaður?” spurði hann mig með sinni lágstemmdu röddu. Hann horfði á mig með forvitni. Augun voru alvarleg.
“Nei, ég er ekki sjómaður,” svaraði ég.
“Hvað gerðirðu þá,” stutt hik, “…þegar þú varst á Íslandi?”
“Ég gaf út bækur.”
Mér til mikillar furðu, ljómaði maðurinn. Ég hef aldrei séð nokkurn svo ánægðan með starfið mitt. Flestir vita ekki einu sinni hvað það þýðir að gefa út bækur (ertu prentari…. skrifar þú bækur… segja flestir). En þessi einbúi var himinlifandi.
“That’s nice, that is really nice!”
Við kvöddum manninn, keyrðum áfram og lögðum bílnum í litlum firði við strönd, Long Bay, og ætluðum að ganga út fjörðinn. Þegar við komum að göngustíg var stórt skilti um að stígurinn var lokaður og hættulegur. Í sama mund bar að eldri hjón, í göngubúningi; þykkir leðurskór, göngustafir, bakpoki og vindblásið hár. Við stóðum þarna saman með þessum göngubúnu hjónum og furðuðum okkur á að stígurinn var lokaður.
Þetta voru Englendingar á ferð, bjuggu við landamæri Skotlands, ekki langt frá Newcastle. “Við búum þar sem ekki er sérlega margt fólk, þar sem maður sér langt og það gerir fólk opnara,” sagði konan, eins og þetta væri algerlega sjálfsagt og á allra vitorði. Þau voru nýkomin frá Suður Kóreu þar sem þau höfðu verið í heimsókn hjá syni sínum. Á Nýja Sjálandi ætluðu þau að vera í tvær vikur. Og ganga.
Það er merkilegt með Englendinga, sérstaklega eldra fólk, hvað þeir eru kurteisir og dannaðir. Þegar ég verð stór ætla ég að búa á Englandi og læra að vera kurteis á enskan hátt.
Já, ég hljóp aftur í morgun, upp og niður brekkur, með tindilfættum Núm mér við hlið.