Nýja Sjáland, Lake Pukaki. Fjölskyldan

Við héldum af stað í morgun, frá Fagrabletti (Pleasant Point) og inn í landið og nú búum við í bústað við vatn.  Á meðan ég sat við stýrið (aksturinn tók 2 kls.) varð mér aftur og aftur hugsað til hjónanna sem við höfðum búið hjá. Það er  sérstök reynsla að búa inni á fjölskyldu eins og við gerðum síðustu 3 daga. Mér fannst ég staddur í skáldsögu eftir Jonathan Frenzen. Maður er kynntur fyrir fjölskyldu og allt virðist í fínu lagi. Allir eru til fyrirmyndar , og svo… er næstum allt til fyrirmyndar en…

Hjónin Roy og Ofasa
Við bjuggum hjá hjónunum Roy og Ofasa í stóru húsi við þorpið Pleasant Point. Þau eru bæði um það bil 55 ára. Hann lítur út fyrir að vera eldri en hann er, dálítið tekinn í andliti, heldur ófríður með vantskennd blá augu. Hún er lágvaxin og grönn með ákaflega þurrt, dökkt, uppsett hár. Hún er flóttamaður  frá Persíu eins og hún kallar Írak og kom til Nýja Sjálands þegar hún var um 20 ára og hefur ekki komið til Írak síðan hún yfirgaf landið. Roy er Nýsjálendingur í húð og hár og býr enn rétt við þorpið sem hann fæddist í. (Foreldrar hans búa þar enn og bróðir hans). Þau Ofasa hittust skömmu eftir að hún kom til Nýja Sjálands og giftu sig ekki löngu  síðar. Roy gekk í sama landbúnaðarháskóla og bróðir hennar og í gegnum hann kynntust þau. Pleasant Point er örlítill bær (500 manns) sem þjónar landbúnaðinum í kringum þorpið. Þetta er sviðið.

Fjölskyldan
Við komum inn í líf fjölskyldunnar Roy og Ofasa (þau eiga 3 uppkomna syni sem eru fluttir að heiman) þar sem þau hafa ákveðið að byrja að taka inn gesti í húsið sitt í gegnum AirBnB. Það virðist ekki vera peningana vegna. Allt bendir til að þau eiga næga peninga, húsið er stórt og þau keyra hvort um sig á fínum Fólksvagenbílum. Ekkert virðist skorta. Ekki heldur neitt ríkidæmi. Húsið liggur út til stórra grasengja þar sem dádýr ganga innan girðingar og handan girðingarinnar eru sólberjarunnar fjölskyldunnar svo langt sem augað eygir. Fyrst þegar við komum inn í húsið  blasti við okkur er fjölskyldumyndin  í hillu úti í anddyrinu. Faðir, móðir og þrír synir.

IMG_5745.jpg

Fjölskyldubissnessinn
Það er móðirin sem býður okkur velkomin. Hún er nýkomin heim eftir að hafa verið úti að taka á móti gestum í opnu húsi. Fjölskyldan hefur deilt upp landinu í kringum  húsið sitt  í 9 spildur sem ætlaðar eru fyrir einbýlishús. Þau hafa sjálf byggt eitt hús á þessum spildum (sem þau búa ekki í) og hún hafði sem sagt verið úti að kynna húsið, það sem á fasteignamáli kallast opið hús. Hún segir að enginn hafi komið. Það var undarlegt fannst henni. En hún hefur skýringu á takteinum. Það var svo mikið rok að eitt af 3 skiltum, það mikilvægasta, sem auglýsti hið opna hús hafði fokið um koll og hún hafði ekki tekið eftir því. (Síðar kemur í ljós að salan á lóðunum hefur staðið síðan 2009) En hún er jákvæð, brosmild og kurteis en samt fer hún strax í taugarnar á mér. Mér fannst erfitt að setja fingur á hvað það var sem pirraði mig, mér fannst hún bara leiðinleg. Eitt af því fyrsta sem við heyrðum var að fjölskyldan vann við að rækta sólber. Og þau höfðu, fyrir tveimur árum byrjað að kynna eigið vörumerki Kober sem þau seldu í stórmörkuðum. Kober voru sólber húðuð í súkkulaði, (tvær tegundir) og frosin sólber og frostþurrkuð sólber sem eru góð út á morgunmusli. Þau framleiddu 5 tonn af sólberjum, og ekki langt frá húsinu var pökkunarskemma fyrir framleiðsluna. Þetta fengum við að vita fyrsta hálftíman eftir að við komum inn á heimilið.

