Chile, Huemul: Munurinn á hvítum og gulum

Fyrir nokkrum dögum fékk ég senda mynd af sjálfum mér, alla leiðina til Suður-Ameríku, frá því ég er 9 ára gamall. Ég man ekki eftir að hafa séð þessa mynd fyrr. Myndin er svarthvít, tekin í íþróttasal Álftamýrarskóla þar sem ég stend brosmildur og kankvís fyrir framan ljósmyndarann (sem væntanlega hefur verið bekkarbróðir minn, hinn mikli áhugaljósmyndari, Skúli fótó). Ég er í hinum svokallað bekkjarbúningi 4-K (það sést að vísu bara rétt í hálsmálið á bolnum) sem var sami búningur og fótboltalið Sheffield Wednesday notaði þegar þeir spiluðu sinn enska fótbolta. Blá treyja með hvítum ermum og bláu ermastroffi. Ég hafði sjálfur teiknað upp, með aðstoð Binna (sem gekk undir nafninu Binni kaffibolli), hvernig liðsbúningurinn ætti að vera.

Ég var eitthvað óheppinn, því þegar mér hafði tekist að sannfæra einhvern fjölskyludmeðlim að nauðsynlegt væri að ég keypti þennan búning, eins og hinir drengirnir í bekkjarliðinu, voru treyjurnar uppseldar hjá Sportvöruverslun Ingólfs Óskarssonar á Klappastíg. Það voru gífurleg vonbrigði fyrir mig því ég hafði hlakkað óskaplega til að ganga inn í íþróttasal Álftamýrarskóla í bekkjarbúningnum. Ég stóð niðurbeygður við treyjurekkann og neitaði að trúa að allar treyjurnar væru seldar og engin eftir fyrir mig. Handboltastjarnan Ingólfur, eigandi búðarinnar, var ekki mikið fyrir að sjá á eftir mögulegum viðskiptavinum ganga tómhentum  út úr versluninni. Því setti hann á mikla tölu um hvað lítill munur væri í raun á hvítum lit og gulum. Sérstaklega í hita íþróttaleiks. Hann talaða af reynslu því hann hefði keppt yfir 500 leiki fyrir handboltalið Fram. Ég var vantrúaður en sættist loks á rök Ingólfs að það væri alltí lagi að hafa ermarnar gular í stað hvítu ermanna. Ég átti kannski ekki svo margra kosta völ. Því er ég í treyju sem var blá en með gulum ermum á myndinni. Sá eini í bekkjarliðinu. En það kemur ekki í veg fyrir feimnislegt bros mitt þegar ég stend fyrir framan myndavélina. En það er einmitt brosið sem kemur upp um allsvakalegt yfirbit svo framtennurnar skaga langt fram. Kanínutennur.

IMG_6188
Hér hljóp kanín framhjá mér. 

Mér varð bara hugsað til þessarar myndar af því að lítil, skelkuð kanína skaust fram hjá mér þar sem ég sit út í garðinum fyrir aftan húsið hér langt upp í sveit inn í miðju Chile og velti fyrir mér afhverju Hannes Pétursson horfir svo oft i gegnum sjónauka í ljóðum sínum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.