Nýja Sjáland, Hanmers Spring. Heimsókn Marðar Árnasonar

Maður getur sagt allskonar um tímann. Ég ætla ekki að segja neitt sérstakt um hann (Jón Kalman er búinn að segja það sem segja þarf um efnið og ég vísa bara til bóka hans) annað en að ég hef ekki nóg af honum. Mig skortir tíma. Og mig skortir hann mjög. Í dag datt mér í hug hvort ég gæti ekki bara hætt að sofa og fengið ekstra 7-8 tíma. Auðvitað heimskuleg hugdetta, en þetta er tilfinning sem sækir æ oftar að mér (bara ég gæti sleppt því að sofa). Eftir því sem ég verð eldri verð ég nískari og nískari á tímann, en það þekkja allir sem eru svo heppnir að fá að eldast.  Það er svo margt sem mig langar að gera en kemst ekki í það.

Ferðamannastaðurinn
Við erum komin lengra á ferðum okkur, lengra inn í landið til staðar sem heitir Hanmers Springs og það er þekktur ferðamannastaður hér á Nýja Sjálandi. Og hér er líka ferðamannastemmning, alveg sama stemmning og þegar maður kemur til Skagen eða annara vinsælla ferðamannastaða í Evrópu. Verslanir yfirfullar af grillkjöti og drykkjarvörum og fólk á stuttbuxum, stuttermabolum og með sólhatt á höfði. Dálítið um háværa fulla kalla,  bjórvömbin er fremst og svo koma þeir saman í flokki, karlarnir,  á eftir bumbunni, haldandi hálffullir á hálffullri bjórflösku. Ekki sérlega sjarmerandi mynd. En þeir eru ánægðir með sig. Og glaðir.

Ísland og Einar Kárason
Ég sá myndir frá Íslandi áðan, snjór á Landakotstúni. Myrkur og snjór. Hér er ekkert sem minnir á vetur, allt í fullum blóma, grasið grænt, blómstrandi rósir, sól á himni og hlýir vindar. Ég reyni aðeins að fylgjast með bókmenntaumræðunni á Íslandi. Las bráðskemmtilegt blogg eftir Einar Kárason þar sem hann sagði frá þeim bókum sem hann les þessa dagana. Það er fyndið að lesa rithöfund sem er stikkfrí frá jólavertíð þetta árið tala um bækur kollega sinna. Einar er nógu skynsamur að kalla ekki yfir sig reiði félaga sinna með að gagnrýna bækur þeirra á opinberum vettvangi. Hið spennta andrúmsloft jólabókamarkaðar er augljóslega alveg eins og þegar ég bjó á Íslandi. Ég hjó eftir því að Einar rifjaði upp bráðfyndið og skemmtilegt upphlaup Hallgríms Helgasonar („Ljóðið er halt og gengur með hæku“) þegar hann réðst harkalega á hinn svokallaða „fiðrildaskóla“ í islenskri ljóðlist:

„merkilegt nokk þá birti Hallgrímur rithöfundur Helgason fyrir nokkrum árum ádrepu um íslenskan nútímaskáldskap, sem mig minnir að honum hafi þótt eitthvað of tíðindalítill. Og þar fengu sérstaklega að finna til tevatnsins ef ég man rétt einmitt þeir Gyrðir og Óskar Árni, og voru kallaðir fiðrildaskólinn. Það er ekki af neinni illkvittni sem ég er að rifja þetta upp, enda held ég að þetta hafi nú að einhverju leyti verið vel meint stríðni af hálfu Hallgríms.“

Ég er nú viss um að  þetta var ekki stríðni af hálfu Hallgríms. Hallgrímur meinti hvert orð. Ég las hina svokölluðu játningabók hans fyrir nokkru og þar gat ég ekki annað en dást að hvað Hallgrími er meinilla við tilgerð og allskonar rétttrúnað sem tröllríður íslenskum bókmenntum og listalíf hvarvetna. Slappleiki og aumingjagangur er eitur í beinum skáldsins. Ég tek ofan fyrir Hallgrími.

