Hér í Wellington er 15. nóvember 2015, sem sagt afmælisdagurinn minn. Allt er gert til að gera mig glaðan. Þegar ég skreið á fætur lá stór afmælispakki á borðinu. Ég hafði ítrekað verið rukkaður um óskalista. Ég varð við óskum um óskalista og bætti um betur því óskalistinn gildir alla mína daga. Ég óska mér alltaf: lakkríspípu, bjórflösku, vindil, sokka og pilotpenna (0.4 mm). Og hvað bíður mín: 2 bjórflöskur!, 2 pepsi max flöskur (sem ég bæti kannski á óskalistann næsta ár) 8 pilotpennar (.4mm) tvenn sokkapör! frisbee-diskur og nýjálensk-lakkríspípa.
Það koma ekki gestir í afmælisveislu mína í ár. Ef til vill sem betur fer. Ég hef alltaf átt frekar erfitt með að halda afmælisveislur, kannski vegna þess að það er ekki í eðli mínu að vera miðpunktur athygli og líka vegna þess að ég er hræddur um að fólki leiðist og skemmti sér ekki ef ég ber ábyrgð á veislu. Ef ég ákveð að halda veislu fer ég með ómælda orku í að undirbúa slík hátíðarhöld í huganum. Og þegar hugurinn er ekki alltaf topp-struktureraður verður mér stundum á mistök við skipulagningu.
Ég man eftir afmælisveislu sem fór fullkomlega í vaskinn. Ég held að það hafi verið 10 ára afmælisdagurinn minn árið 1971. Mamma mín vildi auðvitað hjálpa mér við að gera alla umgörð afmælisveislunnar góða, en hún hafði þau skemmtilegu persónusérkenni að hún var í senn sparsöm og gjafmild. Átti það til að vera ofurrausnarleg en spara á hinum undarlegustu stundum. 10 ára afmælisdagurinn rann upp og mamma sem var í sparnaðargírnum spurði mig hvað ég vildi bjóða gestunum upp á í veislunni sem haldin var síðar um daginn. Palli átti afmæli í lok október og foreldrar hans voru afar nútímalegir á minn mælikvarða. Afmælisveislur hans voru einn af hápunktum ársins með glæsilegum veitingum (nammipokar, poppkorn, hamborgarar, kjúkingalæri með álpappír á endanum, kokteilsósa og franskar) og fyrsta flokks skemmtiatriðum (bíó, spurningakeppni, borðfótbolti). Ég sagði því mömmu minni að ég vildi kannski prófa að hafa hamborgara í minni veislu eins og Palli hafði boðið upp á. Jú, hún vildi búa til hamborgara. Og svo spurði hún hálflaumulega:
“Viltu ekki frekar hafa djús í staðinn fyrir Coke?”
“Ha, djús? Hvernig djús?” spurði ég undrandi því það tíðkaðist alltaf að bjóða upp á gosdrykki í afmælum. “Já, það er nefnilega til rifsberjadjús í Víði og það er alveg það nýjasta nýtt.”
Ég hugsaði mig lengi um og mamma pressaði létt á að djús yrði fyrir valinu, enda ódýrari kostur. Ég ákvað með semingi og eftir miklar vangaveltur að fallast á að bjóða upp á rifsberjardjús og hamborgara í veislunni minni.
Ég lagði því af stað í fylgd með Palla upp í verslunina Víði til að kaupa djús til veislunnar. Palli var hálfundrandi á að ég hafði ákveðið að velja djús í stað Coke í veislu dagsins. Ég hóf langa söluræðu fyrir rifsberjardjús og hvað það var modern í afmælisveislum nú um daga. Palli svaraði fáu um djúsið en spurði svo hvort það yrðu ekki örugglega pulsur.
“Nei,” svaraði ég stoltur, “það verða hamborgarar!” Palli virtist ánægður með það og við héldum áfram göngunni upp í Víði til að kaupa Sunsip-rifsberjardjús. Á leiðinni til baka mættum við Simba hárgreiðslumanni, sem gekk í Álftamýrarskóla í sama árgangi og ég. Hann var afar vinsæll af kvenkynsnemendum og átti ótal vinkonur, en enga karlkynsvini. Simbi kallaði hæðnislega til okkar yfir götuna, þegar hann sá að við gegnum með djúsflösku: “Eruði með Sunsip? Sunsip á flösku.” Ég skyldi ekki hvað hann átti við og ekki heldur Palli. Eftir þessa athugasemd Simba hefur Palli ekki kallað Simba hárgreiðslumann annað en Simba Sunsip og nú eru næstum 45 ár liðin.
