Uruguay, Colonia. Samviskubit

Já, Uruguay, þetta gamla knattspyrnuveldi liggur rétt undan ströndum Buenos Aires og við ákváðum að heimsækja landsmenn. Eftir klukkutíma siglingu gengum í Uruguayskt land  og samstundis fékk ég mjög góða tilfinningu fyrir landi og þjóð. Það var óvenju bjartur dagur í Uruguay í dag. Sólin sleikti á mér skallann með sinni heitu og þurru tungu. Og mér geðjaðist vel að því sem ég sá.

IMG_1276

Ég er enn að átta mig á að 2015 er að baki og nú getur allt byrjað upp á nýtt. Byrjar allt upp á nýtt? Á maður til dæmis eftir að halda áfram að gefa út bækur. Sumir telja það vafasamt.

Ég las grein í New York Times fyrir nokkru eftir Jonathan Franzen. Í greininni fjallaði hann um gamla bók sem honum þótti óverðskuldað fallin í gleymsku. Ég man ekki hvað bókin heitir. Hún er mér gleymd og sennilega svo að segja gjörvöllu mannkyni. Það hefur að minnsta kosti ekki bólað á þessari bók eftir  Franzen veifaði henni framan í lesendur New York Times. En það sem mér þótti merkilegt í greininni var inngangurinn. Franzen segir að öllum muni vera ljóst að bókin sé að dauða komin. Þetta sé samdóma skilningur fólks síðustu 2-3 ára. Á sama hátt og dablöðin munu deyja á næstunni þá mun bókin og þá séstaklega skáldsagan deyja, bara enn hraðar. Og svo heldur hann áfram: það er kannski bara gott að bókin sem fyrirbæri deyi því ekkert í heiminum veki eins mikið samviskubit og bækur. Maður fær samviskubit yfir að hafa ekki lesið skáldsögu sem allir tala um og ef maður les svo bókina fær maður ekki síður samviskubit. Samviskubit yfir að hafa eytt dýrmætum tíma í að lesa uppspuna einhvers höfundar.

Ég er ekki sérstaklega sammála Franzen. Ég fæ ekki samviskubit yfir að eyða tíma mínum í lesa skáldsögur – nema þær séu lélegar. Ég er til dæmis að lesa barna- og unglingabók eftir Gunnar Helgason sem fær þessar líka fínu viðtökur. Ég hef smá áhuga á barnabókum og var forvitinn að lesa það sem stendur upp í hinu íslenska barnabókaflóði og ég fæ ekki betur séð að það sé bókin hans Gunna, „Mamma klikk“. Ég tek það fram að ég er rétt rúmlega hálfnaður með bókina en ég get ekki sagt annað en að mér finnist bókin alger lágkúra. Annað eins samsafn af klisjum er vandfundið. Ég á mjög erfitt að skilja hvernig þessi bók fær verðlaun og viðurkenningar. En kannski segja viðbrögð mín við bókinni frekar eitthvað um minn vanþroska eða fákunnáttu en að bókin sé slöpp. En ég set þennan sleggjudóm hér fram aðalega til að nefna dæmi um að ég hafi samviskubit yfir að eyða tíma mínum í fánýti með að lesa það sem mér finnst lélegan skáldskap.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.