Enn flytjum við okkur um set. Í gær keyrðum við suður með austurstöndinni og nú ægjum við í Christchurch, borginni sem fór svo illa út úr jarðskjálftanum árið 2011. Merki skjálftans eru greinileg enn í dag, eyðileggingin er mikil. Meira eða minna allur miðbær borgarinnar eru rústir. Uppbygging er hafin og járngrindarhús eru víða í byggingu og annars staðar eru hálfhrunin hús eða múrsteinshrúgur. Bærinn er því forljótur, eins og risastórt byggingarsvæði. Þetta er satt að segja mjög sorgleg sjón. Mitt í bænum er 184 auðum, hvítmáluðum stólum raðað upp, tákn fyrir þá sem dóu í jarðskjálftanum. Ég hafði ekki búist við að borgin væri enn í rústum.
Bók Guðmundar Andra um Thor Vilhjálmsson
Ég byrjaði á bók Guðmundar Andra um föður sinn í gær, Svo tjöllum við okkur í rallið, og kláraði rétt áðan. Ég er stórhrifinn. Þetta er frábærlega vel skrifuð bók hjá Guðmundi Andra. Ég hallast næstum til að segja að bókin sé meistaraverk. Aldrei hef ég lesið svo flotta mannlýsingu, fulla af ást og húmor. Thor er ekki auðveldur maður, en Andra tekst að gera hið erfiða og sára gott og skiljanlegt. Hann skrifar fallega. Mér finnst setningarnar hans hafa svo gott jafnvægi og góðan takt og eru þar að auki hárnákvæmar. Ég þekkti Thor ekki vel en mér finnst ég skilja manninn eftir lestur bókarinnar. Andri er hógvær og stilltur í bakgrunni bókarinnar og Thor í aðalhlutverki, eins og alltaf.
Viðureignin við Thor
Ég átti bara einu sinni viðskipti við Thor og þau fóru ekki sérlega vel. Og mér þykir það leiðinlegt, sérstaklega nú þegar mér finnst ég skilja manninn betur.
Karl Guðmundsson leikari og þýðandi hafði boðist til að þýða ljóðasafn írska stórskáldsins Seamus Heaney fyrir mig.
Þetta var um vor og haustið eftir vann Heaney Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Allt sumarið var Kalli með höfuðið fullt af ljóðum Heaneys. Þýðingin á ljóðasafninu var honum allt. Hann velti orðunum fyrir sér daga og nætur. Stundum passaði eitt orð inn í þýðingar hans og þann næsta dag passaði það alls ekki og loks kom annað orð, enn betra, eða ekki. Svona gekk þetta allt sumarið. Kalli var í sannkölluðum lífsháska, baráttan við orðin var algerlega upp á líf og dauða. Hann kom dag hvern, mörgum sinnum á dag, inn á forlagið, móður og másandi eftir æðisgengin hjólatúr frá ljóðaskrifborðinu og til forleggjarans, eins og alls ekki mætti tæpara standa. Dyrnar á forlaginu hentust upp og inn datt Kalli. Nú þurfti að bera nýjar útgáfur af þýðingunni undir forleggjarann. Það var með titrandi röddu sem Kalli las sínar mörgu og ólíku tillögur.
Þótt það hljómi kannski ótrúlega þá mjakaðist þýðingin áfram, sérstaklega ef ég tók af skarið og sagði ákveðinn við Kalla að nú hefðum við fundið orðið, nú var lausnin fundin, og hann þyrfti ekki frekar að hugsa um það. Áfram. Þegar leið að útgáfudegi töluðum við Kalli um að það þyrfti að finna einhvern til að skrifa formála að ljóðasafninu, einhvern sem gæti útskýrt fyrir lesendum úr hvaða jörð ljóð Heaneys væru sprottin. Kalli var ekki lengi að stinga upp á Thor. Góð hugmynd, fannst mér. Ég hringdi í Thor, með öndina í hálsinum, því ég, ungur bókaútgefandi, bar óttablandna virðingu fyrir skáldinu. Thor kom í símann og tók mér aldeilis fagnandi, það var minnsta mál í heimi að skrifa formála. Bara ánægja. Þetta var langt símtal sem bar okkur um víðan völl. Thor talaði af mikilli andagift. Við Samus, sagði Thor, erum hinir mestu mátar. Og ég, hinn ungi forleggjari, var ekkert minna en hugdjarfur riddari, á stórkostlegri krossferð fyrir bókmenntirnar, listina. Gaman að heyra í svona vöskum manni, sagði skáldið. Og mér fannst ég vera vaskur eftir samtalið við Thor.
