Argentína, Buenos Aires. Torg rónanna

Jæja, það er komið nýtt ár. Og árið hér byrjaði með úrhellis rigninu. Ég las frétt af konu í gær sem sagði að árið 2015 hefði verið bitch. Ég tek ekki undir það.

Ég kvaddi gamla árið í gær á Torgi rónanna, eins og ég kalla torgið, en það heitir eitthvað allt annað. Það voru friðsæl skipti frá 2015 til 2016, enda fengum við nánast einkagæslu af eldri manni í hermannabúningi, þ.e. hann var klæddur í jakka í felulitum, hann var í buxum í felulitum, með kaskeiti á höfðinu, í felulitum og á bakinu hafði hann úttröðinn bakpoka í felulitum. Hann var klæddur svörtum, háum hermannastígvélum sem hann girti buxurnar niður í. Í belti um mittið hafði hann löggukylfu og ég sá ekki betur en að maðurinn væri vopnaður. Hann stendur úti á miðri götu, stjórnar umferð bíla og gangandi af miklum myndarskap. Það fýkur auðveldlega í hann ef honum er ekki hlýtt samstundis. Þá tekur hann eitt skref í átt að brotamanni og er ógnandi.

IMG_1258
Hér er hermaðurinn okkar í hvíldarstöðu eftir að hafa sparkað burt  flugeldinum sem liggur út til hægri á myndinni.

Ungir drengir áttuðu sig ekki alveg á varðmanninum og kveiktu í flugeldi á hans umráðasvæði sem er um það bil 10 fermetrar. Hann horfði þegjandi á drengina bera eld að lítill “tertu” sem sprakk með miklum hávaða. Þegar flugeldurinn var útbrunninn gekk hann rosklega fram og sparkaði leifunum af “tertunni” burt af sínu svæði. Og gekk síðan samstundis til baka í réttstöðu.

Nýtt ár er komið og það virðist nokkuð víst að ég verð á ferðalagi fyrstu 5 mánuði ársins. Hvað svo tekur við, ja, það er eitthvað nýtt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.