Nýja Sjáland, Te Anau: Hátíðargin

Ho. Kominn til Te Anau sem er pínulítill bær mjög sunnarlega á Nýja Sjálandi.  Hér setjumst við að í enn einum skúrnum. Þetta er einn minnsti skúr sem við höfum búið í. Strákarnir sofa á svefnsófa í stofu/eldhúsi og svo er lítið svefnherbergi fyrir okkur Sus og baðherbergi. Við hliðina á skúrnum er bóndabær og þar býr bóndafólkið, eldri herra og frú. Morgunmatur er innifalinn í gistingunni og dagsins fyrstu máltíð borðum við í eldhúsinu hjá hjónunum. Hjónin eru elskuleg.

Gin
Við hittum herrann í gær. Hann var einn heima þegar við renndum í hlað og  bönkuðum uppá. Það var löng bið og enginn svaraði banki okkar. Aftur bönkuðum við og enginn vottur var um líf í húsinu. Um það bil sem við snerumst á hæli og gengum burt var dyrunum hrundið upp og í gættinni stendur rauðbirkinn, eldri herramaður og horfir gáttaður á okkur. Hann skildi greinilega ekki hver við vorum og hvað við vildum.
“Hello,” segjum við hressilega.
Hann horfði skilningsvana á þennan hóp sem stóð fyrir utan aðaldyr hússins hans. (Húsið er bónadabær langt inn í landi og fjarri öðrum búskap.)  Hann segir ekkert en virðir okkur hvumsa fyrir sér. Við annað munnvikið eru leifar af mat og hann tyggur eitthvað svo það er augljóst að við höfum truflað hann við kvöldmatinn. Hann er  sköllóttur og með sérkennilega kúlulaga andlit.
“Ó, við erum þau sem höfum tekið skúrinn á leigu,” segjum við til skýringar á veru okkar.
Það kom ljós í augu mannsins og hann fagnaði okkur vel. Það var þó augljóst að hann var ekki alveg tilbúinn að yfirgefa matarborðið, en með trega kom hann út og sýndi okkur það helsta sem þurfti að vita. Hann var afar hressilegur kall og þegar honum fannst hann hafa tekið nógu mikinn þátt í hinu félagslega þætti lífsins sagði hann:
“Ég held ég fari inn aftur, ef það er OK. Ég nefnilega seldi hlut af jörðinni í dag og keypti gin. Það er vika síðan ég hef fengið gin. Ég var búinn að opna flöskuna og nú held ég að ég fari aftur inn og haldi áfram þar sem frá var horfið.” Hann glottir. Heilsið upp á hundinn segir hann og bendir á ofalinn hund sem horfir vonaraugum á okkur. Og síðan gengur bóndinn inn. Hans bíður hátíðargin.

Dagur í senn
Mér var bent á að sjálfur skáldsagnahöfundurinn Bragi Ólafsson væri byrjaður að skrifa á veraldarvefinn. Færsla á dag. Ég var fljótur að fara inn á vefinn hans Braga, hef lengi verið aðdáandi skrifa hans, til að sjá hvernig hann leysir vandann við að skrifa daglega á veraldarvefnum. Hann hefur skrifað nánast án aflásts í 14 daga. Tæplega færsla á dag. Mér fannst fyrsta færsla skáldsins, frá fyrsta desember, flottust. Stuttur texti um göngutúr í kirkjugarðinum, Hólavallakirkjugarðinum. Hinar sem á eftir koma eru ekki eins vel heppnaðar. Það krefur orku og einbeitni til að skrifa færslu á dag. Ég er líka byrjaður að lesa færslur Einars Kárasonar sem hann birtir á Eyjunni. Hann skrifar svolítið um pólitík, sem interesserar mig ekki, en Einar er toppsögumaður og vona að hann færi sig frá pólitík yfir í skemmtisöguformið.

Bók Hermanns Stefánssonar
Ég hef fengið töluverð viðbrögð um beiðni minni um bók Hermanns Stefánssonar á hinu alrafræna formi. Ég hef ekki fengið bókina en margir hafa bent mér á að forleggjarinn hafi örugglega  pdf á tryggum stað. Aðrir hafa bent á skáldið sjálft. Einn bauðst til að senda eldri bók Hermanns sem honum fannst enn betri en sú nýja. Hann hafði aðgang að pdf gegnum leynileg göng. Og svo var hópur sem skildi ekki í áhuga mínum á Hermanni Stefánssyni. En ég segi og skrifa mér finnst  texti Hermanns aðdáunarverður. Hann hefur ótrúlega góð tök á íslenskri tungu. (Eins og bróðir hans). Ég veit auðvitað ekkert enn um bókina hans Hermanns hvort hún sé skemmtileg eða leiðinleg, áhugaverð eða óáhugaverð, inspirerandi eða flatneskjan sjálf. Það verður að koma í ljós. Ég læt Hermann tala þegar ég fæ pdf af bókinni hans nýju. Nú er það bara spurning um hver hefur möguleika á að senda mér rafræna útgáfu af bókinni? Ég greiði gjarnan fullt verð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.