Nýja Sjáland, Taraweravatn. Teppalögð gólf

Höfum keyrt mestan part dagsins. Erum enn á suðurleið, en nú stefnum við inn í land. Við höfum leigt teppalagt hús við Taraweravatn. Hér er enginn, þó eru nokkur hús meðfram vatninu, en þar er enginn.  Sennilega kemur fólk með sumrinu. Það er vor, fínt veður, 19 gráðu hiti og sól. Húsið er nokkuð stórt, stærsta húsnæði sem við höfum leigt á ferðum okkar, og búið alls kyns leiktækjum. Borðtennisborð, air-hockey-borð og úti er körfuboltahringur og róla. Það fer vel um okkur hér í kyrrðinni við vatnið. 20 km eru til næsta bæjar, Rotarunga. Hér er íslensk lykt í loftinu enda mikið hverasvæði.

Ég er byrjaður að lesa Árna Bergmann. Mér finnst það gaman, en þó er greinilegt að Árni er 25 árum eldri en ég. Hann fjallar um tíma sem ég þekki ekki. Þótt allt sé áhugavert sem Árni fjallar um finn ég fyrir þessu litla tímagapi sem skilur okkur að. Sennilega er ég ekki sérlega góður ævisagnalesari. Saga Hallgríms átti betur við mig. Þar var fjallað um minn tíma, fólk sem ég þekki, skóla sem ég þekki (bæði Álftamýrarskóla og MH) og hverfi sem ég ólst upp í.

Mér hefur töluvert verið hugsað til bókar Ólafs Jóhanns, Endurkomuna. Ég var heldur leiður yfir að mér þótti bókin ekki betri en raun varð. Las viðtal við höfundinn í DV sem var fyrirtak, en aftur fékk ég á tilfinninguna að hann mætti missa aðeins meiri stjórn á sér, sleppa fram af sér beislinu, til að gera hlutina aðeins meira interessant.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.