Við erum lent í Buenos Aires eftir langt flug. Þótt við flygjum frá Auckland í Nýja Sjálandi klukkan 18:30 þann 23. desember lentum við, eftir meira en 14 tíma ferðalag klukkan 18:25 þann 23. desember í Buenos Aires. Hér í Argentínu höfum við leigt íbúð miðsvæðis í borginni. Hér er heitt. 29 stig og sólin bakar borgina.
Leigubíllinn
Þrátt fyrir aðvaranir á flugvellinum tókum við leigubíl inn í bæinn. Leigubílstjórinn var lítill og mjór. Petit, eins og sagt er. Hann keyrði okkur í gömlum Renault Kengoo. Hann sagði ekki orð alla leiðina. Hann keyrði vel og var örugglega á Guðs vegum. Hann gerði krossmark á enni sér og brjóst við hver gatnamót. Hann skilaði okkur heilum til borgarinnar.
Íbúðin
Íbúðin sem beið okkar reyndist ansi stór. Sennilega ferðarinnar stærsta vistarvera. Hér eru meira en 4 metrar til lofts. Innréttingin minnir mig á sviðsmynd spænskrar kvikmyndar. Allt er hvítt og herbergin eru mörg. Sum tóm. Til að fullkomna myndina vantar bara þögla, gamla konu í svörtum kjól á kolli inni í eldhúsi. Hér er sjóðandi heitt. 1000 gráður. Í hverju herbergi keyra loftspaðar án afláts og hræra í hitanum. Út um gluggann í stofunni sé ég argentínskan veitingastað. Þar er líflegt. Hjón sitja út á stéttinni fyrir framan veitingastaðinn og borða. Hann pantar meira rauðvín með einni handarbendingu.
Svefninn
Ég lagðist til svefns þegar klukkan var 23:00. Eins og venjulega sat ég og las en fljótlega fann ég að svefninn var að sigra mig. Ég lagði bókina frá mér. Tveimur tímum síðar vaknaði ég og gat ekki með nokkrum móti sofnað aftur. Ég tók bókina aftur fram og las. Nú reyni ég að muna hvað bókin hét. Nýjasta bók Hermanns Stefánssonar, hvað heitir hún? Ég kíki á bókina. “Leiðin út í heim” og er tilnefnd til bókmenntaverðlaunanna. Þetta er þriðja bókin á þremur dögum sem ég les eftir Hermann. Ég byrjaði á Spennustöðinni sem er stutt saga um veru höfundarins í húsi á Akureyri. Það er satt að segja mögnuð bók hjá Hermanni. Ég var mjög hrifinn. Hermanni Stefánssyni liggur mikið á hjarta, honum er þungt um hjarta. “Allt sem ég skrifa er satt,” segir Hermann. Það er rétt. Hinar bækurnar tvær, Hælið og Á leiðini út í heim eru ekki að neinu leyti jafngóðar Spennustöðinni. Ekki lélegar bækur bara ekki jafngóðar og Spennustöðin. Ég sofnaði aftur klukkan 5:00. Vaknaði aftur skömmu síðar og fór á fætur.
