Nýja Sjáland, Kaikoura. Einstæðingurinn

Ho. Nú höfum við yfirgefið hippabælið og komin lengra suður. Erum nú í litlum bæ við austurströndina sem heitir Kaikoura og búum, aldrei þessu vant, í einskonar hótelherbergi.

Hjá hippunum
Vistin hjá hjá hippunum tveimur reyndist hin besta. Jerermy og Junes voru einstaklega geðslegar manneskjur og gerðu allt til að gera dvölina góða og eftirminnilega. Ég sé ekki sjálfan mig bjóða ókunnu fólki inn á heimili mitt. Þau komu dauðþreytt heim, eftir langan vinnudag, og heima hjá þeim beið þeirra ókunnugt fólk sem þau þurfa að takast á við á einn eða annan hátt. Þau þurftu að sinna allskyns erindum, okkur óviðkomandi en jafnframt taka tillit til okkar. Við gátum ekki forðað okkur. Heimilið var ekki stórt. Svo þurfti að  borða kvöldmat. Áttu þau að bjóða okkur að borða með eða áttu þau að borða sjálf og láta okkur um að finna út úr kvöldmatinum. Þau völdu alltaf að bjóðast til að elda eitthvað og við gátum lagt í púkkið ef við vildum. Ekki nóg með það. Jeremy, sem var einstaklega afslappaður og glaðsinna náungi, tók strákana með sér í kajaktúr eftir vinnu eða út að keyra á fjórhjóli sem auðvitað hitti í mark hjá Núm og Dav.

Ferðaþjónusta mömmu
Ég man að mamma mín reyndi að stunda þessa tegund hótelþjónustu fyrir mörgum árum og fékk senda ferðamenn í gegnum ferðaskrifstofu. Ferðamennirnir gistu svo í gamla herberginu mínu og fengu morgunmat hjá mömmu. (Ég var löngu fluttur að heiman og við öll systkinin svo mamma hafði úr mörgum auðum herberjum að velja.) Ég man að mamma gerði sitt besta til að gera morgunmatinn listugan, oft pönnukökur og fínheit, en reyndi líka í sparsemi sinni að komast hjá því að bjóða upp á egg í hvert skipti. (Ég veit ekki hvað olli þessari þráhyggju að hún gæti grætt á því að spara egg.) Ferðaskrifstofan hafði lagt skýrar línur hvað ætlast var til að morgunverðarborðið byði upp á og það var skýrt að bjóða skyldi upp á egg (harðsoðið, spælt, hrært….) Mamma slapp nokkuð vel frá gestgjafahlutverkinu, þótt hún væri ekki beint fæddur gestgjafi. Hún var of hlédræg en það sem vann með henni var  hvað hún var forvitin svo hún gat ekki á sér setið og fór að spyrja gesti sína út úr. Úr því spunnust oft hinar líflegustu umræður sem ferðamennirnir voru ánægðir með. Samtal við innfædda er alltaf hátt á lista ferðamanna. Einn dag kom þýskur karlmaður á fimmtugsaldri á heimilið. Hann var augljóslega einstæðingur, í hvítum sokkum,  birkinstock skóm, silfurspangargleraugu og kelinhringsskegg. Hann átti að vera eina nótt. Strax um morguninn, þegar hann kom niður í morgunmat, var ljóst að það sefndi í stórvandræði. Hann settist til borðs, og setti  strax upp lesgleraugu og tók fram pappíra frá ferðaskrifstofunni þar sem tilgreid voru réttindi hans og skyldur. Merkti við með kúlupenna það sem var á boðstólum og bar það saman við það sem hann hafði greitt fyrir.  Svo illa vildi til að ég kom í heimsókn þennan morgun og skynjaði strax að það var eitthvað ekki í lagi á heimilinu. Jafnskjótt og ég geng inn sé ég mann standa harkalega upp frá morgunverðarborðinu, kasta frá sér munnþurrku, grípa pappír af borðinu og hrópa í gífurlegri reiði: „Wo sind die eier!!“ Mamma stóð í eldhúsdyrunum og reyndi að róa manninn. „Má kannski bjóða þér epli… apples, do you want an apple?“
„Nein.“ Og svo  hrópaði maðurinn aftur og aftur, algerlega úr samræmi við tilefnið, að hann vildi fá egg. Og mamma átti engin egg en tók undir með manninum já, að hann vildi egg. En mætti ekki heldur bjóða honum epli. Þetta var nú meiri uppákoman og ég skyldi aldrei hvers vegna mamma var að leggja þetta á sig enda stressaði hún sig alltaf óendanlega mikið á að lenda aftur í annarri samskonar uppákomu. En samt keypti hún ekki alltaf egg.

Viðskiptaævintýri
Annars er það kannski á Íslandsslóðum sem víglína mín liggur nú þótt ég sé langt fjarri  gamla heimalandinu. Ég hef lengi bjástrað við að koma mér út úr allskyns gömlum viðskiptaævintýrum frá því ég lifði og starfaði á Íslandi. Ég er misklókur, þegar ég reyni að sannfæra fólk um að heppilegast sé að greiða fyrir útgöngu minni.

 

 

 

dagbók

2 athugasemdir við “Nýja Sjáland, Kaikoura. Einstæðingurinn

  1. Fyndið, ég hugsaði einmitt til ömmu og gistihúsarekstursins við lestur síðustu færslu. Þó þýski kleinuhringurinn hafi ekki verið hrifinn þá gekk þetta nú oftast vel hjá henni með bresku miðaldra konurnar, a.m.k. svona í minningunni,

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.