Nýja Sjáland, Pleasant Point: Hlaupagarpurinn Zlatan

Á heimreisu okkar hef ég hlaupið af og til. Kannski ekki eins mikið og ég ætti að gera. En í  morgun hljóp ég með Davíð. Við hlupum hér milli sólberjarunnana og það var hinn ágætasti hlaupatúr. Davíð er að vinna upp hlaupaþol sitt og það gengur vel. Í morgun á hlaupunum varð mér varð hugsað til orða Murakami í bókinni sinni: „What I Talk about when I Talk about Running“ þegar hann fjallaði um aldur sinn og hlaup. Hann sagði að eftir fimmtugt hægði maður hlaupahraðann um 5 sekúndur pr. kílómetra á ári. Ég veit ekki hvort það er rétt en ég finn að ég er orðinn hægari en ég var. Og ég bölva því. Ég bölva því í sand og ösku.

Jón Karl og Jón Kalman
Ég hef hlaupið með tveimur Íslendingum á heimaslóðum mínum í Danmörku. Fyrst hljóp ég með Jón Karli úti skógi og ég átti ekki í teljandi erfiðleikum með að halda í við hann þótt hann sé yngri og fræknari en ég. Það var helst í frásögur færandi í þessum hlaupatúr, að í fyrsta og eina skipti hrópaði einhver á eftir mér á íslensku, og það út í miðjum dönskum skógi. Einhver sem Jón Karl þekkti. Við skiptum okkur ekki af því og hlupum áfram. Hitt skiptið hljóp ég með Jóni Kalman, smalanum. Ég átti ekki sjéns í hann, við hlupum 7 km með töluverðu tempói að mér fannst. Þegar við áttum tæpan kílómeter í mark jók Jón Kalman enn ferðina og ég fann að ég hafði mætt algjörum ofjarli mínum. Smalinn þaut af stað eins og ekkert væri og blés varla úr nös. Á meðan ég drattaðist áfram lafmóður og aðframkominn.

Murakami
Bók Murakami um hlaup las ég í ferð minni með fótboltaliðinu mínu í Danmörku. Ég var nýbyrjaður að æfa með félaginu, þegar tilkynnt var að stefnt væri á golfferð til Prag. Mér fannt rétt að taka þátt í ferðinni þótt ég spilaði ekki golf, bara til að sýna liðsanda og kynnast fótboltafélögum mínum. Ég talaði ekki sérlega góða dönsku, enda nýkominn til landsins. Þeir tóku mér vel. Að byrja að æfa fótbolta var hluti af áætlun minni til að aðlagast hinu danska samfélagi, sem ég var hálfutanveltu í svona nýfluttur. Ég byrjaði á að hringja í formann fótboltaklúbbsins, Peter Brun, og spyrja hvort ég mætti koma og æfa með liðinu IFEspergærde. Já, það var sjálfsagt, ég átti bara að mæta á miðvikudagskvöldi klukkan 8 á malarvellinum við Tibberubskolen. Þetta var í nóvembermánuði. Þennan miðvikudag hellirigndi og þegar ég kem á æfinguna klukkan 8 eins og Peter hafði sagt stóðu þegar 20 karlmenn í hnapp úti á malarvellinum umkringdir drullupollum og skipulögðu æfinguna. Það var koldimmt og flóðljósin á vellinum ekki alveg af nýjustu gerð. Ég tók stefnuna að hópnum og sá í hálfdimmunni að í hópnum miðjum stóð Peter Brun, formaðurinn sjálfur. Ég geng til hans og heilsa honum og kynni mig. Þegar ég stend og tala við Peter heyri ég að fyrir aftan mig er hálfhvíslað: „Hvem er det?“ og svo var hvíslað: „Er det ikke Zlatan?“ Ég er kannski ekki ólíkur Zlatan, hárið, hæðin, nefið og hæfileikarnir, að minnsta kosti í hálfrökkri. Eftir það hef ég alltaf verið kallaður Zlatan af fótboltafélögum mínum – og börnunum sem æfa fótbolta með IFEspergærde. „Hej, Zlatan,“ segja þau þegar þau mæta mér á götu. Aldrei annað en Zlatan.

Ferðin til Prag
Ég skráði mig sem sagt í ferð til Prag, golfferð, með þessum ágætu fótboltafélögum mínum sem ég þekkti þó nánast ekkert. Og tók bók Murakami um hlaup með í ferðina. Fyrsta kvöldið var farið saman út að borða, eins og tilheyrir í svona karlaferðum. Ég hef aldrei verið sérstaklega góður að ferðast í hóp svo ég reyndi fljólega að finna mér undankomuleið. Mig langaði bara að lesa bókin mína í friði. Eftir matinn voru margir orðnir velhressir og nú var auðvitað komin krafa á að finna súludansara. Ég lét eins og ekkert væri og gekk af stað með hópnum en dróst fljótlega aftur úr og tók stefnuna á hótelið. Ég var ekki fyrr kominn inn á hótelherbergið og hlakkaði bara til að leggjast upp í bæli með Murakami þegar síminn hringdi. „Ho, Zlatan, hvor er du?“ Þetta var einn af mínum ágætu boltafélögum, Faur, sem hefur tekið að sér það hlutverk hjá fótboltaklúbbnum að passa upp á að allir hafi það gott. Hann er ekkert nema umhyggjan. „Ho, Zlatan, hvor er du?“ Ég gat ómögulega fengið mig til að segja að ég væri upp á hótelherbergi og ætlaði að leggjast með bók, svo ég sagði að ég hefði villst af leið og vissi ekki hvar ég væri. Hann vildi gera allt í heiminum til að vísa mér leið svo ég geti sameinast félögum mínum á ný. Ég er viss um að hann hefði hlaupið á heimsenda til að ég gæti verið í þessum góða félagsskap á súlustaðnum með hinum drengjunum. En mér tókst einhvern veginn að koma mér út úr samtalinu og sagði honum ekki að hafa áhyggjur ég fyndi mér einhverja skemmtun. Loks fékk ég frið til að lesa bókina. Ég er hálfhræddur um að hina félaga mína hafi grunað að ég hafi farið upp á hótel að lesa því það sem eftir var ferðarinnar þurfti ég að þola margskonar stríðni vegna þess að ég gekk með bók í vasanum á göngu okkar um Prag.

Á morgun
Á morgun höldum við ferð okkar áfram og enn er stefnt suður á bóginn. Nú eru rúmar tvær vikur þar til við yfirgefum Nýja Sjáland og höldum til Buenos Aires. Argentína yfir jól og gamlaárskvöld.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.