Nýja Sjáland, Pleasant Point. Viðureign mín við Ólaf Ragnar

 

Fagriblettur
Við erum komin til lítils þorps sem heitir Pleasant Point, Fagriblettur. Staðurinn liggur rétt við austurstöndina hérna á suðureynni. Búum við hjá stórbændum sem rækta sólber í tonnatali. Út um gluggann sé ég langar raðir af sólberjarrunnum og dádýr að leik. Það kom í ljós í samtali við bóndann í gær að þessi mikla sólberjarframleiðsla er aðeins brot af miklum umsvifum þeirra hér á bænum. Framleidd eru 30.000 tonn af kartöflum, 10.000 tonn af gulrótum, 8.000 tonn af lauk … Ég dáist alltaf að svona athafnafólki, ég kann svo vel við svona drift og dugnað.

Ólafur Ragnar
Ég sá á íslenskum vefmiðli að Þorgrímur Þráinsson ætlaði að bjóða sig fram til embættis forseta. Það þótti mér athyglisvert, ég var alveg búinn að gleyma að hann væri til. Mér varð hugsað til forseta Íslands, Ólafs Ragnars… og samskiptum mínum við hann. Nú hefst röð færslna hjá mér sem hefst með: viðureign mín við… nei, ætli það.
Annars var viðureign okkar Ólafs Ragnars hluti af listverkefninu, viðskipti sem listform.
Allt byrjaði þetta með tímariti sem ég gaf út í nokkur ár og fékk nafnið Bjartur og frú Emilía, í höfuðið á forlaginu og leikhúsinu frú Emilía sem Bjartur deildi húsnæði með á þessum tíma. Tímaritið kom út fjórum sinnum á ári og fjallaði um bókmenntir og leiklist. Ég held að fyrsti árgangurinn hafi komið út í kringum 1995. Kostaði ársáskrift 1.995 kr og hækkaði um eina krónu ár hvert. Þannig að áskriftargjaldið fylgdi alltaf ártali og áskrifendur voru þannig aldrei í vafa hvert árgjaldið yrði komandi ár. Árið 1997 kostaði áskriftin 1.997 krónur og svo framvegis. Meðal áskrifenda var Ólafur Ragnar Grímsson með heimilisfang á Seltjarnarnesi. Aldrei í útgáfusögu tímaritsins var gengið hart eftir að innheimta áskriftargjöld og því voru einhverjir sem aldrei greiddu fyrir áskriftina. Tímaritið var þó allvinsælt og mörg tölublöðin voru fljótlega uppseld og ófáanleg. Einn daginn ákvað ég að reyna að innheimta áskriftargjöld og um leið grisja þá út sem í raun og veru höfðu ekki gleði af áskriftinni og greiddu aldrei fyrir sendingarnar.

Þáttur Ástu S. Guðbjartsdóttur
Á þessum árum starfaði ein manneskja á forlaginu, fyrir utan mig. Það var Ásta S. Guðbjartsdóttir, hún var titluð lögfræðingur forlagsins og hafði það hlutverk að hafna innsendum handritum, handritum sem ekki þóttu nógu góð til útgáfu, og senda höfnunarbréf til hinna óheppnu skálda. Einnig féll innan starfssviðs hennar að senda innheimtubréf til bóksala og áskrifenda tímaritsins. Ásta var skálduð persóna, hún var ekki til í raunveruleikanum, en var sótt í bók Laxness, Sjálfstætt fólk og er dóttir Bjarts í Sumarhúsum. Ásta Sóllilja Guðbjartsdóttir. Seinna fékk Ásta stærra hlutverk hjá forlaginu.
Ásta fékk mörg símtöl frá fólki sem vildi ræða innheimtu- eða höfnunarbréf sem hún hafði póstsent. Hún var bara aldrei á skrifstofunni þegar spurt var eftir henni.
Það kom sem sagt í hlut Ástu að senda bréf til þeirra áskrifenda tímaritsins sem voru með lengsta skuldahalann, í þeim flokki var Ólafur Ragnar. Ásta samdi bréfið til forsetans og orðaði það af varfærni og kurteisi. Bað hún forsetann vinsamlega að greiða skuldina, en ef hann ætti ekki peninga þá væri það allt í lagi. Hún skyldi þá ekki ónáða hann frekar. En hún vildi jafnframt nýta tækifærið með þessu bréfi að hvetja hann, ef hann hefði ekki gleði af tímaritinu, til að segja áskriftinni upp. “Ég skil vel fólk sem ekki vill binda sig í áskrift og ferðast í flokki með öðrum. Mitt kjörorð hefur alltaf verið: ‘Ég geng ein, ég fylgi konunni með ljósið.’ Hvet ég þig að láta okkur vita ef þú framvegis vilt ekki fá póstsent tímaritið okkar.” Svona nokkurn veginn hljóðaði innheimtubréf Ástu til Ólafs Ragnars.
Næsta dag kom bréf frá Ólafi Ragnari. Hann leit ekki á bréf Ástu sem innheimtubréf, heldur einskonar tilboðsbréf um að hætta áskrift. Jú, þetta var gott feykigott tilboð, sagði Ólafur Ragnar. Hann vildi taka Ástu á orðinu og nota tækifærið til að segja áskriftinni upp. Það var nefnilega svo, bætti Ólafur við, að allar bókahillur á heimilinu voru orðnar fullar af bókum og hann hefði ekki pláss fyrir fleiri. Því vildi hann segja áskriftinni upp.
Ásta tók Ólaf af listanum yfir áskrifendur en ákvað að stríða honum aðeins og sendi nýtt bréf.

Kæri Ólafur Ragnar
Þakka þér kærlega fyrir bréfið, og leitt að heyra um plássleysi þitt í bókahillunum. Við hjá Bjarti viljum gjarnan hjálpa þér. Það er nefnilega svo að okkur vantar heilmörg tölublöð tímaritsins í safn okkar. Til dæmis eru tölublöð 1-14 alveg uppseld og tölublöðin upp til 2o eru nánast á þrotum. Hvernig væri að slá tvær flugur í einu höggi. Þú endursendir tímaritin og færð aukabókapláss og við eignumst á ný ófáanleg tímarit. Ég gerist svo djörf að leggja til að þú greiðir póstburðargjald, sem einskonar greiðslu fyrir ógreidd árgjöld aftur í tímann.

Bjartur framundan (sem var eitt af slagorðum Ástu S.)
Ásta S.

Í þetta sinn kom ekki svar frá forsetanum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.