Aðfangadagur
Það er aðfangadagur. Ég er langt að heiman. Hér er heitt. Allt á suðupunkti. 1000 gráður. Við þurfum að halda jól. En hér er ekkert sem minnir á jól. Sus býðst að fara út í búð og reyna að finna eitthvað. Kemur til baka eftir rúman klukkutíma með kjöt, hrísgrjón og kartöflur nóg til að elda jólamat. Eina búðin hér í göngufæri er hálfgerð sjoppa. Ég arka af stað til að reyna að finna eitthvað til að borða á morgun, því þá er allt lokað uppgötvum við. Ég ráfa um þessa hræðilegu búð sem er troðfull af fólki og finn ekkert sem gæti skapað hina minnstu hátíðarstemmningu í mat. Ég set spaghetti og jógúrt í innkaupakörfuna. Ég ráfa um búðina og reyni í örvæntingu að finna eitthvað. Mig vantar líka bökunarpappír. Leyta að spænskri þýðingu að orðinu bökunarpappír á iPhone. Gríp í rauðan slopp afgreiðslumanns sem er að fylla í hillur og segi bökunarpappír á spænsku. Hann horfir áhugalaus á mig. Lætur sem hann taki ekki eftir að ég held honum föstum. Hann nennir ekki að hjálpa mér. Hann kemst þó ekkert, ég sleppi ekki takinu. Ég er næstum farinn að gráta, svo vonlaus er ég. Hann bendir á hillu í hinum enda búðarinnar. Hvar? segi ég á einhverju tungumáli. Hann bendir aftur og sýnir enga tilburði til að hjálpa mér frekar. Ég sleppi honum og geng í áttina að hillunni sem hann benti á. Ég finn ekkert. Ekkert sem gæti verið bökunarpappír. Ég ræðst á annan mann í rauðum slopp. Hann víkur sér undan mér og segist ekki tala ensku. Í ríf í sloppinn á honum, það er eina leiðin til að ná athygli þessara kviku búðarmanna. Hann reynir að ýta mér en ég held honum föstum og segi bökunarpappír á spænsku. Hann svarar eitthverju og ég skil að hann notar orðið álpappír. Nei, ekki álpappír, segi ég. Hann gengur af stað og ég á eftir honum. Hann bendir á rúllu með plastfóliu. Nei, segi ég með kökkinn í hálsinum. Mig vantar bökunarpappír. No. No.
Lausafé
Fólkið í búðinni er ekki ánægt með greiðslukort. Við göngum því af stað eftir verslunarferðina til að afla lausafés. Ég hafði gengið fyrr um morgunin og spurt eftir hraðbanka. Ég spurði vegfarendur um hraðbanka. Já, það er hraðbanki á þessari götu. Gakktu bara eftir götunni og þegar þú ert búinn að fara yfir fern gatnamót stendur hraðbanki á horninu. Ég geng og tel gatnamót. Uno, dos, tres, quatro. Senior, kalla fyllibytturnar á eftir mér. Eftir fjögur gatnamót svipast ég um eftir hraðbanka. Ég spyr fólk á götunni. Jú, það er hraðbanki 200 metrum lengra eftir sömu götu. Ég geng áfram og finn engan hraðbanka. Ég spyr enn og enn er mér svarað að ég skuli ganga eftir sömu götu, nú bara 50 metrum lengra. Ég geng og finn ekki hraðbanka. Ég spyr enn. Jú, það er hraðbanki í götunni bara aðeins lengra niður eftir götunni. Eftir tvenn gatnamót er hraðbanki á horninu. Senior, kalla tvær fyllibyttur sem sitja undir brú á eftir mér. Ég geng hiklaust áfram og tel tvenn gatnamót og enginn hraðbanki. Nú er ég viss um að argentínumenn hafa tekið sig saman um að stríða útlendingnum. Ég ákveð þó að spyrja einu sinn enn. Jú, það er hraðbanki í götunni, en bara aðeins lengra niður götuna, bara rétt áður en þú kemur að næstu gatnamótum. Ég geng flissandi af stað. Þetta er hlægilegt. En jú, hér blasir hraðbankinn við mér í skínandi bláu ljósi. Vandinn er bara að þessi argentínska tegund hraðbanka skilur ekki kortið mitt. Heldur ekki hin kortin mín. Ég geng til baka. Það eru að koma jól.
Jól
Strákarnir hafa ákveðið að þetta séu góð jól. Sus hefur galdrað fram “risallamand” og hátíðarmat þótt ekkert væri í ísskápnum. Íslenskir sálmar eru leiknir undir borðhaldinu. “Ó, Guð, ég veit hvað ég vil”.