Argentína, Buonos Aires. Hringekjan

Boca hverfið er ekki fjarri leiguíbúðinni, bara 15 mínútna gangur til heimavallar fótboltaliðsins fræga, Boca Juniors (Carlos Trevez er leikmaður þeirra nú). Það er víst ekki óhætt að ganga um götur Boca-hverfisins eftir að skyggja tekur. Um miðjan dag, og í glampandi sól, skynjar maður hina lúrandi hættu. Ungir menn í hópum sitja á húsþrepum með risastórar bjórflöskur (1,5 lítra) og eru harla órólegir og ófriðlegir. Húsin eru flest að hruni komin. Stórbyggingar standa tómar, gluggalausar og  stara niður á götuna með tómar augntóftir. Til að auka enn á óhugnaðinn snýst hringekja í miðju hverfinu, spilar háværa hringekjumúsik án þess að nokkur sé nærri, hvað þá að einhver hafi tekið upp á því að setjast á hesta hringekjunnar.

Maður getur ekki reiknað með að fá leigubíl hverfinu. Hingað eiga þeir ekki erindi nema í neyð. Því urðum við að treysta á að geta tekið sprettinn út úr hverfinu ef aðstæður yrðu of þrúgandi. Daf var harla skelkaður og ekki minnkaði spennan þegar skyndilega glumdu háværir hvellir ekki langt undan. Voru þetta byssuskot? Eða voru þetta hvellhnettur í tilefni áramóta? Daf kipptist illa við og var tilbúinn  að taka til fótanna þegar ég kippti í hann.

Við sluppum lifandi, og satt að segja var ég ekki hræddur. Ég var tilbúinn að berjast við hvern sem er.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.