Í Nýja Sjálandi getur maður spilað tennis á hverju götuhorni. Alls staðar eru tennisvellir til afnota fyrir hvern sem er. Tenniskeppni dagsins endaði með sigri. Að loknum tennisleik hljóp ég 3 km med Daf sem er í átaki til að ná úthaldi upp og kílóum niður. Ég hljóp líka í gær 6 km og á morgun er planað tenniseinvígi á móti Sus og hlaup með Daf.
Endurvinnsla
Annars tek ég líka eftir því hér í Nýja Sjálandi hvað fólk er meðvitað um endurvinnslu, minnka úrgang, nýta sólar- og vindorku. Hér flokkar fólk rusl algerlega áreynslulaust og setur í mismunandi tunnur. Flöskur hér, pappi hér, plast hér…
Vínbóndi með hænur og mini-kindur
Ég keyrði fram hjá vínbónda um daginn sem rækar vín sitt á vindbörðum vínekrum. Í stað þess að nota traktor til að slá gras milli vínrekkana hefur hann fundið mjög lávaxinn kindastofn til að bíta grasið og þennan stofn ræktar hann upp. Kindurnar eru svo smávaxnar að þær éta ekki ber vínviðarins. Hænur hefur hann á beit. Dýrin gefa náttúrlegan áburð og minnka notkun á unnum áburði. Landið sem hann ræktar er gríðarstórt og við rætur vínhlíðanna hafði hann þróað nokkrar tjarnir þar sem hann lætur sólknúin ljós lokka flugurnar niður í tjarnirnar og í tjörnunum synda silungar sem éta flugurnar. Þetta kemur í veg fyrir að flugurnar fari í vínberin. Vínvinnslan sjálf er knúin áfram með sólarorku og vindmyllum. Úti á engjunum hefur bóndinn víða komið fyrir sólknúnum hátölurum og þar er leikin músik fyrir vínberin og vínviðinn til að auka mótstöðu sína gegn sjúkdómum. Ég var gríðarlega hrifinn.
Þegar við ákvaðum að kaupa ólífulund
Kynni mín af þessum vínbónda minnti mig á þegar ég tók að mér að þýða “Bókina um ólífuolíuna” fyrir Bjart. Réttinn að bókinni hafði ég keypt og bókin þurfti að fara í prent til Ítalíu í maímánuði. Ég hafði fengið mikinn ágætismann til að þýða bókina en af óviðráðanlegum orsökum gat hann ekki sinnt verkinu og það var komið mjög nálægt prenttíma. Ég tók því sjálfur til óspilltra málanna og byrjaði að þýða af miklum krafti. Bókin var ekki löng svo það var ekkert stórkostlegt mál að snara bókinni yfir á íslensku, en mér leiddist verkið heldur og fór því að skálda inn í textann. Í hverjum kafla bókarinnar þróaði ég frásögn af ungu fólki sem hafði keypt ólífulund og hóf ólífuræktun. Meðal þess sem þetta skáldaða fólk gerði var að láta hænur ganga frítt í ólífulundinum og minnkaði þannig grasvöxt og dreifði góðum áburði á jörðina. Það hafði líka asna og kindur á beit. Ég skemmti mér svo mikið við að þróa þessa uppdiktuðu ólfíuræktun að skömmu eftir að ég afhenti textann í prentsmiðju fór ég að leita að tækifæri til að kaupa ólífulund á Ítalíu.
Ég byrjaði á að skrifa til ólífubændum á Sikiley og spurði hvort þeir vissu um einhvern ólífubúgarð sem væri til sölu og hvað slíkt mundi kosta. Það stóð ekki á tilboðunum. Alls konar kostaboð bárust. Við áttum svo sem ekki peninga til að kaupa bújörð en það hefur aldrei verið fyrirstaða. Það voru því ekki verðhugmyndir bændanna sem fældu mig frá að kaupa eign á Sikiley heldur miklar sögur um starfsemi mafíunnar. Ég færði því kaupsjónaukann í átt að Suður-Ítalíu og byrjaði að skrifa til bænda þar. Í sumarfríi sumarið eftir þar sem við Sus og Núm vorum í húsi við Gardavatn á Ítalíu keyrðum við á einum degi niður til Ancona til að kíkja á ólfíulund sem var til sölu og keyrðum til baka um kvöldið. 12 tíma keyrsla. Ekki reyndist þetta réttur staður. Of langt til hafsins.
Svo kom bréf frá náunga sem kallaði sig Mimmo. Hann bauð lítinn ólífulund til sölu sem Sus hafði fundið á netinu. Samkvæmt lýsingunni á netinu hafði Mimmo gert upp hús og vildi nú selja. Það var komið haust og við vorum á leið til Danmerkur. Á síðustu stundu breyttum við áætlun og tókum U-beygju, Ísland -> Danmörk varð Ísland -> Ítalía með viðkomu í Danmörku þar sem Núm var settur í pössun. Við flugum til Rómar og þaðan tókum við lest til Foggia. Þar beið okkar gráhærður, spengilegur maður. Mimmo. Fyrir utan lestarstöðina í Foggia stóð bíll Mimmos (sem átti eftir spila stórt hlutverk í lífi okkar) Isuzu jeppi árgerð 1991.
Og svo ókum við af stað í Isuzu alla leið til Gargano skagans sem liggur út til austurstrandar Ítalíu og til lítils bæjar, Vico del Gargano.
Svo byrjaði sölutúrinn. Fyrst stoppuðum við húsarústir miklar í miðjum ólífulundi þar sem útsýni var gott til strandarinnar en jörðin lá á snarbrattri hlíð. Þar talaði Mimmo um þá stórkostlegu byggingarmöguleika sem þessi jörð byði uppá. Við vorum vitaskuld nokkuð ringluð á ræðu Mimmos sem var á hálfensku-hálfítölsku. Allar setningar hans enduðu með “about”. Hann var augljóslega mikill bragðarefur. Og við stóðum þarna langt upp í sveit við gjörsamlega handónýtar húsarústir sem þurfti nánast klifurkaðal og annan klifurbúnað til að komast upp til. Við spurðum því eðlilega um húsið sem hann hafði boðið okkur til sölu. “Já, það hús, það var löngu selt. Langar ykkur að skoða það? Ég gerði það upp.”
Dagurinn með Mimmo leið og við vorum orðin allráðvillt, en heilluð af Gargano; landslaginu og öllum ólífulundunum. Eftir langa hringferð um Gargano og 4 húsarústum seinna komum við að ólfíulundi sem lág langt niður í hlíð, fjarri öllum húsum. Á jörðinni var hálfhrunið hús. Þessa jörð vildum við. Mimmo lýsti fyrir okkur hvaða möguleikar væru í boði með þróun hússins og við gátum vel séð að þetta var rétt. Það var svo sem ekkert eftir af húsinu annað en útveggir og gólf. Jú, við kaupum þessar rústir með 100 ólífutrjám. Mimmo fagnaði mjög og spurði hvort við gætum ekki bara tekið pening út í næsta hraðbanka. Það gerðum við ekki en við skrifuðum undir kaupsamning á staðnum. Sem er sennilega kjánalegt í meira lagi en Mimmo reynist okkur mjög vel og hjálpaði okkur við að reisa hús á húsarústunum. Tveimur árum eftir að við höfðum skrifað undir samninginn við Mimmo stóð uppgert hús ofan á grunni gamla hússins. Og við orðnir ólífubændur.