Nýja Sjáland, Mahana. Að gera hlé á líf sínu.

Nýkominn inn eftir stuttan hlaupatúr í rigningu úti á vínmerkunum. Enginn súperhlaupatími en gott að hlaupa, upp og niður brekkur. Framhjá kindum á beit og vínvið í endalausum, reglulegum röðum.

Göngutúrinn
Í gær fórum við í langan göngutúr í þjóðgarði hér í nágrenninu, 14 km gengum við. Göngutúrar eru í uppáhaldi hjá mér; bæði þegar maður talar á göngunni og ekki síður þegar maður þegir. Í þögninni koma óvæntustu þankar upp í höfuðið, gamlar, að maður hélt löngu horfnar, minningar skjótast skyndilega fram og setja gang í nýjar óvæntar hugsanir.

Að setja líf sitt á pásu
Mér varð til dæmis mjög hugsað til orða  konu einnar sem við hittum á ferðum okkar. Hún hafði fengið að vita hvaðan við kæmum og að við værum á ferð um heiminn næstu mánuði. Þá spurði hún: “Hvernig er það að setja líf sitt á stand by?”  Ég hugsaði: Já. Er líf mitt á stand by? Að sumu leyti er þetta rétt. Líf mitt er á pásu. Til dæmis hugsa ég oft um hvað ég ætli að gera þegar ég kem til baka. En þau verkefni þurfa að bíða þar til ég kem heim. En að öðru leyti er ekki hlé á lífi mínu, þvert móti finnst mér lífið á fastforward. Hversdagurinn getur stundum gert það að verkum að lífið hjakkar svolítið í sömu sporum og maður getur vel kallað það að gera hlé á lífi sínu. En hér er skortur á hversdegi, fæst er í skorðum. Alltaf eitthvað nýtt að fást við, meta og skoða. Sumt er inspirerandi annað líður hjá augum og huga án þess að setja sérstök spor. Mér finnst gaman að sjá hvernig fólk lifir hér langt í burtu og stundum getur maður lært af því. En ég bíð eftir gegnumbrotinu að einhver stór hugmynd skelli á mér með ofurkrafti, eitthvað sem ég fell gersamlega fyrir og heltekur líf mitt. Og það góða er að mér finnst að þessi góða hugmynd bíði mín alltaf rétt handan við hornið, og detti í hausinn á mér á hverri stundu.

Ég les
Nú les ég tímaritið 1005 mér til skemmtunar og til heiðurs þeim fína flokki fólks sem stóð að útgáfu þess góða tímarits.

IMG_5611

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.