Vegurinn hingað liggur í djúpri rennu. Á báðar hendur eru mannhæðarháir moldarveggir. Rótarendar trjánna gægjast út og fyrir ofan okkur gína barrtré. Þó að hábjartur dagur sé er svo dimmt hér niður í þessum moldarfarvegi að við þurfum að hafa bílljósin kveikt.
Við villtumst fyrst, enda merkingar ekki áberandi, og enduðum við þyrpingu fátæklegra húsa úr mislitu bárujárni. Einn horaður hestur var í túninu. Við komust þó fljótt á rétt leið og brátt opnaðist heimurinn fyrir okkur. Við keyrðum upp og beint framundan og hátt yfir okkur stendur tignarlegt, keilulaga eldfjall. Úr toppnum stígur grár reykur.
Skilti með mynd af sól beinir okkur að hinu rétta húsi og á hlaðinu býr gestgjafi okkar. Kona á sjötugsaldri, borsmild og glaðleg veifar hún til okkar. Hún er ekki sérlega suðuramerísk að sjá. Ljós á hörund með ljóst hár og fljótlega slæst maður hennar í för með henni. Lágvaxinn hvíthærður maður. Hann veifar líka til okkar og ganga til móts við okkur. Við keyrum í hlað með langa rykslæðu á hælunum.
Hér ætlum við að búa næstu daga. Útsýn yfir vatn og útsýn til eldfjalls og nokkrar kýr á beit í haga hér fyrir neðan.