Nýja Sjáland, Raetihi: Sögumaður í hlekkjum

Ho. Við erum langt upp í sveit. Svo langt, að hingað inn í þennan frjósama dal, með grasivöxnum hlíðum, liggur 10 km torfær malarvegur. Ekki fær hverjum sem er. Allt er hér grænt, djúpgrænt og frjósamt, það drýpur hunang af hverju strái. Við búum hjá góðhjörtuðu fólki, John og Megan. Þau eru um sextugt. Bæði ósa af góðmennsku og eru í takti við hina gjöfulu náttúru hér. Bærinn heitir Riverhead og landið sem tilheyrir bænum er risastórt, 10.000 hektrarar og hér eru 1000 kindur á beit og 500 kýr. Búskapurinn er rekinn á gamaldags hátt, engar tölvustýrðar skepnur, heldur er það tilfinning bóndahjónanna fyrir náttúru og dýrum sem stýrir rekstrinum. Engin viðkvæmni gagnvart dýrunum, þau deyja ef þau deyja og ekkert meira um það að segja. Hér fá hvorki kindur né kýr fæðingahjálp, það er ekki mögulegt þegar aðeins tveir bændur þurfa að sinna búinu og dýrin svo mörg. Dýrin fæða afkvæmi sín úti í náttúrunni, ein og óstudd.

Hér tökum við dálítinn þátt í bústörfunum, hjálpum aðeins til við að gefa kálfum, fóðra hænur og reka kýr milli afgirtra beitarhólfa. Annað kvöld eigum við að aðstoða við veiðar á dýri sem er mikil plága hér í Nýja Sjálandi. Possum heitir dýrið og er á stærð við kött. Við eigum að skjóta dýrið með riffli. Númi sem á afmæli þennan dag hlakkar mikið til.

IMG_5493

Í morgun kláraði ég að lesa Sögumann, Braga Ólafssonar. Þetta er ekki löng saga sem Bragi hefur skrifað, um það bil 200 síður. Bókin fjallar um einstaklinginn G. (sem er sögumaður bókarinnar) og hinn hálfbrasílíanska Aron Cesar sem G. veitir eftirför alla söguna. G. kallar sig G. því nafn hans er honum ekki að skapi. Gé er ég afturábak.

(Dálítið fyndið að G. minnti mig alltaf á fréttafulltrúa Vegagerðarinnar á Íslandi, G. Pétur Matthíasson. Guðmundur Pétur,er fyrrum samstarfsmaður minn í Sigöldu. (Guðmundarnafnið var honum heldur ekki að skapi því kallaði hann sig alltaf G. Pétur. Ég hef það á tilfinningunni, án þess að vera sérfróður um efnið, að nú til dags sé G. Pétur sá íslenski Facebook-meðlimur sem er hvað naskastur að spotta mistök annarra. Mín tilfinning er að ekki sé til það litla hliðarspor í íslensku samfélagi sem G. Pétur sér sig ekki tilknúinn að benda á. Það er kannski bara einn maður á Facebook sem er enn heilagri, og hefur stórkostlegra vald á vandlætingu, það er Illugi Jökulsson.)

En nóg um hina heilögu Facebook-tvennu og hvað er ég að röfla um eitthvað sem ég hef ekkert vit á. Aftur að sögu Braga. Strax í fyrstu bók sinni, Ansjósum hafði Bragi þróað sérkennilegan og einstakan tón. Í senn hátíðlegan og sposkan. Þetta er skemmtileg rödd sem bar uppi fyrstu bækur Braga. Maður fékk ekki nóg. En það er einmitt þessi sama sögurödd sem sennilega er orðin að fótakefli höfundarins. Fótakefli er einmitt rétta orðið því það er eins og Bragi hafi festst í einhverju sem hann er ófær að losa sig við, og hamlar honum bæði að komast áfram og afturábak. Sögumaður er lítilfjörlega saga, borinn af frásagnarstíl sem megnar ekki lengur að bera heila sögu. Frásögnin haltrar, er aldrei sprúðlandi né leikandi létt. Sagan hefur ekki hjartapúls heldur líður vélrænt áfram í gegnum miðbæ Reykjavíkur, þræll hins einhæfa stíls sem höfundur hefur á takteinum. Sennilega er kominn tími til að Bragi losi sig við stílhlekkina, skrifa af meiri einlægni og gefa meira af eigin hjarta. Segi eitthvað satt. Þetta er tilfinningin eftir að hafa lesið Sögurmann. 

IMG_5513

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.