Argentína, Buenos Aires: Annað betra

Það má segja að dagurinn hafi ekki byrjað vel. Eða að minnsta kosti ekki fyrir samferðamenn mína. Ég fékk, það sem mitt fólk kallar, flugu í höfuðið. Mér er nefnilega meinilla við alla svokallaða aumingjadýrkun. Og ef einhverjir eru meistarar í þessu fagi þá er það hið danska dagblað Politiken, sem ég les hvern morgun. Ég hafði haldið aftur af mér í nokkra daga að vekja tals á þessu umræðuefni, þar sem ég verð of ákafur. Ég verð bara öskuillur ef ég sé talað um “valdhafa”, og allt illt er valdhöfum að kenna. Sama hver valdhafinn er.  Eins og maður sjálfur beri enga ábyrgð og hafi engin völd. Maður sjálfur er alltaf stikkfrí. Valdhafar eru vondir, ég er góður. Þessi svart/hvíti heimur fer í taugarnar á mér. Þetta hefur oft fylgt menningarelítunni (Politiken er málgagn menningarelítunnar í Kaupmannahöfn) að vera dugleg að gagnrýna og benda á það sem ekki er nógu gott að þeirra mati án þess að koma með tillögur til bóta. “Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað, betra.”

IMG_5975.jpg

Politiken og aumingjapornoið
Nú hefur Politiken birt röð greina um þá einstaklinga sem þyggja “kontanthjælp”. Þetta er eins og gefur að skilja afar ólíkt fólk, og hefur komist í þessa miður skemmtilegu stöðu af ólíkum ástæðum. Sumar hafa verið óheppnir og öðrum er ekki viðbjargað, bara slappir einstaklingar sem eru hvorki sjálfum sér né öðrum til gleði. Ég veit ekki hverjum á að kenna um það. En Politiken tekst iðulega að mála heiminn svart/hvítan í þessum greinaflokki. Þetta ágæta fólk á “kontanthjælp” er allt hálfgerðir englar, sem eru fórnarlömb samfélagsins sem vill því bara illt. Allir þeir sem koma nálægt þeim hafa aukið á volæði þeirra. En um leið er sáð fræum tortryggni um þá einstaklinga sem bjarga sér án hjálpar kerfisins eða  jafnvel komist í álnir. Ég verð bara alltaf hálfæstur þegar heimurinn er teiknaður upp í þessum svart/hvítum litum. Æsing á þessum nótum þurfti fólk mitt að þola í morgun.

IMG_5978
Raðir grafhýsa, nokkur á mörgum hæðum og sum með kjallara.

Grafhýsin
Ég var því dreginn út í göngutúr. Og hér er heitt um þessar mundir, langt yfir 30 gráðum. Buenos Aires er stór, risastór. Malbik gatnanna var hálfbráðnað og það rauk upp úr gangstéttarhellum. Við höfum kannað hverfið sem við búum í, þar býr efnaminna fólk en hverfið er líflegt. Hipsterahverfið (Palermo) höfum við kannað. Það var ánægjulegt, mikil músik og fjör. Í dag heimsóttum við hverfi betri borgarana, sem er langt í burtu, Recoleta hverfið. Þingholt þeirra Buenos Aires búa. Og húsin voru fallegt og hér var ekki sorpið út um allar götur og gangstéttar eins og í okkar hverfi. Og hér voru fínni verslanir, fínni veitingastaðir og tempóið var hægara. Allt var örlítið fínna, en minna fjör. Við kíktum í frægan og fallegan kirkjugarð sem er í hverfinu og hýsir lík betriborgara í Buenos Aires. Þar er Eva Peron grafin. Þetta er merkilegur kirkjugarður þar sem í raun eru reist hálgerð marmarahús yfir hverja fjölskyldu. Sum á margum hæðum og með kjallara. Sumum finnst mikilvægt að búa vel um þá dánu.

6452545297_fc59061419_n
Gröf Evitu Peron í hinum fína kirkjugarði Buenos Aires.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.