Árás Hallgríms kom í kjölfar útgáfu á fyrstu hækuþýðingu Óskars Árna á Basho. Vöktu þýðingar Óskars, og skáldskapur Basho, ómælda ánægju bókmenntafólks vestan læks enda fallega unnið af Óskari. Síðsumars ársins 1997 (nokkrum mánuðum eftir útkomu Basho þýðinganna)  gáfu Hallgrímur og Gunnar Smári út sitt fyrsta tölublað af Fjölni og í því tímariti birtist grein Hallgríms þar sem hann tók íslenska ljóðlist í gegn, fannst hún með eindæmum veikuleg og sótti fyrst og fremst form-  og andleysi sitt úr japönskum hækum.

Þetta var allt frekar fyndið og vakti sterk viðbrögð hins viðkvæmari hluta íslenskrar rithöfundarstéttar. Hvað sem segja má um innihald fyrsta tölublaðs Fjölnis var gífurlega orka í kringum útgáfuna.  Ég gat ekki annað en öfundað þá Fjölnismenn. Mér fannst einhver fítónskraftur einkenna þá Gunnar Smára og Hallgrím sem mig langaði svo sannarlega virkja hjá mínu forlagi. Þeir voru djarfir og klárir. Ég man að mér fannst um þessar mundir einstaklega dauft yfir útgáfunni hjá mér. Ég var einn á skrifstofunni og þótt gestakomur væru tíðar var salan á bókum forlagsins ekki til að hrópa húrra fyrir. Mig vantaði líka einhver djarfan og kraftmikinn félaga sem kæmi inn með orku og djöfulgang. Mér fannst þeir sem komu í heimsókn stundum frekar tappa af mér orku en að veita mér innblástur og andargift. Og það var einmitt  það sem ég þurfti. Ég var  miður mín yfir því hvað mér fannst dauft yfir. Ég var miður mín yfir tíðindaleysinu og ég öfundaði Fjölnismenn yfir sveiflunni í kringum útgáfuna. Þessi ár deildi ég húsnæði með fleiri fyrirtækjum. Þótt bókahillur afmörkuðu hverja skrifstofu gat maður vel fylgst með því sem fram fór hjá sambýlingum sínum, bæði séð og heyrt.

Mörður Árnason í heimsókn.
Dag einn kom Mörður Árnason frá Máli og menningu í heimsókn til samleigjenda minna. Hann átti erindi við þá vegna einhverra mynda sem hann vantaði í bók sem hann vann að. Mál og menning var þá aðalútgáfa landsins og ég vildi alls ekki að fulltrúi Máls og menningar, Mörður Árnason, yrði vitni að því að ekkert var í gangi hjá forlaginu mínu.

Ég gerði margt í gegnum árin til að sviðsetja Bjart svo forlagið virkaði útávið bæði stærra, fjörugra og starfsemin margþættari. Svo nú reið á að eitthvað gerðist þegar ég hafði fulltrúa stærsta forlags landsins í 10 metra fjarlægð. Ég vonaði svo sannarlega að síminn byrjaði að hringja og nú mátti einhver koma inn af götunni til að kaupa bækur. Einhver smáaktion. En ekkert gerðist. Í mínum enda húsnæðisins var grafarþögn. Enginn kom inn af götunni og síminn var steinhljóður.

Ég tók því til minna ráða. Ég veiddi farsímann minn fram, hringdi ítrekaði í skrifstofusímann og svo lék ég hvert samtalið á fætur öðru og endurtók lafmóður bókapantanir úr símanum sem ég þóttist taka niður á blað.
„Já, augnablik, 150 stykki Frú Bovary, já… 100 eintök af Blíðfinni … já, hún er eiginlega alveg uppseld….“ Ég hafði vart undan. Svona hélt ég áfram og var viss um að Mörður færi upp á Mál og menningu með fréttir um að allt væri í bullandi gangi hjá Bjarti. Síminn stoppaði ekki. Pantanirnar streymdu inn og allt væri um það bil uppselt.

Ef ég hugsa mig um held ég að Mörður hafi ekki einu sinni vitað að Bjartur var í sama húsnæði og ég er líka eiginlega alveg viss um að hann var svo einbeittur í myndasöfnun sinni að hann heyrði ekki hin æsilegu samtöl sem fram fóru  í skrifstofunni við hliðina á.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.