Hó. Kominn til Queenstown, bæ ungdómsins í Nýja Sjálandi. Hér er háborg teygjustökksins, háborg bakpokamannsins. Hér fyrir utan gluggann á íbúðinni sem við höfum leigt horfi ég á ungdóminn að leik. Ungdómurinn kastar frisbí-disk. Hér eru ekki hæfileikarnir sem stjórna leiknum, það er gleði leiksins sem er mikilvægust. Þrír drengir með derhúfur og sólgleraugu og ein berfætt stúlka með tagl og í köflóttri skyrtu kasta bláum frisbí-disk á milli sín og ná þeim einstaka árangri að grípa aldrei í 80 atlögum. Þau setjast niður eftir 10 mínútna leik, þreytt og sæl og horfa út á sjóinn og fá sér bjór. Yfir þeim, handan fjarðarins, er klettótt fjall.

Söknuður
Queenstown er síðasti áfangastaður okkar í Nýja Sjálandi áður en við höldum yfir hafið og sláum upp tjöldum í Buenos Aires. Við erum búin að vera á ferðinni í nær 3 mánuði og það gerist ýmislegt í hausnum á manni á svona langri ferð þar sem maður hittir bara ókunnuga í stutta stund (oft í spjalli um land og þjóð) og sitt eigið samferðafólk. Eins og alltaf er hugurinn að störfum. En það merkilega hefur getst á ferðalaginu að hugur minn leitar nú sífellt meira til Íslands og til þeirra sem ég tengist þar. Ekki bara barnanna minna og þeirra barna. Heldur líka til foreldra minna, sem nú eru báðir dánir, og minna gömlu góðu vina. Líf mitt í Danmörku er einstaklega gott, ég þrífst eins og blómi í eggi. Ég þekki marga og hef mjög samband við gott fólk. Mínum ágætu dönsku vinum hef ég kynnst á síðustu árum gegnum fótboltaklúbbinn, skóla barnanna eða bara á götunni. Allt er þetta hið skemmtilegasta og vandaðasta fólk en gallinn (ef maður má segja svo) er sá, að það sem sameinar okkur er að við búum á sama stað, spilum fótbolta saman, eða að börnin okkar ganga í sama skóla. Allt þetta fólk mundi ganga í gegnum eld og brennistein fyrir mig en við hugsum samt ekki eftir svipaðri línu. Við hlustum ekki einu sinni á sömu músik. Á Íslandi þekki ég líka marga en munurinn er sennilega sá að ég deili bæði sögu og viðhorfum með flestum vinum mínum á Íslandi.
Óvinurinn
Ég á líka einn óvin, sem ég veit um, og hann býr á Íslandi. Ég er ekki stoltur af því. Mér varð hugsað til hans í dag og hló með sjálfum mér. Ég freistast næstum til að henda gaman að þeirri hlægilegu atburðarrás sem varð til að gera mig að fjandmanni. En ég læt það ógert, ég læt ógert að kasta enn lengri og dimmari skugga yfir tilveru mannsins með því að hæðast að honum. Ég sé hann fyrir mér þegar ég skrifa þessar línur. Hann hímir undir vegg, með gamaldags ferðatösku sér við hlið. Á leið til Íslands eftir misheppnaða dvöl í útlöndum. Ég horfi á hann. Það eina sem honum hefur tekist fjarri heimalandinu er að safna svolitlu skeggi.
Ég hitti gamlan félaga okkar, Guðmund B. golf, sem við kölluðum stundum Lillemann í gamla daga, enda var hann bróðir Jónka trölls, sem reyndist okkur nú stundum vel í baráttunni við hrekkjusvín. Manstu eftir Erlingi rauðhærða í blokkinni? Það sem ég var hræddur við hann, maður minn … En Guðmundur B. golf var nokkuð við skál og fór hinum fegurstu orðum um okkur báða, og sagði m.a. að þú værir “besti maður í heimi”, og studdi það með nokkrum sögum. Þessu er hér með komið til skila. Bestu kveðjur frá onkel Palle.