Thor skilaði sínum formála og ég greiddi honum fyrir verkið, fannst ekki annað viðeigandi en að greiða vel. Laun mín hjá forlaginu voru á þessum tíma lág, og stundum engin. En ég bar mig vel. Væri ég spurður um peninga var svarið alltaf: “Fé skortir mig ei.” Og fé skorti mig ei.
Thor falaðist alls ekki eftir peningum og hefði skrifað formálann án greiðslu, og fúslega, en mér fannst það spurning um sóma að greiða þessu virðulega skáldi vel. Ég lét hann hafa sem svaraði hálfum mánaðarlaunum mínum á þessum tíma og fannst ég bara nokkuð rausnarlegur, kannski var upphæðin lág þótt hún væri í mínum huga há.
Bókin fór í prentun eftir nokkra baráttu við þýðandann sem daglega vildi víkja til einu og einu orði í þýðingunni sinni. Dróst útgáfan því aðeins á langinn. En loks var bókin komin upp í Odda og ég byrjaði að reka á eftir því góða fólki sem þar starfaði. Eins og áður kom Kalli á forlagið, þótt bókin væri farin af forlaginu upp í prentsmiðju, bæði til að athuga hvort nokkur möguleiki væri á að hagga til einu orði hér og einu orði þar (sem ég neitaði honum um) og til að heyra hvort bókin væri ekki fljólega væntanleg úr prentun. Fannst honum, allt frá þeim degi að bókin var send upp í Odda, að prentararnir væru agalegir sleðar. Allir í Odda voru mér alla tíð sérlega vinsamlegir. Dag einn þegar ég sá að búið var að prenta innmat og kápu ljóðabókarinnar (bókbandið var eftir), spurði ég einn af bókbindurunum hvort mögulegt væri að binda eina bókina inn í höndunum. Ég hefði ægilega óþolinmóðan þýðanda á bakinu. Ein bók var bundin inn, allt leit vel út.
Ég fór með bókina á forlagið og ég hafði vart sest niður þegar Kalli dettur inn úr dyrunum. “Eitthvað að frétta?” spurði hann eins og alltaf þegar hann mætti, eins og við biðum báðir frétta af horfnum ættingja með öndina í hálsinum. Og nú gat ég glatt hann: “Já, sérðu hvað ég hef,” og afhenti honum eintak af bókinni. “Já, nei, hvað… er þetta bókin? Já, er hún ekki bara falleg…. það var bara, að kannski hefði ég átt að nota orðið glóa í stað ljóma …”
Kalli var þrátt fyrir allt gífurlega glaður og hjólaði í hendigskasti til Thors til að sýna honum bókina. Sjálft upplagið kom þó ekki úr bókbandi fyrr en viku síðar. Og nú hófust vandræði mín. Því nokkrum dögum eftir að Kalli hafði heimsótt Thor fékk ég gífurlega harðort bréf frá höfundi formála, Thor Vilhjálmssyni. Og nú var ég ekki vaskur, og nú var ég ekki hugdjarfur riddari íslenskrar menningar. Ég var fullkomlega respektlaus. Ég hefði ekki sent honum bók. Hann hafði séð bókina hjá Kalla svo bókin var fyrir löngu komin út. Ekki nóg með að ég sendi honum ekki eintak af bókinni, sem hann hefði lagt á sig ærið erfiði fyrir, þá hefði ég líka greitt honum skít á priki. Á þessu átti ég ekki von! Ég var ekki bara djúpt særður, ég var fokillur. Í reiðikasti mínu sendi ég Thor samstundis sendibréf, svarbréf, þar sem ég útskýrði fyrir honum að bókin væri alls ekki komin út. Kalli hefði fengið eitt eintak sem hefði verið útbúið sérstaklega fyrir hann. Og að ég hefði gert mitt besta þegar ég greiddi honum.
Ég held að í sendibréfinu hafi ég ekki valið kurteisisformið. Stolt mitt bæði persónulegt og sem útgefanda var mjög sært.
Skömmu síðar kom annað bréf frá Thor til mín. Mér til undrunar innhélt það bara teikningu af fugli. Ég vissi svo sem ekki hvernig ég ætti að túlka béfið, en ákvað að líta á fuglinn sem friðardúfu. Ég hitti Thor aldrei aftur.