Nýja Sjáland, Rarangi: Í hippabæli

Við erum komin út á hálan ís hér á ferðum okkar. Í gær fluttum við okkur enn um set og búum nú í litlum bæ rétt út fyrir Blenheim. Og búum inn á heimili hjóna sem nota leigupeninga til að létta sér lífið. Við höfum sérherbergi en við borðum saman og deilum stofu. Það er auðvitað nýtt fyrir mig að deila heimili með ókunnugum en sem betur fer eru hjónin vön því að fá gesti inn á sig á þennan hátt og eru einstaklega gestrisin, jákvæð og vinsamleg. Í gær borðuðum við kvöldmat með þeim sem var hin ágætasta reynsla. Númi var mjög skeptískur þegar við komum og fannst við komin djúp inn í það sem hann kallar hirsi-lífsstíl. Í gamla daga hefði þetta verið kallað hippalegt. En nú er meira að segja Númi þokkalega ánægur með búsetuna.

IMG_9757
Númi borðar morgunmat í hippabæli

Arnaldur
Ég hef verið svo önnum kafinn að vera á ferð að ég hef ekki haft góðan tíma til að lesa og það  finnst mér hábölvað. Það er nefnilega sjaldan friður. En nú á síðustu dögum hefur mér tekist að lesa glæpabók Arnaldar Indriðasonar. Og það sem meira er ég hef náð að lesa hlut Jóns Karls Helgasonar í síðasta hefti 1005; Herra Þráinn. Það var ´nægjuleg lesning. Jón Karl tekur Italo Calvino sér til fyrirmyndar og skrifar stutta þætti einstakling sem hann kallar Þráinn (persóna Calvinos hét Palomar).

Jón Karl og 1005
Þráinn er uppgjafa blaðamaður og hefur hafnað sem ráðuneytisstarfsmaður sem hann virðist ekki alvega vera ánægður með. En Þráinn er athugull á mannlegt eðli, hlutverk manna í nútíma samfélagi og hvernig samfélag og fjölmiðlar stýra og skilgreina viðhorf manna.
Flestar af athugunum Þráins hafa birst áður á öðrum vettvangi en 1005. Jón Karl skrifaði í mörg ár pistla í Lesbók Morgunblaðsins og þaðan tekur Jón flestar af athugunum Þráins og setur fram á nýjan hátt. Það spillti lestrinum svolítið fyrir mér að hafa lesið flesta textana áður þótt þeir hafi verið í örlítið annars konar búningi. Það rændi textann ferskleikanum og frumlegheitunum. Fyrir þá sem ekki hafa lesið textana áður eru þetta mjög inspirerandi textar. Jón er nefnilega meistaralegur góður greinandi. Og Jón hefur góða sögurödd, stillta, látlausa og hógværa. Þó að sumir textarnir séu fyndnir er ekki mikið fjör í textanum, hugsunin er skýr og sett fram á rökréttan og einfaldan hátt. Jón segir í einum textanum frá ungri sumarafleysingastúlku á veðurstofunni sem var látin lesa veðurfréttirnar. Árum saman hafa veðurfréttirnar haft ákveðið lessnið. Reykjanes og Reykjanesmið…. suðvestan 5…. rigning með köflum en styttir upp þegar líður á daginn…. hiti 4 stig. Hinn nýja afleysingastúlka las veðurfréttirnar með sýnu nefi, tók ekki mið af  hinum hefðbundna veðurlestri,  þannig að skyndilega fengu útsendingar veðurstofunnar nýtt tempó og algerlega nýja rödd sem vantaði bæði stofnanayfirbragðið og áreyðanleika.  Á sama hátt og veðurfréttirnar hafa sinn tón hefur Jón þróað sinn sérstaka tón sem er á suman hátt afar hlutlægur, ekki kannski akademískur, en textinn er mjög agaður. Maður fær strax á tilfinninguna að óhætt sé að treysta því að höfundur hafi fullkomna stjórn á því sem hann ætlar að segja og á ekki eftir að hleypa fram af sér beislinu og lenda í einhverjum ógöngum. Allt er byggð hægt og rökrétt upp. Þetta er bæði kostur og galli textana um Þráinn.Því vegna hins agaða tóns verða textarnir dálítið einhæfir og eintóna. En þetta er smávægilegt því innihaldið er bæði andríkt og gáfulega framsett.

dagbók

Ein athugasemd við “Nýja Sjáland, Rarangi: Í hippabæli

  1. Það er brött lærdómskúrvan í Nýja Sjálandi; fyrst símtal til ókunnugra kaffihúsagesta og nú sambúð með ókunnugum!

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.