Nýja Sjáland, Mahana. Viðskipti sem listform

Nýja Sjáland er orðin ein af helstu vínræktarþjóðum heims og nú erum við stödd í hjarta þess svæðið sem ræktar landsins besta vín. Hér, og eilítið austur af, eru vínræktunarlönd svo langt sem augað eygir. Það er falleg sjón að sjá vínviðinn í löngum röðum upp og niður aflíðandi brekkur. Allur þessi græni litur. Í hádeginu gengum við inn í skóginn bak við hlöðuna sem við búum í og eftir göngustíg sem leiddi okkur til Mahana Vinyard. Þar er veitingahús og þar getur maður bæði borðað hádegismat og smakkað á vínframleiðslu staðarins.

IMG_5601
Í þessu risastóra húsi býr vínbóndinn og einn af 50 áhrifamestu listsöfnurum heims. (skv. Google)

Ég var aldeilis hissa þegar við gengum fram á bústað vínbóndans. Risastórt og nýtískulegt hús á þremur hæðum. Hér var allt úthugsað og minnstu smáatriði, hvarvetna, bæði í vetingahúsinu og í kringum húsin, voru útfærð af natni og listfengi. Við borðuðum hreint fyrirtaks hádegismat á trépallinum fyrir framan veitingahúsið. Vínþjónninn sagði okkur að eigandinn, ameríkani, menntaður í bókmenntum(!) frá University of California, væri einn stærsti og áhrifamesti listsafnari heims. Vínþjónninn sagði okkur líka að baki vínframleiðslunni væri mjög mótuð heimspeki. Ekkert eitur var notað, enginn efni notuð til að koma gerjun af stað, ekkert var gert til að þvinga vínin í ákveðna átt heldur áttu þau að fá að vera það sem þau voru. Jörðin sem berin uxu í átti að móta vínið. Reynt var að endurnýta sem mest. Ég var hrifinn af andanum á staðnum.

Svo fletti ég manninum upp á Google og það kemur í ljós að hann lítur á Mahana Vinyard sem sitt stærsta listaverk: “Það sem ég hef skapað hér er performance art… creativity krefst framkvæmda, creativity er ekki inspiration. Þú kemst ekkert áfram án þess að taka áhættu. Með vínræktuninni hef ég fallið fyrir idealisma (það eru engir peningar í víngerð) því með að rækta vín á náttúrulegan hátt syng ég minn óð til jarðarinnar.”

Þetta hefur mig alltaf dreymt um að gera. Viðskipti sem listform var alltaf hugsun mín bak við bókaforlagið mitt á Íslandi. Auðvitað tókst mér afar misvel upp, en sumt af því sem ég tók mér fyrir hendur hjá Bjarti er ég stoltur af og leit á það sem ágætlega heppnaða performance list. Seinna eftir að við byrjuðum með Hr. Ferdinand átti ég erfiðara með að koma þessum hugmyndum mínum út í hið danska líf. Mér fannst bæði tungumálið hindra mig og hið danska samfélag sem ég skildi ekki á sama hátt og ég skildi hið íslenska. Íslenskt líf, sérstaklega íslenskt menningarlíf, fannst mér ég gjörþekkja og getað spila á eins og einfalt hljóðfæri. Yfirlýsingar og athafnir voru á Bjartstímabilinu hugsaðar sem prívat-póetískar, ekki pólitískar. Og mikilvægt var að þetta var ekki idealismi í hinni svokölluðu hirsi-merkingu, þar sem allt er alvarlegt, heldur átti að vera fjör. Meira fjör. Ég vissi svosem aldrei hvaða tilfinningar ég var að kalla fram hjá þeim sem urðu fyrir barðinu á þessum litla gjörningi sem starfsemi forlagsins var. Ég vissi heldur aldrei hvaða tilfinningar ég vildi kalla fram. Oftast fór því performancinn framhjá öllum nema sjálfum mér.  Mér finnst Ragnar Helgi Ólafsson að sumu leyti stunda líkt listform með útgáfu sinni á tunglbókum og 1005. En hann og hans félagar gera það bara bæði miklu skýrar og betur en mér tókst.

Þegar ég sný til baka eftir 9 mánaða ferðalag um heiminn langar mig að búa til nýtt listaverk, performance art, viðskipti sem listform.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.