Kvöldmatur
Svo var tekið að ræða um kvöldmat, hvernig best væri að skipuleggja kvöldmat þar sem tvær fjölskyldur voru í einu eldhúsi. Við höfum keypt kjúklingabringur og mexikanskar pönnukökur og höfðu hugsað okkur að búa til vefjur með kjúklingakjöti og grænmeti. Þá kemur í ljós að hún, frúin Ofasa, er grænmetisæta. (Alveg fannst mér það passa við hana.) Roy borðaði kjöt. Hún sagði að yfirleitt var einn réttur fyrir Roy á kvöldin þegar hann kom heim, með kjöti, og einn réttur fyrir hina írönsku grænmetiskonu. Nú byrjar hvor fjölskylda fyrir sig að undirbúa kvöldmat. Og um kvöldmatarleyti kemur eiginmaðurinn Roy heim. Hann leit út fyrir að vera vinnusamur dugnaðarforkur, no nonsens maður. Ég kunni strax betur við hann. Hann var varfærinn í samskiptum. Roy settist við kvöldveðarborðið og spurði kurteislega um hagi okkar og var áhugasamur og vinsamlegur. Kemur nú í ljós að Roy hefur margt á sinni könnu fyrir utan Kober. Hann segir okkur frá því að hann sé oft að heiman, hann sé stjórnarmaður í allkonar fyrirtækjum bæði á suðureyju Nýja Sjálands og norður eyjunni. Hann er líka í sveitarstjórn. Og vegna þessara ferðalaga  finnst honum hann missa svolítið tengsl við búskapinn. Þau hafa 30 manns í vinnu. Og nú kemur í ljós að þau rækta líka á annarri jörð. Og þau hafa framkvæmdastjóra fyrir þá jörð og líka fyrir sólberjajörðina. Roy býðst til að keyra okkur um landareignina og kynna okkur fyrir búskapnum daginn eftir. Köldmáltíðin líður áfram með kurteislegu spjalli þar sem Roy hefur orðið fyrir þeim hjónum. Hann endar næstum hverja setningu á stuttri hláturroku.

Næsti morgunn
Ofasa hefur lagt á borð fyrir okkur. Fínn morgunmatur með jarðarberjum og sólberjum (Kober) og jógúrt. Ofasa er forvitin að heyra hvort okkur líki betur við sólber með dökku eða ljósu súkkulaði. Hún talar mikið um Kober. Roy tekur okkur í kynningarferð um búgarðinn. Kemur í ljós að berin eru alls ekki í aðalhlutverki eins og við höfðum haldið. Nei, á búgarðinum eru ræktuð 30.000 tonn af kartöflum, 10.000 tonn af gulrótum, 8.000 tonn af lauk og hér eru vélar í öllum stærðum og gerðum. Roy var í essinu sínu og sýndi okkur hvernig vélarnar virkuðu og hvar landarmörkin lágu og hvernig vökvunarvélarnar störfuðu o.s.frv. Það var sunnudagur og allt var í fullum gangi í huga Roy. Einhver staðar á einhverjum akrinum var biluð vökvunarvél (þetta eru risavaxnar vélar, mörghundruð metra langar) og hann þurfti að drífa sig að gera við. Roy skildi við okkur við veitingastað þar sem við borðuðum fábrotinn hádegismat en hélt sjálfur af stað í vinnugallanum.

