Argentína, Buenos Aires. Forsetaefnið

Mér var bent á það í gær, áður en ég lagði af stað til Uruguay, að kannski mundi Andri Snær bjóða sig fram til embætti forseta Íslands. Það finnst mér bara vel til fundið hjá Andra. Hann hefur svo margt gott til að bera, það er bjart yfir honum, hann er snjall og uppfinningasamur. Hann er alþýðlegur og vinsæll. Ég mundi kjósa Andra.

Stríðni
Mér var bent á það í sama pósti að ég hefði, á bókmenntahátíð í Reykjavík fyrir mörgum árum, verið að stríða forsetaefninu. Ég man þetta ekki en viðurkenni að það er harla líklegt að ég hafi strítt honum. Ég er alltaf að stríða, sumir hafa gaman af stríðninni aðrir ekki.

Blái hnötturinn
Þetta var á þeim árum sem Andri Snær var í mikilli sveiflu í kringum bókina Blái hnötturinn og hann var mjög áfram um að koma bókinni á framfæri, enda duglegur sölumaður. Bókin hafði fengið frábærar viðtökur á Íslandi, og ef ég man rétt, þá hlaut bókin Hin íslensku bókmenntaverðlaun og líklega selst í bílförmum.

Bókmenntahátíðin
Til bókmenntahátíðarinnar komu margir virðulegir gestir, frægir rithöfundar, ábúðamiklir útlenskir forleggjarar og jafnvel valdamiklir umboðsmenn rithöfunda. Það tíðkaðist að þátttakendur og íslenskt bókmenntalið hittist á barnum í Iðnó eftir að kvölddagskrá hátíðarinnar var lokið. Þar var alltaf þröngt á þingi. Á meðal hinna tíðu gesta var Andri og af einhverjum ástæðum kom það oft í minn hlut að kynna Andra, þennan bjartleita og hugdjarfa unga mann, fyrir mikilvægum erlendum spekingum sem gætu haft áhuga á að kaupa Bláa hnöttinn til útgáfu í útlöndum. Þetta gekk vel framan af og Andri náði sambandi við ótrúlegasta fólk enda viðræðugóður með eindæmum.

Hitt í mark
Þegar líða tók á hátíðina, sennilega á þriðja degi, var ég kannski ekki eins einbeittur í að hjálpa Andra og í upphafi. Andri var staddur við hlið mér þegar danski menningarblaðamaðurinn hjá Politiken, Carsten Andersen, kom að tali við mig. Ég var eitthvað orðinn þreyttur á að mæra Andra fyrir útlendingunum svo ég notaði stystu mögulegu kynningu á skáldinu sem stóð við hlið mér.
“Carsten,” segi ég. “This young man is Andri Snær. He wants to be famous.”

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.