Nýja Sjáland, Queenstown. Hinar miklu tilviljanir

Það virðist hafa komið róti á lesendur þessara pistla, sem ég skrifa á ferð minni um heiminn, að ég minntist á að ég ætti einn óvin, kannski. Ég hef fengið fyrirspurnir um hver fjandmaðurinn sé. Hvort það sé þessi eða hinn. Ég ætla ekki að nefna nöfn.

Flutningurinn frá Íslandi
Ég flutti frá Íslandi árið 2006, þann 12. september. Ég hef heyrt utan af mér að sumir halda að ég hefði flúið land vegna óvináttu við SJÓN. Það er fullkominn misskilningur. Ég upplýsi það hér og nú að vistaskipti mín spruttu ekki af óvináttu og flótti einkenndi ekki flutninginn á neinn hátt. Og ég held satt að segja að ég hafi ekki á þeim árum verið búinn að eignast neinn óvin. Við SJÓN vorum ósáttir á tímabili. Þau missætti, sem höfðu bæði faglegar og tilfinningalegar orsakir, eru löngu leyst og milli okkar ríkir nú bara hjálpsemi og eining. Ákvörðunin um að flytja til Danmerkur, var eins og margar af mínum stóru ákvörðunum,  tekin án mikillar umhugsunar. Ég bjó í litlu raðhúsi í Fossvogshverfi árið 2006. Mamma dó árið 2005 og pabbi bjó einn í æskuheimili mínu í Álftamýri og þó hann kvartaði ekki var fráfall mömmu honum mikið áfall og hann saknaði hennar mjög. Ég hugsaði með mér að kannski væri vit í því að finna hús sem við, ég og mín litla fjölskylda, gætum búið í og haft aukaíbúð fyrir pabba. Þannig gæti hann haft félagsskap og þyrfti ekki að búa einn í stóra raðhúsinu í Álftamýri. Við leituðum og skoðuðum og buðum pabba að koma með að meta hús. En ég fann á honum að hann var  ekki tilbúinn að flytja úr Álftamýrinni.

Eitt kvöld þegar ég kom heim úr vinnunni, og ég var seint á ferð eins og vanalega, hafði Sus verið að skoða hús á fasteignavefnum. Hún sýndi mér fyrst nokkrar reykvískar fasteignir sem kæmu til greina og skipti svo yfir á danska fasteignasíðu. Hún hafði fundið íbúð í Kaupmannahöfn og sagði að svona íbúð gætum við fengið í Danmörku fyrir þá upphæð sem við höfðum til umráða. Þetta var ekki á neinn hátt ábending um að hún vildi flytja til  Danmerkur. Ég leit á tölvuskjáinn og sagði án þess að hugsa sérlega lengi eða langt. „Afhverju flytjum við ekki bara til Danmerkur?“ Á þennan hátt hófst flutningaferlið sem endaði með að við keyptum hús í litlum dönskum bæ, Espergærde, sem liggur rétt norður af Kaupmannahöfn. Og nú nærri 9 árum seinna bý ég enn í Danmörku. Svona gerast hlutirnir.

Berlín
Þegar ég var 19 ára og hafði lokið stúdentsprófi hafði ég mikinn áhuga á að flytja til Berlínar. Í Berlín var hinn mikli suðpottur evrópskrar ungdómsmenningar. Hallgrímur Helgason lýsir  vel í sinni stórgóðu bók, Sjóveikur í München, hvað Berlín hafði mikið aðráttarafl fyrir ungt fólk á þessum árum. Berlín var staðurinn, þar var sveiflan og orkan. Margir af þeim sem ég þekkti í MH og voru vinir mínir tóku stefnuna á Berlín. Ég valdi af ýmsum orsökum þó að fara til Freiburgar í Þýskalandi. Það hefði breytt lífi mínu stórkostlega hefði ég ákveðið að fara til Berlínar á þessum árum. Og nú þegar ég skrifa þetta er ég viss um að allt hefði farið á verri veg hefði ég tekið þá ákvörðun að setjast að í Berlín, 19 ára gamall. Enn algjör tilviljun.

Tilviljanir
Ég get haldið áfram að telja þær tilviljanir sem hafa haft grundvallaráhrif á líf mit. En það bíður seinni tíma.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.