Ho. Buenos Aires er farin að opna sig. Eftir langan göngutúr út í barndómshverfi Borgesar, Palermohverfið, er ég smám saman farinn að átta mig á borginni. Palermohverfið er hipsterahverfið hér í borg. Þar hittum við m.a. ungan mann sem framleiðir lampa og ávaxtaskálar úr sushi-pinnum. Ansi flott. Hann var einlæglega helgaður sínu kalli. Við keyptum af honum bæði skál og lampa. Ég er ekki frá því að þegar við opnum forlagsbúðina í Danmörku, og barinn, eigum við eftir að setja okkur aftur í samband við þennan unga mann.
Svefninn
Annars hefur baráttan aðallega staðið við svefninn þessa fyrstu daga í Buenos Aires. Daf er sá okkar sem hefur farið verst út úr jetlaginu (þotulakinu). Hann hefur lagst til svefns seint um kvöld, og svo byrjar baráttan. Þegar klukkan er að nálgast 02:00 er hann orðinn ansi örvæntingarfullur um að hann eigi yfirleitt eftir að sofna aftur. Kannski eigi hann aldrei aftur eftir að geta sofnað. Svo líður hann inn í draumalandið undir morgun. Þannig hefur þetta verið frá því við komum til Argentínu, nema í gær, þá sofnaði hann um klukkan 01:00. Ég hef lagst við hliðina á honum þegar örvæntingin er alveg að buga hann. Svo hef ég legið vakandi meira og minna alla nóttina lesið eða horft út í myrkrið og látið hugann reika.