Svo kom að því að gestir mættu til veislunnar, vinir mínir úr Álftamýri; Palli, Hemmi, Tommi, Ingi, Óskar, Binni og allir hinir. Gestgjafinn, ég, var á nálum og tók á móti gestunum skjálfandi á beinunum. Allir voru mættir og ég velti óstyrkur fyrir mér hvenær ég ætti að bjóða upp á djúsinn. Allt vafðist fyrir mér, og allir hugsanir og sú skipulagning, sem hafði án afláts, keyrt á fullum snúningi upp í höfðinu, frá því ég vaknaði um morguninn, riðlaðist fullkomlega. Ég hikaði og hikaði að hefja hin formlegu veislu. Það dróst því mjög á langinn að veitingarnar yrðu bornar fram. Loks, þegar ég hafði ítrekað verið spurður hvort við fengjum ekki bráðum eitthvað í gogginn, fór ég inn í eldhús til mömmu. Mamma hóf að steikja hamborgarana og ég byrjaði að blanda rifsberjadjúsinn. Nú var óvænt hringt á dyrabjöllunni og ég sem hélt að allir gestirnir væru komnir. Ég hljóp til dyra og opnaði fyrir hinum óvænta gesti. Á tröppunum stóð dauðadrukkinn maður og sneri bakinu í mig. Hann horfði upp í síðdegishimininn og vaggaði örlítið. Svo sneri hann sér við.
“Nei, komdu nú sæll, ungi maður. Er pabbi þinn ekki heima?” sagði maðurinn og stunsaði framhjá mér og inn. Þegar hann var kominn inn í ganginn hrópaði hann: “Halló, frú Guðrún, stendur þú í stórræðum í eldhúsinu?” og arkaði inn í eldhús til mömmu sem var umvafinn steikargufum frá hamborgurunum. Mamma horfði skelfingu lostinn á hinn dauðadrukkna mann, en eins og kurteisri prestfrú er uppálagt, tók hún vel á móti gestinum.
“Sæll Steingrímur, minn, velkominn, fáðu þér sæti ég kem rétt strax.”
Steingrímur þessi, var tíður gestur hjá foreldrum mínum. Hann var kunnur blaðamaður og listmálari. Sennilega sá listamaður sem haldið hefur flestar einkasýningar í EDEN í Hveragerði. Steingrímur Sigurðsson.
Vinir mínir voru hálfhræddir við þennan háværa mann sem hlammaði sér meðal afmælisgestana án þess að gera sér grein fyrir veisluhöldunum og krafðist fullkominnar athygli.
Nú var komið að veitingum. Mamma hafði enga reynslu af hamborgurum, hún hafði sjálf aldrei smakkað hamborgara og þaðan af síður búið þá til. Það voru því bara lýsingar mínar af hamborgurunum hjá Palla sem hún studdi sig við. Og hún hafði misskilið margt. Í fyrsta lagi notaði hún lambahakk. Í öðru lagi setti hún ógrynni af lauk í hakkið áður en hún steikti það og í þriðja lagi mótaði hún hamborgarana eins og kjötbollur. Það var því boðið upp á nýstárlega hamborgara. Og hamborgarabrauðið, sem ég hafði ekki lýst nógu nákvæmlega fyrir mömmu, reyndist vera ristað, svokallað, normalbrauð. Veitingarnar voru nú bornar fram, laukfylltar kindakjötbollur í normalbrauði og rifsberjarsaft. Strákarnir voru heldur betur undrandi á hamborgunum. “Hvað er þetta?” spurði Hemmi.
“Hamborgarar…” svaraði ég ákveðinn, en sá sjálfur að þetta var langt frá því að vera hamborgari. Og strákarnir horfðu vantrúa á rauðan vökvann í könnu sem stóð við hliðina á hamborgurunum. “Og hvað er þetta?” spurði Hemmi aftur og benti nú á rifsberjarsaftið. Ég reyndi að fara með sömu söluræðu yfir strákunum sem ég hafði beitt á Palla fyrr um daginn. En ég fann að bæði sannfæringarkraftur minn var afar lítill (enda sá ég gífurlega eftir að hafa ekki valið Coke) og mótttökurnar voru feyki dræmar. Stákarnir létu sig þó hafa það að taka veitingar á disk og setjast inn í stofu til að borða. En þar sat Steingrímur og krafðist óskiptrar athylgi afmælisgestanna. Það var fullkomið upplausnarástand. Engum fannst hamborgararnir góðir, enginn var ánægður með rifsberjarsaftið og Steingrímur hrópaði eins og óður maður og át af diskum gestanna. Ég átti ekki annarra úrkosta en að smala strákunum út í fótbolta.
Til hamingju með afmælið pabb! Vonandi verður hann góður!
Hún amma var ekki að hika neitt við að skella sér út í djúpu laugina, lambahakk og normalbrauð, Alveg í karakter.
Frábær lýsing og allt stemmir. Ég man enn hvernig Steingrímur St.Th. Sigurðsson, alltaf kallaður Roðgúll í Flóanum eftir húskofa sem hann bjó eitt sinn í, tók yfir veisluna og át hvern hamborgarann á fætur öðrum. Við horfðum agndofa á og fannst líka spennandi að hann var fullur. Ég man líka eftir debatt þínum og mömmu þinnar um næringargildi Cheerios, sem hún efaðist um, réttilega. Þú hélst mikla sannfæringarræðu um öll vítamínin í hringjunum, en hún bauðst ítrekað til að elda hafragraut fyrir þig í staðinn.
Fyndið að thu mannst þessa Cheerios umræðu. Nú held ég sömu ræðu yfir mínum börnum. Ég hef bara skift um lið, er kominn i hafragrautsliðið.