Nýja Sjáland, Coromandel: Merkisdagur.

Þegar ég vaknaði í morgun klukkan 5:40 var mér ljóst að þetta var merkisdagur sem ég var vaknaður til eftir heldur órólega nótt. Mig dreymdi Grím Kolbeinsson frá prentsmiðjunni Odda. Það tengist kannski deginum. 1. nóvember 2015. Nákvæmlega tíu ár síðan Davíð fæddist. 1. nóvember 2005. Sama dag var glæpasaga Jóns Halls Stefánssonar, Krosstré, send í prentun til prentsmiðjunnar Odda. Við höfðum unnið alla nóttina, ég og Jón Hallur og sennilega fleiri (ég held að Uggi Jónsson hafi ekki verið langt undan) og ef minnið bregst ekki höfðum við líka unnið meira og minna fram undir morgun nóttina á undan. (Við spiluðum sömu plötu aftur og aftur. Repeat. Hvaða plata það var, er horfið í minnisþokuna.) Ég var því illa sofinn og þreyttur þegar Sus hringdi í mig í vinnuna og sagði að nú væri komið að því. Daf væri á leiðinni. Ég brunaði heim og við Sus þutum upp á fæðingardeild. Sem betur fer gekk fæðingin hratt og vel fyrir sig. Allt var svo eðlilegt og náttúrulegt í kringum fæðinguna hans Daf og svefnleysið kom því ekki að sök. Daf var kannski ekki sá sprækasti svona fyrst eftir að hann kom í heiminn, það þurfti aðeins að banka hann í gang. En svo komast hann líka almennilega í swing og hefur verið í swingi síðan.
Í dag eru sem sagt 10 ár síðan ég sat á skrifstofu Bjarts og andaði léttar eftir að hafa sent bókina hans Jóns upp í Odda. Það var heldur lengri fæðing en hjá Daf. Aumingja Jón Hallur hafði verið barinn áfram mánuðum saman; það þurfti meira til en létt bank til að koma honum í gang. Við höfðum pískað upp, að okkur fannst, nokkuð góðri stemmningu fyrir væntanlegri fyrstu glæpasögu Jóns Halls, sem var alls óþekktur utan póstnúmers 101 í Reykjavík. Og innan 101 var hann kannski helst þekktur fyrir ljóðaþýðingar. Jarðvegurinn til að planta stórum væntingum fyrir glæpasögu hjá glæpaþyrstum lesendum var kannski ekki sá frjósamasti. En við, ég og minn stórkostlegi samstarfsmaður Jón Karl, vorum fullir bjartsýni eins og svo oft áður. Við settum í gang nokkuð mikla herferð þar sem Jón Hallur var útnefndur krónprins, hinn mikil erfingi glæpasögukrúnunnar. Arnaldur Indriðason hafði borið kórununa árum saman (og ber hana sennilega enn). En nú var boðað fall kóngsins og þjóðin mátti búa sig undir að sjá nýjan mann í hásætinu. Ríkisarfinn var enginn annar en Jón Hallur Stefánsson. Satt að segja trúði ég því algerlega að nú væri komið að valdaskiptum. Ég efaðist ekki eitt andartak. Krosstré frannst mér stórfín bók og Jón hafði lofað að skrifa fleiri glæpabækur fyrir Bjart. Jón skrifar ótrúlega lifandi texta, einfaldar setningar ólga af lífi. Þegar nálgaðist útgáfudag voru auglýsingar settar upp í strætóskýli,  prýddum myndum af krónprinsinum Jóni með bókina sína Krosstré. Á baksíðum dagblaðanna var sama auglýsing prentuð. Þetta var allt heldur fyndið.
Jón Hallur er örugglega ekki maður sem maður sér fyrir sér á valdastóli. Ég man heldur ekki eftir að ég hafi hitt Jón Hall, og ég hef hitt hann oft, án þess að Jón beri upp vandræði sín. Annað hvort vandræði sem hann er fastur í, nýlaus úr eða á leiðinni í. Þetta er vel meint, Jón er í alla staði frábær maður og það er hægt að segja margar sögur af Jóni og vandræðum hans. Þetta var kannski ástæðan fyrir því að herferðin heppnaðist ekki alveg eins vel og við höfðum vonast eftir; krónprinstitillinn festist aldrei almennilega við persónu Jóns Halls.
(PS: Löngu eftir að bókin kom út reyndum við að skilja afhverju við kölluðum bókina Krosstré. Jón Hallur kom með titilinn, út frá einhverri tilfinningu og við á forlaginu sögðum bara: já fínn titill. En ekkert bókinni vísar til krosstrés eða skýrir titilinn. Útgáfurétturinn var seldur til nokkurra landa, því það var alltaf hugmyndin að gera Jón að alþjóðlegri stjörnu. Þýðendur frá hinum ýmsu þjóðlöndum sendu því oft fyrirspurnir til forlagsins. Hvað er Krosstré, Crosstree? Gátum við svarað: So fail crosstrees as other trees?)

IMG_5427

En í dag höfum við fagnað afmæli krónprinsins okkar, Davíðs, sem ber titilinn vel. Dagurinn byrjaði sem sagt klukkan 5:40. Úrslitaleikur Nýja Sjálands og Ástralíu í heimsmeistarakeppninni í rugby var spilaður og bein útsending á pöbbnum niður í bænum. Við urðum  vitni að sögulegum sigri Ný-Sjálendinga og bæjarbúar, sem líka voru árrisulir, fögnuðu vel og lengi og gerðu grín og skellihlógu að þeim Áströlum sem höfðu gerst svo djarfir að mæta á krána.

IMG_5423

Afmælisdaginn höfum við sem sagt notað til að halda upp á fæðinguna fyrir 10 árum, Sus hefur bakað, Númi búið til pönnukökur og ég haldið uppi almennu fjöri. Eftir hádegi örkuðum við svo í langan göngutúr með nesti, samlokur og nýbakaðar cookies. Enduðum á Pepper Tree veitingastaðnum þar sem við pöntuðum borð fyrir kvöldið. Það hefði verið við hæfi hefði staðurinn heitið Cross Tree.

Merkur dagur verður sennilega enn merkilegri fyrir þær sakir að ég fékk senda minningabók Árna Bergmann. Ég hlakka mikið til að lesa hana.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.