Nýja Sjáland, Taraweravatn: Sögumaður

Nú sest ég aftur niður og skrifa í þessa ferðadagbók sem ég hef dundað við síðan í upphafi ferðar okkar í september. Ég hef verið að lesa Árna Bergmann, minningabók hans. Í blábyrjun bókarinnar spyr hann þeirrar þörfu spurningar: fyrir hvern hann væri að skrifa endurminningar sínar. Það vakti mig til umhugsunar um mín eigin skrif hér á Kaktusnum og spurði sjálfan mig: fyrir hvern skrifa ég kaktusfærslur? Hverjum segi ég sögu? Hvers sögumaður er ég? Hugmyndin var að halda dagbók fyrir sjálfan mig, þar sem ég skráði niður helstu viðburði í ferðalagi okkar næstu níu mánuði (ekki bara til skrá atburði og staði heldur líka til að æfa mig í að skrifa íslensku. Mánuðum saman tala ég sárasjaldan íslensku og skrifa einfalda tölvupósta á íslensku. Smám saman ryðgar maður, sem er skammarlegt, og því fannst mér nauðsynlegt að halda íslenskuskrifum við.) Við dagbókarskrif, sama hvað maður reynir að sannfæra sjálfan sig um að þetta sé bara fyrir eigin augu, getur maður ekki gert að því að hafa á tilfinningunni að ósýnilegur lesandi hangi yfir öxl manns;  maður finnur sífelldlega fyrir andardrætti hans niður í hálsmálið. Í upphafi hafði enginn link inn á dagbókina, samt fann maður fyrir heitum andgufunum skríða upp hnakkann og ofan í skyrtukragann. En þegar Sandra, Sölvi og Nói fóru að spyrja um gang mála á ferðalaginu var einfaldast að láta þau hafa linkinn til að þau gætu fylgst með. 3 lesarar. Smám saman fengu fleiri linkinn og nú eru 6 linkhafar. En ósýnilegi lesandinn er sá sami.

Nú hef ég sem sagt lesið bókina hans Árna Bergmann, míns gamla kennara. Ég hafði ekki sérlega gaman að bókinni hans. Ég er sennilega of ungur til að hafa áhuga á Rússlandi eftirstríðsáranna, kjörunum á hinum gamla Þjóðvilja (þótt ég hafi sjálfur borið blaðið út í mörg ár) og pólitík kaldastríðsáranna. Árni er ekki sá fjörugi penni sem mann þyrstir svolítið eftir. Hann er fjölfróður og vel máli farinn. En maður getur ekki sakað hann um að vera sprúðlandi af fjöri.  Það var hann heldur ekki sem kennari. En ég naut þess að sitja í tímum hjá honum. Hann malaði góðlátlega í 90 mínútur, leið fimlega milli umfjöllunarefna, í sama tempó, sömu tóntegund og kom víða við.  Hann kenndi mér rússneskar bókmenntir. Ég held að flestir aðrir hafi hálfsofið. En nú hef ég sagt skilið við bók Árna, síðustu kaflarnir runnu hratt í gegn.

IMG_5443
Vagn úr sviðsmynd BACK TO FUTURE er parkerað hér neðar í götunni og er selt kaffi í gegnum lúgu.

Hér rigndi töluvert í dag og við sátum inni og hver sinnti sínu. Núm og Daf gerðu skólaverkefni. Sus bakaði bollur, las og hjálpaði drengjum með dönsku. Ég vann, svaraði mailum, útbjó e-fréttabréf, las nýja nóvellu eftir Renée Knight sem við gefum út og er hugsuð sem kynningarefni fyrir kiljuútgáfu á bókinni hennar. Ég var ekki hrifinn svo við kaupum ekki.

Nú vona ég að ég fái bók Braga Ólafssonar senda í kvöld svo ég geti byrjað að lesa. Ég gat ekki varist smáglotti þegar ég las í kynningartexta JPV forlags, sem nú gefur út Braga, segir: „Þekktasta bók Braga erlendis er án efa skáldsagan Gæludýrin sem hefur komið út á fjölda tungumála.“ Þetta er auðvitað glott sem ber vott um mitt óþroskaða sálarlíf. Þegar Bragi ákvað, í sínum góða rétti, að söðla um og fara frá Bjarti yfir á JPV og vakti hjá mér töluverðar sálarkvalir, mátti skilja á höfundinum að hann vildi m.a. að bækur hans færu víðar um heim. Gæludýrin komu út hjá Bjarti og er ásamt Hvíldardögum að mínu mati bestu bækur Braga. Gæludýrin er sú bók  Braga sem hefur verið seld til flestra landa. Ég ætla ekki að rifja upp brotthvarf skáldsins með útstæðu eyrun frá Bjarti á sínum tíma, það finnst mér leiðinleg saga og yrði  bara til að koma mér í vont skap að rifja hana upp hér. En þrátt fyrir allt hlakka ég til að lesa Sögumann, Braga,

dagbók

Ein athugasemd við “Nýja Sjáland, Taraweravatn: Sögumaður

  1. Ég var orðinn spenntur fyrir því að lesa Árna Bergmann, af þeim fáu áföngum sem ég tók í bókmennta þótti mér rússnesku bókmenntirnar langskemmtilegastar og Árni skemmtilegur kennari. Ég sé til hvort ég lesi hana.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.