Nýja Sjáland, Raetihi: PEEK og POKE

Ho. Hér er afmælisdagur Núma. Nú er hann 14 ára maður, 14 ára efnilegur, ungur maður.

Við erum enn stödd á sveitabænum langt inni í afskekktum dal. Hér í þessum langa og víðáttumikla dal  er bara búið á 4 bæjum. Á einum bænum býr einbúi sem vill helst ekki tala við aðra, á öðrum búa „brjálæðingarnir“ eða „The carzy family“ eins og gestgjafar okkar kalla þau. Þetta eru hjón á efri árum, „óvitlaus“  en gera ekkert af viti. Þau fá framfærslu frá hinu opinbera og eru bara sjálfu sér og öðrum til vandræða. Á þriðja bænum býr hjúkrunarfræðingur sem keyrir hvern morgun 50 km til vinnu og kemur heim á kvöldin eftir langan dag. Og svo eru það gestgjafar okkar, sem eru fyrirmyndar bændur í alla staði. Hér er sem sagt ekki mikið félagslíf.

Hjá bændunum okkar er allt í blóma, Þau eru sjálfbjarga, rækta eigið grænmeti, veiða sér til matar eða rækta upp svín, lömb og naut til slátrunar. Baka eigið brauð, búa til eigið jógúrt, eigin rjóma, eigið smjör. Og þau eru þar fyrir utan óvenjulega góðhjörtuð. Til dæmis taka þau afmælisdag Núma mjög alvarlega. Voru bæði komin á fætur fyrir allar aldir til að geta fært okkur nýbakað brauð með morgunmatnum. Þau hafa þar að auki skipulagt byssuveiðar, því þau vita hvað það er spennandi fyrir borgarbarn. Fyrst kanínuveiðar seinnipartin og svo possum-veiðar í kvöld. Milli veiðiferða eru þau búin að leggja drög að varðeldi þar sem við getum steikt pulsur sem forrétt fyrir hátíðarkvöldmat sem þau hafa líka eins og allt annað undirbúið af alúð.

Ég sjálfur gæti tæplega hugsað mér að búa svo afskekkt, hér er mikil kyrrð og góð, en sennilega ætti ég erfitt með að njóta þessarar kyrrðar allan ársins hring. Ég held að ég þyrfti aðeins meiri ókyrrð. En fyrirmyndarbændunum hér finnst þetta draumalíf í paradís.

Ég er sem sagt búinn að lesa og gleyma bók Braga Ólafs og er byrður að lesa handrit að bók sem kemur út í útlöndum árið 2016. Bókin heitir THE IMPOSSIBLE FORTRESS. Óvenjuskemmtileg bók. Fjallar um 14 ára strák sem er heltekinn af tölvutungumálinu BASIC og skrifar forrit fyrir leikjatölvur. Þar að auki er hann heltekinn af öllu því sem heltekur 14 ára unglinga. Allt þetta gerist í byrjun níunda áratugarins á upphafsárum einkatölvunnar.

Ég var sjálfur dálítið upptekinn af BASIC-forritunarmálinu á fyrsta árinu mínu í MH. MH bauð upp á tölvuherbergi með einni Commandore 64 tölvu og maður varð að sitja um tölvuna til að komast að við sitt tölvunörderí. Ég hafði náð nokkuð góðum tökum á BASIC og skrifaði meðal annars nokkuð flókið forrit sem átti að gera mig forríkan. Tölvan var mötuð á upplýsingum um enska fótboltan og spáði svo fyrir um úrslit leikja helgarinnar, og þar að auki skrifaði út getraunaseðlaraðir. Ég þróaði forritið í marga mánuði og tókst nokkrum sinnu  að fá 10 (af 12) rétta í getraunum. Minn vandi var að Tómas Ponzi og Þórarinn (sem síðar varð reikniskennari í MH)  sátu líka um tölvuna og voru nánast öllum stundum í tölvuherberginu. Þeir tveir rottuðu sig saman og litu mig hornauga. Ég var óöruggur í nálægð þeirra og beið hljóður á meðan þeir kláruðu sinn tíma við tölvuna. Stundum vogaði ég mér ekki inn í herbergið heldur kíkti laumulega inn til að sjá hvort þeir sætu við tölvuna. Þeir höfðu náð enn lengra en ég og meðal annars sá ég að þeir höfðu bætt skipununum POKE og PEEK við sinn tölvuorðaforða. Ég sá þessar nýju skipanir yfir axlirnar á þeim og velti mjög fyrir mér hvernig PEEK og POKE voru notuð, hvaða merkingu þessi orð höfðu í tölvutungumálinu. Ég áræddi ekki að spyrja þá og fór því heim og las mig til um þessar nýju skipanir án þess að skilja almennilega hlutverk skipanina. Einn dag áræddi ég að ávarpa  þessa miklu tölvumenn og forvitnast um PEEK og POKE. Þeir litu á mig með glott á vör. Litu svo hvor á annan, skelltu upp úr og héldu áfram að forrita án þess að virða mig svars. Ég varð bæði reiður og særður og ákvað að koma aldrei aftur í þessa tölvuskonsku. Þar með endaði ferill minn sem tölvuforritari.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.