Chile, Huemul: Sveitin í Chile

Við erum komin langt út í chileanska sveit. Búum rétt við smáþorp mitt inni í Chile á litlum sveitabæ sem sérhæfir sig í að hýsa ferðamenn. Við keyrðum frá Valaparaiso klukkan 11 í morgun og stefndum í suður og lentum hér í Huemul fjórum tímum seinna þar sem Sus (ferðatrumpurinn okkar) hafði fundið fallegan stað til að gista á. Og hér er fallegt og friðsælt.

Á leiðinni suður var augljóst að Chilie er fátækt land. Í samanburði við Danmörku og Ísland er hér örbirgð. Flest hús eru hálfgerðir kofar, eða hreysi, byggð úr bárujárni eða afgangsspítum. Rusl út um allt.

Við búum hjá hjónum og enn einu sinni kemur saga fólks manni á óvart. Hann er ljóðskáld frá Santiago og kannski ekki mikið að segja um hann annað en að hann er vinsamlegur og ljúfur. Hann talar ekki ensku svo við vitum fátt.

Hún er belgísk og er kokkur og talar ensku. (Og maturinn sem hún ber hér á borð er hreinn ofurklassi). Eftir menntaskóla fór hún um borð í skútu með þáverandi kærasta sínum og þau sigldu af stað. Næstu þrjú ár sigldu þau um heimshöfin og lifðu af að veiða fisk og smásparnaði frá Belgíu. Þegar þau voru í mið-ameríku var kærleikurinn líka kominn á endastöð og hver um sig fór sína leið. Hún fór til Chile og byrjaði að vinna á veitingastað og það kom í ljós að hún var afbragðskokkur. Á veitingastaðnum var einn af fastagestunum gyðingur sem var aðalmaðurinn hjá ginframaleiðandanum Seagram. Hann var ofurríkur og bauð henni að verða einkakokkur sinn í New York. Næstu árin bjó hún á Manhattan og eldaði fyrir gyðinginn og vini hans fyrir fín laun. Allt gott tekur enda og hún ákvað að flytja frá New York þar sem henni líkaði ekki vistin sérlega vel á Manhattan. Hún flutti aftur til Chile. þar sem hún fór aftur að vinna á veitingastöðum. Einhver vinur hennar sagði henni frá þessu landi sem við búum nú á og að það væri til sölu fyrir fáa pesosa. Og hún keypti landið, byggði hús og byrjaði að bjóða upp á matreiðslunámskeið. Byggði annað hús sem hún leigði til ferðamanna sem vildu koma á matreiðslunámskeið hjá henni. Hún hitti manninn sinn og nú reka þau þennan stað saman.

Nú eru hér 6 hús og pláss fyrir 14 manns. Garðurinn er fullur af grænmeti og ávöxtum sem hún notar í matargerðina. Hér ganga hænur um sem verpa eggjum og eru sérstaklega gott kjúklingakjöt. Hér eru þrír hundar.

Þau hafa opið 7 mánuði á ári. 5 mánuði njóta þau þess að rækta grænmeti, hafa frí og dýr í kringum sig, og eiga þennan stað.

Mér verður hugsað til alls þess fólks sem ég þekki í Danmörku og Íslandi þar sem lífið er endalaus barátta við klukkuna.

Svo lifir fólk mismunandi lífi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.