Nýja Sjáland, Wanaka: Dreadlocks og berir fætur

Á Nýja Sjálandi eru fínir staðir og ófínir staðir, eins og á Íslandi og í Danmörku. Raufarhöfn, Höfn í Hornafirði, Keflavík þykja ekki sérlega töff og heldur ekki Nykøbing eða Vandsyssel. Reykjavík er kúl og Espergærde er kúl, Chamonix er kúl. Nú erum við komin til Wanaka sem er hin nýsjálenska Chamonix. Hér eru barir og kaffihús á hverju horni, húsin bera merki um að fólk hafi góð fjárráð og borgin iðar af lífi. Helst er það ungt, hippalegt göngufólk sem fyllir barina. Þau kaupa berfætt inn í stórmakaðinum hér og ganga um bæinn með reipi yfir axlirnar, dreadloks og vafðar sígarettur.

IMG_5799

Hlaupagarpurinn
Við höfum nú verið í Wanaka í 3 nætur og höfum getað spilað tennis og hlaupið. Að vísu var hlaupatúrinn í morgun hálfmisheppnaður. Við Davíð og Sus hlupum saman. Við drögum Daf með hvern morgun út að hlaupa til að ná upp þoli og kílóum niður. En stundum er erfitt að mótivera þennan unga matmann til að hlaupa og honum finnst hlaup bæði leiðinleg og erfið. Í morgun var  hlaupið einstaklega erfitt. Og hann þurfti oft að fá að ganga á milli hlaupasprettana. Þetta reyndi á þolinmæði mína, mér fannst þetta alltof slappt og vildi fá meiri vilja og kraft í soninn unga. Eftir hlaupið fékk hann smáyfirhalningu svo að ég held að hann hlaupi af meiri vilja í næsta skipti.

Annars erum við á leið langt suður í rass. Te Anau heitir áfangastaðurinn og er eins langt og við komumst í suðurátt og þar er enginn og því verður ekkert netsamband næstu daga. Eða að minnsta kosti geri ég ekki ráð fyrir netsambandi.

Hermann Stefánsson
Mig langar mjög að lesa hina nýju bók Hermanns Stefánssonar. Hermann er fantagóður stílisti og hefur alltaf verið. Textar hans iða af lífi og orku. Í síðari bókum hans hefur mér ekki fundist hann ná að vera interessant eða skemmtilegur. En einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að í þessiri nýju bók hans komi smá húmor og léttleiki. Nýju lyklar var fín bók.  Ef einhver getur reddað mér pdf eða e-pub file af bókinni les ég af mikilli gleði.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.