Kvöldið kemur og kvöldmatur.
Ofasa hefur verið svolitla stund á skrifstofunni, en ekki lengi. Það er ekkert vinnuþrek. Hún rétt tyllir sér á verkefnin og lætur það nægja. Roy hafði sagt að illgreis væri helsti vandi sólberjarræktunarinnar. Allt væri vistvænt og ekki sprrautað eitri og því þyrfti að handreyta illgresi. Ofasa fer út að reyta illgresi. Hún hafði nokkra metra í einni sólberjarröðinni fyrr í vikunni og nú ætlaði hún að klára röðina. Nokkru síðar kemur hún aftur inn, það var byrjað að rigna og því vildi hún ekki reyta arfa, en talaði mikið um að ekki mætti koma hagl. Þá væri allt ónýtt. Við steiktum pylsur og sögðum Ofasa að hún skyldi ekki búa til kjötmáltíð fyrir Roy, hann gæti fengið pylsur hjá okkur. Roy kom heim klukkan 21. Við vorum öll að klárað að borða þegar hann kom heim. Hann kastaði sér yfir pylsurnar og borðaði með áfergju. Smám saman komu upp á yfirborðið nýjar upplýsingar sem varpaði nýju ljósi á þessa fjölskyldu. Roy: „Ummm, langt síðan hann hafði fengið pylsur. Og langt síðan hann hafði fengið kjöt.“
„Kemurðu alltaf svona seint heim að borða?“ spyr ég.
„Já, ég kem yfirleitt heim uppúr 9. Mér finnst gott að sitja á skrifstofunni og vinna þegar aðrir eru farnir.“
„Borðar þú þá alltaf svona seint?“ spyr ég undrandi.
„Já, ég borða þegar ég kem heim, Ofasa borðar sinn mat um 7. Og svo borða ég uppúr 9. Ég finn eitthvað í ísskápnum.“
„Borðið þið þá ekki saman.“
„Nei, yfirleitt ekki.“
Berst nú talið að búskapnum og hún vill tala um berin, Kober.
„Hún vill alltaf vera að tala um Kober. Ég vil ekki tala um Kober,“ segir hann.
„Já, ég er búin að panta fund á skrifstofunni með honum til að tala um Kober. Því hann segist ekki vilja tala um Kober heima.“
Hann hummar.
„Heimilið á að vera griðarstaður, ég vil ekki tala um Kober heima.“
„Gengur Kober ekki vel?“ spyr ég hissa.
„Þetta er svo nýbyrjað að þetta er ekki farið að borga sig. Framleiðslukostnaður er hár,“ segir hann.
„Já, það er blaðamaður sem vill tala við okkur á morgun klukkan 14 um Kober,“ segir hún. Kemur í ljós að þau höfðu keypt auglýsingu í héraðsblaðinu fyrir Kober og fylgdi auglýsingakaupunum að þau fengju viðtal í blaðinu.
„Umm, já. Við sjáum til.“ segir hann.

Næsti morgunn
Vist okkar er lokið. Roy er búinn að borða morgunmat þegar við komum niður. Hann kveður okkur með virktum, feiminn, en virðist ánægður með okkur. Svo fer hann út úr eldhúsinu og er á leið út og ég tek eftir því að hann kveður konu sína ekki. Og ég uppgötvaði að þau höfðu eignlega ekki horfst í augu á meðan við höfðum dvalið þessa daga hjá fjölskyldunni. Ef þau töluðu saman þá sagði hún eitthvað við hann með miklum léttleika og hann hálftuldraði eitthvað sem svar. Hann er kominn fram í anddyri og er að fara í skó þegar hún kallar á eftir honum hvort hann vilji ekki hafa dagblaðið með sér í vinnuna. „Nei,“ kallar hann bak við lokaðar dyr. Svo heyrist útidyrnar lokast.
Við setjumst út á garðpallinn fyrir utan eldhúsið og drekkum kaffi og hún sest við hjá okkur.
„Það verður ekkert af viðtalinu, Roy vill ekki tala við blaðamenn um Kober. Hann vill ekki tala við þá á meðan það gengur ekki nótu vel. Ég er búin að hringja og aflýsa viðtalinu. Ég hringdi í blaðamanninn“
„En gengur ekki vel með kartöflurnar?“ spyr ég. Ég hef alltaf áhuga á hvernig fyrirtæki ganga. Hvort það sé fjör.
„Jú, við höfum tvö fyrirtæki, Kober og svo hin jörðin er annað fyrirtæki. Ég hætti að vinna sem kennari, eða ég hafði umsjón með útlenskum nemendum hér í þorpinu…  og við ákváðum að fara að vinna saman og byggja um Kober. Nú hefur hitt fyrirtækið hingað til borgað reksturinn á Kober og bankinn er ekki ánægður. Og kannski vill bankinn að við sameinum fyrirtækin, eða hættum með Kober, ég veit það ekki… Síðasta ár var mjög erfitt. Frost eyðilagði stóran hluta uppskerunnar og bankinn er ekki ánægður með okkur. Við erum að reyna að finna markað fyrir Kober í Asíu og Ástralíu. Við fengum pöntun frá Ástralíu en þeir vilja ekki staðfesta hana. Ég sendi e-mail og fæ ekki svör. Ég hringi en fæ ekki almennileg svör. Pöntunin liggur klár á brettum en við fáum ekki staðfest. Svo erum við að reyna að selja í Hong Kong en þeir hafa allt aðrar reglur um innihaldlýsingu og við erum búin að gera nýja límmiða sem við ætlum að líma á pakkningarnar en … já. Við erum enn að bíða…. Klukkan nálgast tíu. Hún situr enn og talar. Hún er ekki á leið af stað… Við pökkum saman og kveðjum. „Áttu von á fleiri gestum…?“
„Já, en kannski aflýsum við… synir okkar koma. Þetta er fjölskylda frá Singapore sem er búin að panta eina nótt. Kannski aflýsum við, kannski sofa strákarnir úti í húsinu sem við byggðum. Við höfum ekki ákveðið okkur…“

Þetta var fjölskyldan.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.