Argentína, Buenos Aires. Ég tek eftir

Tek eftir því, hér í höfuðborg Argentínu, að fólk sest seint að snæðingi. Ég hef fylgst með kaffistéttinni fyrir utan íbúðina okkar og get staðhæft að veitingasalan er treg fram eftir kvöldi. Þegar klukkan nálgast 22:00 streymir fólk að, ekki endileg prúðbúið, til að borða kvöldmat eða léttari veitingar.

IMG_6020

Franskar druslur
Ég tek líka eftir því á göngu eftir götum Buenos Aires að íbúar eru veikir fyrir gömlum frönskum bílum. Renault, Citroën, Peugeot. Eða hvernig má ég skýra að ég geng fram á franskar druslur í löngum röðum. Franskir bílar hafa aldrei haft gott af því að eldast. Bíllinn hér á myndinni er af gerðinni Peugeot. Sama bílategund og sr. Guðmundur í Skálholti, vinur foreldra minna,  keyrði á alla tíð. Í æsku vissi ég allt um Peugeot og vakti stóra undrun hjá Palla sem hafði aldrei heyrt minnst á þetta franska bílmerki.

IMG_5990

Ruslið
Borgarbúar hafa frekar frjálslega afstöðu til rusls. Hér eru stórar ruslatunnur meðfram gangstéttum. Yfirleitt eru þær barmafullar og meira en það. Hluti af hinni afslöppuðu afstöðu til rusl er að vera sama hvort ruslapokarnir lenda í eða við hlið ruslatunnunnar. Heldur virðist lið sorphirðumanna fámennt. Aftur á móti virðist vera rík áhersla lögð á lög og reglu. Lögreglumenn eru við hvert fótmál, nær alltaf þrír eða fleiri í hóp, þungvopnaðir, en gersamlega verkefnalausir.

IMG_5968

Bókmenntirnar
Ég veit ekki mikið um bókmenntaáhuga fólks hér í landi en ég veiti því eftirtekt að Cortázar hangir víða uppi á veggjum hér í Buonos Aires eða skreytir eitt eða annað. Ég hef rekist á stuttermaboli með mynd af skáldinu, innkaupapoka, dagatal, matseðil á veitingahúsi og innrammaðar myndir sem hluta af veitingahússhönnun. (Skyldi ekki alveg konseptið því veitingahúsið hét London City). Ein magnaðasta bókabúð veraldar er hér í Buenos Aires. Gömlu leikhúsi hefur verið breytt í bókabúð og er góð sviðsmynd við bókakaup.

IMG_5940

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.